06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Hv. þm. talar um yfirlýsingar, sem hafi verið gefnar, þegar lög um stofnlánadeild landbúnaðarins voru til umr. hér á síðasta þingi. Það má gjarnan vitna til þeirra umr. og þeirra yfirlýsinga, því að það var oftlega sagt frá því, að þegar þessi lög hefðu tekið gildi og fé færi að koma inn í stofnlánadeildina eftir þeim, þá yrði möguleiki á að hafa annan hátt á en verið hefur. En hv. þm. ætti að vita, að það er ekki enn farið að koma fé inn í deildina samkv. þessum lögum: Eigi að síður hefur það breytzt, að nú getur stofnlánadeildin sjálf tekið lán, vegna þess að nú hefur hún skilyrði til þess að standa skil á þeim lánum, eftir að lög um stofnlánadeildina hafa verið gerð, en eigið fé myndast smátt og smátt, eftir því sem lögin verka. Það er ekki fyrr en á næsta ári, sem stofnlánadeildin fær raunverulega nokkurt fé samkv. þessum nýju lögum. Og það má upplýsa það, að einmitt nú vegna þessara laga, þó að stofnlánadeildin sé ekki farin að fá fé eftir þeim, þá hefur verið víkkuð út lánastarfsemin. Það er t.d. nú farið að lána út á dráttarvélar, sem hefur ekki verið gert áður. Það er, eins og ég áðan sagði, nú búið að hækka lán út á íbúðarhús, þannig að það eru 150 þús., og einnig er gert ráð fyrir, að þeir, sem eiga eftir að endurbyggja í sveitum og ekki eru efnaðir menn, eigi kost á að fá allt að 50 þús. kr. styrk, þannig að lán og styrkur út á íbúðarhús geta orðið um 200 þús. í sveitum. Nú er það ákaflega misjafnt, hvað íbúðarhúsin þurfa að kosta. Ég veit um mann, sem byggði íbúðarhús, var að ljúka því núna, fyrir 300 þús., aðrir þurfa kannske að nota 400 þús. og jafnvel 500 þús. Allt fer þetta eftir aðstæðum, eftir því, hve mikið eigið vinnuafl menn geta látið í þetta. En ef miðað væri við 400 þús., sem er líklega það eðlilega, þá er þarna 50% lán og styrkur.

Nú væri eðlilegt, að hv. fyrirspyrjandi rifjaði það upp, hvað var mikið lán og hvað var hár styrkur út á íbúðarhús t.d. 1957 og 1958, hvað kostaði þá að byggja sams konar hús, sem nú kostar 400 þús. Ég man ekki byggingarvísitöluna. En hitt hefur verið fullyrt og ekki hrakið, að þá hafi lán og styrkur ekki verið yfir 30% af byggingarkostnaði, og hv. fyrirspyrjandi virtist þá vera ánægður með þetta. Ég a.m.k. man ekki annað: Ef við tökum peningshúsin, þá er rétt að geta þess, að lán út á peningshús hafa verið hækkuð. Ég man ekki nákvæmlega prósentuna, en haustið 1960 minnir mig, að það hafi verið 10–15% eftir framkvæmdum. 1961 var það einnig hækkað og einnig nú, þannig að lánin munu vera hlutfallslega hærri nú en þau hafa verið áður. Hv. fyrirspyrjandi spyr að því, hvort þau séu miðuð við ímyndaðan kostnað eða raunverulegan kostnað. Lánin eru miðuð við matsgerð byggingarfulltrúa, og það eru byggingarfulltrúar í öllum héruðum landsins. Ég veit, að á Suðurlandi er það verkfræðingur, sem tekur byggingarnar og framkvæmdirnar út, og í Búnaðarbankanum er einn og sami maðurinn, sem yfirfer þessar matsgerðir, og við það eru lánin svo miðuð. Það er lánað út á fjósbyggingar, að mig minnir, 60%, út á hlöður og fjárhús 30% o.s.frv. Það er þess vegna ekki um að ræða neinn ímyndaðan kostnað, heldur er farið eftir matsgerð byggingarfróðra manna.

Ég veit ekki, hvort er ástæða til þess að svara þessari fsp. frekar. Ég held, að það hafi verið gert, eftir því sem föng eru á óundirbúið. Það er rétt, það er 6. des. í dag og ekki farið að veita lán. En við höfum séð 6. des. fyrr, og það hefur ekki verið fyrr en um eða upp úr 10. og miðjum desember, sem þessar lánveitingar hafa hafizt mörg undanfarin ár. Þess vegna er ekkert nýtt, sem er að gerast nú, þótt ekki sé farið að veita lánin 6. des. 1962. Starfsfólk Búnaðarbankans er að undirbúa þessar lánveitingar, reikna út lánin, og það tekur ekki svo ýkjamarga daga að koma peningunum út, eftir að búið er að undirbúa lánsskjöl.