13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

42. mál, almannatryggingar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um hækkun á bótum almannatrygginganna. Eins og fram kemur í nál., hafa fjórir nefndarmenn, sem á fundi voru í heilbr.- og félmn., samþykkt að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, en einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í nefndinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um efni frv., vísa þar til athugasemda við frv. og þess, er fram kom við 1. umr. málsins. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í frv. er gert ráð fyrir, að það komi til framkvæmda, ef að lögum verður, nú fyrir næstkomandi áramót, og væri því að sjálfsögðu æskilegt, að ekki yrði langur dráttur á fullnaðarafgreiðslu málsins.