26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tók það skýrt fram í minni frumræðu, að ég ætla, að ég miðaði við meðalíbúð. Nú er það að vísu ofur lítið teygjanlegt, hvað meðalíbúð er. Ég hygg, að hún nái vel þessum tölum, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, sé heldur meira en það. Ég hygg þannig, að það sé nú örugglega sýnt fram á það með þeim tölum, sem hv. 4. þm. Vestf. rakti hér áðan, að það hafi verið algerlega rétt, sem ég hélt fram, að hækkun byggingarkostnaðar á meðalíbúð á þessu tímabili, sem ég tiltók, næmi meira en 100 þús. kr. Það hygg ég, að sé sú óvefengjanlega staðreynd í þessu máli. Og þá vildi ég líka benda á það, að hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ), sem þessum málum öllum er allra manna kunnugastur, eins og ég drap á í minni fyrri ræðu, viðurkenndi það, má ég segja, að það mundi minna vera um það nú en áður, að menn legðu í nýbyggingar. Ég hygg, að þetta sé ekki of sterkt til orða tekið hjá honum, og vil þess vegna leyfa mér að ganga út frá því, að það sé líka staðreynd í þessu máli, að það sé mun minna, sem byrjað er á íbúðum nú, heldur en áður var. Og um háskalegar afleiðingar þeirrar þróunar þarf ekki að fjölyrða, enda varð ekki annað ráðið af ræðu hæstv. ráðh. en hann væri fyllilega sammála um það efni, ef staðreyndirnar væru á annað borð þær, sem ég vildi vera láta.

Hæstv. ráðh. og 6. þm. Norðurl. e. voru hissa á því og hálfpartinn hneykslaðir, að mér fannst, að ég skyldi í sambandi við þetta mál hreyfa vissum atriðum, sem þeir töldu því óskyld og ætti að láta kyrr liggja í sambandi við þetta mál. Ég skil vel þessa afstöðu þeirra, hæstv. ráðh. og hv. þm. En ég held, að það sé alger misskilningur hjá þeim, að ég hafi blandað óskyldum atriðum inn í þetta mál. Frá mínu sjónarmiði séð er óhjákvæmilegt að drepa á það, þegar um þessi mál er fjallað og það vandræðaástand, sem fyrir hendi er í þessum málum og mun þó aukast á næstunni, ef ekkert er að gert, — að gera sér grein fyrir því, hvað veldur, og ég álít, að það verði ekki dregið í efa, að sinn ríka þátt í því ófremdarástandi, sem þar ríkir, eigi einmitt ýmsar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. Þar er ekki aðeins um að tefla gengislækkunina og þær gífurlegu verðhækkanir, sem af henni hafa stafað, heldur má líka benda á vaxtahækkunina og þá erfiðleika, sem sú hækkun hefur valdið húsbyggjendum. Og enn fremur má benda á það, að lánasamdráttur, sem að öðru leyti hefur átt sér stað, hefur mjög torveldað húsbyggjendum mörgum hverjum framkvæmdir, á meðan þeir hafa beðið eftir úrlausn húsnæðismálastjórnar, og þar hefur enn allt borið að þeim brunni, sem hv. 10. þm. Reykv. benti réttilega á að væri mikill annmarki í framkvæmd allra þessara mála, sem sé sá, að íbúðabyggingarnar drægjust úr hófi fram og yrðu af þeim sökum miklu kostnaðarsamari en ella þyrfti að vera. En ég efast ekki um, að einmitt vandræði húsbyggjenda, sem hafa risið af þeim sökum, að bankarnir hafa miklu meira en áður kippt að sér hendinni með bráðabirgðaúrlausnir, á meðan beðið er eftir lánum hjá húsnæðismálastjórn, eigi einmitt sinn gilda þátt í þeim töfum, sem hafa orðið á byggingarframkvæmdum. Ég held þess vegna, að það sé óhjákvæmilegt að benda einmitt á í sambandi við þetta mál, að það er ekki hægt og ekki réttmætt að fjalla um það einangrað, heldur verður að benda á þær orsakir, sem liggja til þess, að komið er sem komið er.

Um ýmis atriði, sem komu fram hjá hæstv. ráðh. og hv. öðrum þm., sem töluðu hér, eru að sjálfsögðu ekki skiptar skoðanir. Þannig hljóta allir að taka undir það, að það sé ákaflega æskilegt að lækka byggingarkostnað, svo sem hv. 6. þm. Norðurl. e. taldi vera eitt aðalatriðið í sambandi við þetta mál. Ég vil taka undir það. Það er mjög nauðsynlegt. Til þess eru ýmis ráð. Ég hygg, að eitt nærtækasta ráðið væri að lækka vaxtagreiðslur þær, sem menn bera í sambandi við byggingarframkvæmdir. Ég hygg, að það megi með tölum sýna fram á, að þær vaxtahækkanir, sem átt hafa sér stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj., séu hreint ekki svo óverulegur þáttur í þeim aukna byggingarkostnaði, sem um er að ræða. Um ýmis önnur atriði, sem þeir drápu á, er einnig hið sama að segja, að það er að sjálfsögðu ekki annað hægt en taka undir það. Og auðvitað tek ég algerlega undir þær óskir, sem hv. 10. þm. Reykv. gat hér um, að það sé ekki aðeins verið að setja pappírslög um þetta efni, heldur jafnframt raunverulega séð fyrir útvegun lánsfjár. Ég tek algerlega undir það, og sú ósk á alveg jafnt við, hvort sem það verður nú staðnæmzt við þessa upphæð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem er algerlega ónóg, eins og ég hef sýnt fram á, þ.e.a.s. 150 þús. kr. hámark, eða það yrði farið hærra og miðað við 200 þús. kr. hámark. Í báðum tilfellum á það alveg jafnt við, að það er nauðsynlegt að tryggja það, eftir því sem mögulegt er, að nægilegt fjármagn sé fyrir hendi til þess að standa við þær skuldbindingar, sem þar er um að ræða. En hins vegar er það svo, eins og hv. 10. þm. Reykv. veit enn betur en ég, að þessum upphæðum er ekki snarað út í einu lagi, heldur eru þær greiddar smám saman og veittar smám saman, eftir því sem íbúðarbyggingu miðar áfram, og það er að sjálfsögðu að nokkru leyti skýringin á því, að það hefur ekki verið farið í hámark, strax og lánin voru veitt í öndverðu, heldur hefur hækkunin smám saman komið til. En því miður er það staðreynd, sem hann réttilega drap á, að þess eru víst mörg dæmi, að íbúðabyggingar hafi tekið hér 5 ár líklega, kannske einstöku sinnum jafnvel enn ískyggilegri tíma, þannig að það er út af fyrir sig eðlilegt, að lánveitingin dreifist þannig á nokkuð langan tíma, og þess vegna finnst mér, að ekki eigi að öllu leyti við þau orð, sem hv. þm. lét falla í garð þeirrar ríkisstj., sem beitti sér fyrir þessari löggjöf 1955.

Ég get ekki látið hjá líða að benda hæstv. ráðh. á það í sambandi við ummæli hans um togarana, þar sem hann sagði, að það kæmi þó ekki til mála og gæti engum dottið í hug að halda því fram, að vandræði togaranna ættu rætur að rekja til ráðstafana hæstv. ríkisstj., því að það væri kunnara en frá þyrfti að segja, að þau ættu sínar orsakir í aflatregðu og svo því, að fiskimiðin hefðu verið tekin af þeim, ef ég tók rétt eftir. Ég tel, að þetta sé ekki alls kostar rétt. Ég hygg, að togaraútgerðarmenn mundu telja t.d. þær vaxtagreiðslur, sem þeir hafa orðið að standa undir, hreint ekki svo lítilvægan þátt í því, að afkoma þeirra hefur versnað á síðustu árum, og enn fremur hygg ég, að þær afborganir af erlendum lánum, sem þeir verða að standa undir og vitaskuld hafa orðið þungbærari vegna gengisfellingarinnar, hafi átt sinn þátt þar í.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, sem ég hef áður raunar sagt, að ég tel þetta frv. hvergi nærri vera fullnægjandi, hvergi nærri ganga nógu langt, en tel hins vegar virðingarverða þá viðleitni, sem í því felst, en vænti þess, að hv. þingnefnd, sem fjallar um það, reyni að færa það í það horf, að það fullnægi þeirri þörf, sem nú er fyrir hendi, betur en það gerir, eins og það nú liggur fyrir.