16.10.1961
Neðri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

6. mál, bann gegn stöðvun millilandaflugs

Eðvarð Sigurðsson:

Forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir til staðfestingar á brbl., er, eins og hæstv. ráðh. gat hér um, vegna þeirra laga, sem ríkisstj. setti í sumar, meðan á verkföllunum stóð. Hæstv. ráðh. vill láta liggja að því, að þessi lög, sem þá voru sett, hafi ekki gripið inn í þær deilur, sem yfir stóðu í sumar, og hafi ekki haft, að mér skilst, nein áhrif þar á og tilgangurinn hafi ekki verið sá að grípa inn í þau verkföll, sem þá stóðu yfir, þegar brbl. voru sett. Ég held, að þetta sé eins víðs fjarri sannleikanum og nokkuð getur verið.

Við skulum fyrst aðeins rifja upp, hvað um var að ræða í sumar í verkföllunum. Það var, að eftir nærri sex mánaða látlausar tilraunir til þess að fá leiðréttingar á þeim samningum, sem verkalýðsfélögin höfðu sagt upp, raunverulega löngu áður, þá loksins voru tilkynntar vinnustöðvanir, sem hófust síðan í lok maímánaðar, um mánaðamótin maí-júní, hjá fjöldamörgum félögum, m.a. hjá verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík, sem á einmitt aðild að þessu máli, þannig að það voru hennar félagsmenn, sem þessi lög fyrst og fremst voru sett gegn. Röskum sex mánuðum áður en verkfallið hófst var rætt við ríkisstj. af hálfu verkalýðsfélaganna og leitað eftir samkomulagi við hana um ráðstafanir, sem gætu komið í veg fyrir það, að til verkfalla þyrfti að koma. Ríkisstj. lét í raun og veru aldrei svo lítið að svara því. Það var ekki fyrr en á miðjum vetri, komið fram í marzmánuð, þegar sameiginleg nefnd, bæði frá verkalýðsfélögunum og atvinnurekendum, gekk á fund hæstv. ríkisstj., að loksins kom neikvætt svar við öllu, sem eftir hafði verið leitað. Það verður sem sagt ekki sagt, að verkalýðshreyfingin hafi í vetur eða í aðdraganda þeirra verkfalla, sem urðu í sumar, farið með einhverju harki og látum og ekki gefið ríkisstj. eða atvinnurekendum svigrúm til þess að átta sig á, hvað í vændum hlyti annars að vera. Ég þarf ekki að minna á, að ástæðan til þess, að svo var komið, var það, að tvisvar sinnum hefðu gerðir samningar verið skertir allfreklega: Fyrst í byrjun ársins 1959. Ég held, að það sé viðurkennt af opinberri hálfu, þ.e.a.s. af hæstv. ráðherrum, sem þá voru í ríkisstj., að sú kjaraskerðing, sem þá fór fram, hafi a.m.k. numið 6%, kaupið hafi verið lækkað um 6%. Síðan með ráðstöfununum í fyrravetur, veturinn 1960, gengisfellingunni og öllu, sem í sambandi var við gengislækkunina, afnámi vísitöluuppbótanna o.s.frv. Þá var það staðreynd samkvæmt þeim tölum, sem hagstofan gefur út með vísitölunni, að kjör manna höfðu verið skert um 18% frá því í marz 1960 og þangað til í maí í vor, að menn loksins létu til skarar skríða gegn þessum kjaraskerðingum.

Það hlaut þess vegna að vera hverjum manni ljóst og átti a.m.k. að vera þeim, sem áhrif hafa hér og valdaaðstöðu, að til tíðinda hlaut að draga. Ríkisstj. hafði verið vöruð við og þess leitað, að hún gerði ráðstafanir til þess að koma til móts við kröfur verkalýðsfélaganna, svo að ekki þyrfti að koma til neinna stórátaka eða stöðvana.

Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir margsinnis í fyrravetur, þegar gengisskráningarlögin og annað slíkt, viðreisnarmálin öll voru hér til umr., að afskipti af vinnudeilum hugsaði hún sér ekki að hafa, það væri mál, sem verkalýðsfélögin og atvinnurekendur ættu að leysa sín í milli, en hún mundi ekki hafa afskipti af. Ég held, að það verði nú ekki sagt, að ríkisstj. hafi staðið við þetta. Síður en svo. Og ég er ekki heldur að segja, að ríkisstjórnir eigi endilega að láta þessi mál algerlega afskiptalaus. Ég held, að þeim beri að reyna að forða vandræðum, og áreiðanlega á ríkisstj, í málum sem þessum að reyna að koma á sættum milli aðila og reyna að forða vandræðum. En sú hefur nú ekki orðið á raunin.

Hvernig stóðu mál, þegar þessi brbl. voru gefin út? Þá hafði verkfall staðið í röska viku hér í Reykjavík, líklega 9 daga. En tveimur eða þremur dögum áður en þessi brbl. eru gefin út, var samið við verkalýðsfélögin á Akureyri og Norðurlandi, og það var vitað þá, að sams konar samningar mundu gerðir hér í Reykjavík, og það voru aðeins þeir, sem vildu ekki sjá, sem vissu þá ekki, að það var búið að semja um það, sem hlaut að koma. Flugfélögin höfðu markað sína afstöðu við hlið atvinnurekenda. Þau eru bæði í Vinnuveitendasambandi Íslands, að sjálfsögðu fyllilega meðvitandi um það, hvaða skyldur og hvaða réttindi það hefur í för með sér. Flugfélögin höfðu sjálf kosið sér sína stöðu. En þrátt fyrir þetta gaf verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík flugfélögunum nm viku lengri frest frá vinnustöðvun en nokkrum öðrum atvinnurekendum, til þess að þau gætu komið sínum málum í kring. Þessi frestur var af engum notaður, hvorki af flugfélögunum né heldur af ríkisstj. Maður sá það a.m.k., er brbl. komu, að ríkisstj. hafði sannarlega fylgzt með þessum málum. Ekki eitt eða neitt var reynt til þess að ná samkomulagi.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að ef ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana, hefðu flugfélögin orðið gjaldþrota. Það er næstum því hlægilegt að segja þetta. En það getur vel verið, að þetta sé rétt, ég ætla ekki út af fyrir sig að rengja það. En veit hæstv. ráðh., hvers konar hégómaupphæð hér var um að ræða, ef flugfélögin hefðu gengið að — við skulum segja öllum kröfum verkalýðsfélaganna? Það er hreinn hégómi í milljóna- og tugmilljónarekstri flugfélaganna og hafði að sjálfsögðu ekki minnstu áhrif á það, að rekstur þeirra kæmi illa út, nema að sjálfsögðu, að með því var hægt að forða þeirri rekstrarstöðvun, sem annars blasti við.

Nei, það var allt annað, sem hæstv. ríkisstj. gerði á þessum tíma, heldur en reyna að koma á sættum, reyna að koma í veg fyrir vinnustöðvunina eða reyna að stytta vinnustöðvunina. Ekkert af þessu var gert, heldur alveg öfugt. Maður skyldi halda, að það hefði beinlínis verið áhugamál hæstv. ríkisstj., að verkfallið í sumar yrði sem allra lengst.

Ég vil nota það tækifæri, sem ég hef hér, til þess að lýsa því yfir, að verkalýðshreyfingin skoðaði þessi lög og skoðar þau enn og önnur slík, sem álíka eru, sem hrein ofbeldislög gagnvart sér. Með slíkum lögum sem þessum er verið að skerða þann rétt, sem verkamenn telja sér helgastan, verkfallsréttinn, sem á að vera þó bundinn í lögum, öðrum íslenzkum lögum, en svo er skertur, þegar mönnum eða ríkisstjórnum býður svo við að horfa, eins og nú hefur orðið reyndin á, sérstaklega varðandi þetta fólk, og er það í annað sinn, sem ríkisstj. setur brbl. til þess að hlaupa undir bagga með þessum milljónafyrirtækjum, sem flugfélögin eru.

Gildistími þessara laga er þannig, að ef Alþingi ætlar að samþykkja þau, þá er um aldur og ævi búið að taka verkfallsréttinn af þeim mönnum, sem eitthvað starfa við millilandaflug. Ég held, að það sé skylda hv. alþm, að skoða hug sinn vel, áður en þeir samþykkja þessi brbl„ sem hér er verið að leita staðfestingar á. Það er sem sagt verið með því að svipta alla, sem við millilandaflug vinna, verkfallsréttinum um aldur og ævi, nema önnur lög verði sett, sem afnemi þessi, eða þau afnumin.

Hæstv, ráðh. sagði, að það hefði borið brýna nauðsyn til þess, að þessi lög yrðu sett í sumar. Látum skoðun hans á því liggja milli hluta núna. Ég er búinn að lýsa minni afstöðu til þeirra. En var það ekki sérstakt ástand og mjög tímabundið ástand, sem gerði þetta svona brýnt? Gerði þetta tímabundna ástand í sumar það að verkum, að það skyldu sett lög, sem svipta þessa menn verkfallsrétti um aldur og ævi? Ég vil mjög eindregið skora á hv. dm. að greiða atkv. gegn þessum lögum og það strax við 1. umr.