06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfáar setningar út af því, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann sagði, að það væri verið að spyrja um þessi efni hér til þess að geta sagt frá því í Tímanum. Jú, ég geri ráð fyrir því, að það verði sagt frá þessum umr. í Tímanum eins og öðrum umr. á Alþingi, eftir því sem hægt er. En ef hæstv. ráðh. hefði tekið það ráð að svara þessari fsp. alveg blátt áfram, eins og hann hefði átt að gera, greint frá því svona á að gizka, hvað vantaði af fé, og lýst því yfir, að það yrði útvegað, kannske t.d. næstu daga eða alveg á næstunni, þá hefði verið sagt frá því í Tímanum, að ráðh. svaraði þannig. Var það svo ægilegt? Var það svo voðalegt? Þurfti ráðh. að vera með öll þessi undanbrögð og allt þetta til að komast hjá því, að sagt væri frá svona blátt áfram og eðlilegu svari í Tímanum? Getur hæstv. ráðh. ómögulega séð, hvað þessi aðferð hans er óheppileg á alla lund?

Hæstv. ráðh. sagði, að fyrirspyrjandi hefði spurt hér um það, sem hann hefði getað fengið að vita annars staðar. Finnst hæstv. ráðh. það eðlilegt, að þm. séu á njósnum hingað og þangað varðandi mál, sem þeir með eðlilegum hætti eiga að fá upplýst í þinginu hjá þeim hæstv. ráðh., sem hafa yfirstjórn málanna með höndum? Þarna misskilur hæstv. ráðh. algerlega, hvernig eðlilegt er að halda á þessum efnum, og honum finnst það vera meinbægni við sig, að spurt sé hér í þinginu, til þess að hann gefi einmitt hér á Alþingi upplýsingar og skýrslur um málefni, sem miklu varða fyrir allan almenning og undir hann heyra. Hann vill, að þm. séu þess í stað hingað og þangað að afla sér hjá öðrum vitneskju um þessi efni. Það er einmitt hið eðlilega í þessu, að spurt sé um slík efni á Alþingi, m.a. vegna þess, hversu marga þetta varðar, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram.

Loks sagði svo hæstv. ráðh., og það var atriði, sem að mér sneri, að mér færist ekki að vera að finna að þessu svari hans, víst vegna þess, að ekki hefði ég svarað betur eða skynsamlegar, þegar ég hefði verið spurður og þegar ég hefði átt sæti í ríkisstj. Nú vil ég skora á hæstv. ráðh. að athuga nú í jólafríinu t.d. þær fsp., sem bornar voru fram til mín, — hann hefur nóg af aðstoðarmönnum og getur látið slá því upp, — sem bornar voru fram til mín á þeim árum, sem ég var ráðh., og hvernig ég hafi svarað þeim, og skulum við þá sjá, hvaða áhrif það hefur á hæstv. ráðh. að kynna sér þetta.