08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Guðlaugur Gíslsson:

Herra forseti. Umr. um þá till., sem hér liggur fyrir, hafa spunnizt út í almennar umr. um verkalýðsmál og kaupgjaldsmál, og er það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þegar athuguð er afstaða stjórnarandstöðunnar til þessarar till. Það ern aðeins tvö atriði, sem hér hafa komið fram, sem mér þykir ástæða til að vekja athygli á og ræða stuttlega. Ég mun ekki verða langorður um það.

Það er í fyrsta lagi það, sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) benti hér á í sinni fyrstu ræðu, að það væri sjálfsagt að reyna allar leiðir, áður en lagt væri út í verkföll. Ég held, að allir geti verið sammála um, að þetta sé það einasta rétta og svo hafi það löngum verið á fyrstu árum verkalýðsbaráttunnar. En því miður er nú svo komið hjá okkur í þessum málum, að þetta virðist vera orðið algert aukaatriði, þegar settar eru fram kaupkröfur og samninganefndir talast við. Það er staðreynd, sem a.m.k. mér er mjög kunnugt um, að í kjölfar þeirra kaupkrafna hefur verkfall verið tilkynat, án þess að nokkuð hafi verið reynt að ná fram samkomulagi eða sáttum. Þetta liggur glögglega fyrir um vinnudeilur nú hin síðari ár, og það er einmitt þessi þróun, sem er mjög hættuleg þjóðfélaginu, að það virðist ekki vera orðið aðalatriðið að ná samkomulagi, heldur að koma verkföllum á. Það þarf ekki að fara með það í neinar grafgötur, af hverju þetta er. Það hefur hlaupið sem kallað er pólitík í verkalýðsbaráttuna, og það er hennar ógæfa og það er það, sem hætta stafar af í sambandi við þessi mál.

Annað var það, sem kom fram hjá hv. 11. landsk. (GJóh) í hans ræðu, þar sem hann minntist á, að stefnt væri að því að svipta launamenn þeirra verkfallsrétti. Sú sorglega staðreynd liggur fyrir, að það er — raunveralega búið að svipta launamenn þeirra verkfallsrétti. En það hefur hvorki verið gert af Alþingi né atvinnurekendum. Ef við athugum lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, 15. gr. 1, sem um þetta fjallar, þá kemur þar í ljós, að til þess að stofna til verkfalls er í fyrsta lagi gert ráð fyrir, að sú ákvörðun hafi verið samþykkt við almenna leynilega atkvgr. félagsmanna, í öðru lagi, að samninganefnd hafi umboð almenns félagsfundar til þess að boða verkfallið, og í þriðja lagi, að trúnaðarráð stéttarfélagsins hafi samþ. það með a.m.k. 3/4 hlutum atkvæða. Nú er það svo, og ég held, að það hljóti að vera öllum ljóst, að það er orðið mjög fátítt, ef ekki orðið hreint einsdæmi, að stéttarfélag hefur á bak við samþykkt um vinnudeilu atkvgr., sem farið hefur fram í félaginu eftir þeim reglum, sem gert er ráð fyrir í 1. lið 15. gr., þ.e.a.s. að bak við þá ákvörðun liggi samþykkt félagsmanna við leynilega atkvgr. Ef þeirri reglu væri fylgt, þá er ég sannfærður um, að mörgum verkföllum hefði verið afstýrt hér á landi nú að undanförnu. En því miður, eins og ég sagði, er þetta orðið mjög fátítt. Almennast er, að sé boðað til almenns fundar og þar fái stjórn eða trúnaðarmannaráð umboð til þess að boða vinnustöðvun. Það vita allir, hvernig er orðið með fundarsókn, .jafnt í stéttarfélögum sem annars staðar. Það er aðeins fámennur hópur, sem mætir, og það er þessi fámenni hópur, sem venjulegast og oftast hefur veitt stjórnum stéttarfélaganna umboð til þess að hefja verkföll. Ég tel, að þessi þróun, sem hafi átt sér stað og ég hef hér bent á og er staðreynd; sem allir vita um, leiði til þess, að það verði að breyta vinnulöggjöfinni, ekki til þess að skerða rétt launþega eða skerða þeirra verkfallsrétt, heldur til þess að tryggja, að þeirra verkfallsréttur sé ekki misnotaður, eins og gert hefur verið áður. Það er það grundvallaratriði, sem verður að breyta í löggjöfinni, að þetta eigi sér stað, að verkfall verði ekki sett á, nema fyrir liggi óyggjandi vissa um, að það sé gert með vilja meiri hluta þeirra félagsmanna, sem þar eiga hlut að máll. Ég er sannfærður um, að ef þannig væri staðið að málum, mætti forða bæði launþegum og þjóðinni í heild frá miklu fjárhagstjóni, sem hún á undanförnum árum hefur borið vegna verkfalla, sem hefur verið staðið að á þann hátt, sem ég hef hér lýst, og allur almenningur og allir vita að hafa verið sett á með mjög takmörkuðu umboði launþega sjálfra og oft komið í ljós síðar meir, að þeir hafi ekki óskað eftir verkfallinu, látið afskiptalaust, en fara ekki í það, sem eðlilegt er, að brjóta niður verkfall, sem er löglega sett á. Ég er ekki að væna neitt stéttarfélag um það að hafa staðið ólöglega að verkfalli, en bara lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eru það rúm, að ef er fyrir hendi tilhneiging til þess að misnota löggjöfina, þá er þetta fyrir hendi, sem skeð hefur, að verkföllin eru sett á, án þess að nokkur vissa sé fyrir því, að það sé vilji meiri hluta launþega.