20.11.1961
Neðri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Háttv. forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjhn., varð öll fjhn. d. sammála um það, að rétt væri að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir. Ég kaus þó að gefa út sérstakt nál. og gera þar grein fyrir afstöðu minni til málsins og þá um leið fyrir brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv.

Ég tel, að frv. gangi of skammt og að það sé eðlilegt að lækka hér hin háu aðflutningsgjöld á fleiri vörutegundum en um getur í frv., og að það sé sízt minni ástæða til þess að taka þær vörur, sem ég legg til að lækkuð verði aðflutningsgjöld á, heldur en ýmsar þær vörur, sem tilgreindar eru í frv. Og í öðru lagi flyt ég svo brtt. við frv. um það, að þær vörur, sem nú er gert ráð fyrir að lækka aðflutningsgjöld á, verði allar settar undir verðlagseftirlit, svo að tryggt megi verða, að sú tollalækkun, sem hér verður samþykkt, komi fram í útsöluverði á þeim vörum, sem hér er fjallað um.

Af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur frv. þetta fyrst og fremst verið rökstutt með því, að ætlunin sé með því að draga úr smygli í landinu. Það má segja, að aðalskýringin frá hálfu hæstv. fjmrh. fyrir því, að hann leggur nú til að velja þessar vörur sérstaklega og lækka á þeim tolla, sé sú, að stórkostlegt smygl eigi sér stað í sambandi við sölu á þessum vörum og það stafi fyrst og fremst af því, að aðflutningsgjöld á þeim séu orðin óeðlilega há. Ég dreg það að vísu ekki í efa, að smygl muni vera talsvert í landinu. En ég hef sagt það áður, þegar þetta mál hefur verið rætt hér, að ég vil þó ekki álíta, að smygl sé neitt verulega miklu meira en það hefur verið, og ég held, að það séu aðrar orsakir, sem liggja til þess, hve sala hefur dregizt stórkostlega saman á þeim vörum, sem hér um ræðir. Það liggur nú fyrir, að á s.l. ári, 1960, varð stórkostlegur samdráttur í innflutningi á þeim vörum, sem frv. fjallar um. Það mun láta nærri, að samdrátturinn nemi í kringum 27%. Ef þessi skýring hæstv. ríkisstj., sem hún hefur lagt hér allmikla áherzlu á, væri rétt, þá væri þar með því slegið föstu, að á árinu 1960 hafi orðið snöggleg breyting til stóraukins smygls í landinu. Það er nú upplýst af þeim, sem með framkvæmd þessara mála hafa að gera, að þeir lýsa því alveg afdráttarlaust yfir, að samdrátturinn í innflutningi löglegum innflutningi — á þessum vörum hafi einkum og sérstaklega átt sér stað á árinu 1960. Þó að ég vilji ætla, að margt hafi gengið aflaga í sambandi við viðreisnarstefnuna í fjárhagsmálum, þá held ég samt ekki, að þessi sök, sem hæstv. ríkisstj. er þarna á beinan eða óbeinan hátt að leggja á viðreisnarpólitíkina, sé í raun og veru rétt. Ég held, að það, sem hefur verið að gerast í þessum málum, sé einfaldlega það, sem við stjórnarandstæðingar bentum á strax í upphafi. Það var alveg fyrirsjáanlegt, að hér mundi verða um mjög verulegan samdrátt að ræða í innflutningi á ýmsum vörum, að minnkandi kaupmáttur í landinu hlyti að segja til sín í því, að fólk keypti minna, sérstaklega af þeim vörum, sem menn gætu fremur látið ógert að kaupa. Þetta hefur komið skýrt fram einmitt í sambandi við þessar hátollavörur. Þær hafa minnkað í innflutningi stórkostlega samkvæmt skýrslum á árinu 1960, og það er vegna þess, að verðlagið með gengisbreytingunni í febrúarmánuði 1960 var hækkað jafnstórkostlega og menn þekkja. Það náði vitanlega engri átt að halda öllum þeim miklu innflutningsgjöldum, sem í gildi voru áður, eftir að hin stórkostlega gengislækkun var samþykkt í febrúarmánuði 1960. Slíkt hlaut vitanlega að leiða til þess, að innflutningur og sala á þessum vörum mundi dragast saman. Nú hefur hæstv. ríkisstj. rekið sig á þetta í framkvæmd. Hæstv. fjmrh. hefur fengið að finna til þess, að fólkið í landinu kaupir minna af þessum vörum, þessar vörur gefa ríkissjóði minni tekjur en áður, og af því neyðist nú ríkisstj. til þess að viðurkenna staðreyndir og slaka nokkuð á. Hún viðurkennir það sem sagt, að viðreisnarverðlagið fær ekki staðizt. Það er óhjákvæmilegt að lækka það, t.d. í þeim tilfellum, þar sem tekjur ríkissjóðs eiga í hlut. Ég held, að þetta sé aðalskýringin og að þannig beri að líta á þessa hluti.

En einmitt í framhaldi af þessu held ég, að það sé hollt fyrir hæstv. ríkisstj. að átta sig á því, að hér er um miklu fleiri vörur að ræða, sem eins stendur á um og almenningur í landinu verður nú að neita sér um að kaupa. Ég flyt hér brtt. um, að verulega verði lækkuð aðflutningsgjöld t.d. á alls konar heimilistækjum, rafmagnsheimilistækjum. Innflutningur þeirra og sala á þeim hefur stórkostlega minnkað. Hér er þó um býsna þörf tæki að ræða á flestum heimilum, en þó skal það játað, að þau eru þess eðlis, að hægt er að komast af án þeirra. Ég held, að það væri ekki síður nauðsyn á því að örva nokkuð innflutning aftur á þessum ágætu tækjum heldur en t.d. að örva nú aftur innflutning á loðskinnum og naglalakki og ýmsu öðru, sem tilgreint er í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hef líka leyft mér að flytja hér till. um, að lækkuð verði aðflutningsgjöld á búsáhöldum, útvarpstækjum, varahlutum í ýmsar vélar, en aðflutningsgjöld á öllum þessum vörum eru hrikalega há nú, þegar tillit er tekið til verðskráningarinnar á gjaldeyrinum. En það er vitanlega óhjákvæmilegt að hafa það atriði einnig í huga, þegar menn virða fyrir sér gjöldin, sem áður voru, því að þau voru að verulegu leyti svona há á þessum vörum vegna þess, að gengi krónunnar var skráð eins og það var.

Ég tel sem sagt, að það beri að fagna því, að hæstv. ríkisstj. er að átta sig á því, að viðreisnarverðlagið fær ekki staðizt á fjöldamörgum vöruflokkum. En ég vonast til, að ríkisstj. átti sig á því, að hún gengur allt of skammt í þessum efnum. Hér þarf að koma til lækkun á miklu fleiri vöruflokkum. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. segir, að í þessu frv. hafi einvörðungu verið teknar og lækkuð aðflutningsgjöld á þeim vörum, sem nú bera yfir 100% aðflutningsgjöld. En það liggur þó fyrir, að fjöldamargar vörur eru enn miklu nauðsynlegri en þær, sem tilgreindar eru í þessu frv., sem bera aðflutningsgjöld, sem eru langt yfir 100%. Af hverju má ekki taka þær vörur líka?

Þá tel ég, að það nái í rauninni engri átt að samþykkja slíka tollalækkun sem þetta frv. fjallar um, án þess að tryggja með sérstökum ráðstöfunum, að tollalækkunin komi örugglega fram í útsöluverði á vörunum. En nú liggur það einmitt fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því á þessu ári að undanþiggja verðlagsákvæðum allmargar þeirra vara, sem þetta frv. fjallar um. Einmitt af því að það hefur verið gefin á þessu ári frjáls álagning á ýmsum þeim vöruflokkum, sem frv. fjallar um, tel ég, að það sé óhjákvæmilegt, ef á að tryggja, að tollalækkunin komi fram í útsöluverði á vörunum, að setja þessar vörur undir verðlagsákvæði á ný. Ég vil líka benda á það, að flestar þær vörur, sem hér er gert ráð fyrir að lækka tolla á, eru þess eðlis, að það er mjög erfitt fyrir almenning í landinu að átta sig á því, hvað er rétt verð á slíkum vörum. Vörurnar eru mjög breytilegar að gæðum og útliti, eins og yfirleitt hinar svonefndu lúxusvörur eru. Það er því mjög auðvelt, þegar ekkert eftirlit er með álagningunni, fyrir þá, sem hafa söluna á vörunni með höndum, að stinga í sinn vasa þeirri tollalækkun, sem þarna er ákveðin. En ég vil vænta þess, að það hafi þó verið meining hæstv. ríkisstj. að sjá um það, að sú tollalækkun, sem hér verður væntanlega samþykkt, komi fram í útsöluverði á vörunum, en hún eigi ekki að lenda í vösum milliliðanna. En það verður varla tryggt á annan hátt en þann að fela verðlagsyfirvöldunum að gæta að því, að útsöluverð á vörunum lækki í hlutfalli við tollalækkunina.

Ég veit, að það er öllum ljóst, að þær vörur, sem hér er um að ræða, eru þess eðlis, að það er mjög erfitt fyrir almenning að fylgjast með réttu verðlagi á þeim. Vörur eins og t.d. þær, sem ég skal lesa hér upp nokkur nöfn á, eins og ilmsmyrsl, naglalakk, varalitur, baðsalt, ilmpappír, loðskinn og annað þess háttar, þetta eru svo breytilegar vörur, að það er ómögulegt að hugsa sér, að almenningur í landinu geti fylgzt með því, hvort það hefur raunverulega verið tekið tillit til tollahækkunarinnar við verðlagningu á þessum vörum eða ekki. Þannig er yfirleitt ástatt með þessar vörur, og ég álít, að ef það er í raun og sannleika vilji ríkisstj. að sjá um, að þessi verðlækkun komist út í útsöluverðið, en lendi ekki hjá milliliðunum, þá eigi hún að standa að því að samþykkja tillögu mína um það, að a.m.k. fyrst um sinn verði þessar vörur, sem hér er nú ætlað að lækka tolla á, settar undir verðlagsákvæði, svo að það sé tryggt, að sá njóti, sem átti að njóta lækkunarinnar.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum að sinni. Brtt. mínar eru á þskj. 124, þar sem ég legg til, að bætt verði við frv. allmörgum vörutegundum, og önnur er á þskj. 123, þar sem ég legg til, að þessar vörur, sem frv. fjallar um, verði settar undir verðlagsákvæði. En að öðru leyti er ég samþykkur efni frv., svo langt sem það nær.