19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér var ekki kunnugt um, að þessi fsp. mundi verða borin fram nú á þessum fundi, en skal engu að síður reyna að svara efni hennar með örfáum orðum.

Ég las að sjálfsögðu, eins og fleiri, það viðtal í dagblaði í bænum, sem hv. þm. vitnaði til, og auk þess áttu skömmu síðar viðtal við mig Finnur Jónsson listmálari og Guðmundur Einarsson frá Miðdal, myndhöggvari, um hið sama efni og rætt var um í viðtalinu.

Alþingi veitti á fjárl. fyrir yfirstandandi ár nokkurn fjárstyrk til Félags ísl. myndlistarmanna til þess að standast kostnað við þátttöku þess félags í norrænni sýningu í Helsingfors, sem nýlega var haldin. Alþingi veitti þennan fjárstyrk til Félags ísl. myndlistarmanna, og það var að sjálfsögðu ekki á valdi menntmrn. að breyta þar nokkuð um, að greiða þann styrk nokkrum öðrum en þeim aðila, sem Alþingi hafði veitt styrkinn. Hins vegar var það misskilningur, sem kom fram í viðtalinu og ég að sjálfsögðu leiðrétti í viðtali við þá tvo menn, sem ég nefndi áðan, að Alþingi hefði veitt nokkurn styrk til fyrirhugaðrar listsýningar í París. Talan, sem nefnd var í því sambandi, 800 þús. kr., var auk þess á algerum misskilningi byggð. Alþingi veitti smávægilegan styrk til listiðnaðarsýningar, sem halda á í París, mjög smávægilegan styrk, en þar er ekki um málverkasýningu að ræða og ekki einu sinni um almenna listsýningu, heldur sýningu á listiðnaði.

Þeir tveir listamenn, sem hv. þm. vitnaði til og ræddu síðan við mig, óskuðu mjög eftir því, að settar yrðu reglur um þátttöku af hálfu Íslands í listsýningum erlendis, ef um opinberan stuðning við slíkar listsýningar væri að ræða. Menntmrn. sneri sér þegar til utanrrn. með beiðni um að fá um hendur þess upplýsingar frá hinum Norðurlöndunum um, hvers eðlis norræna listbandalagið væri, hvaða aðilar í hverju landi væru þátttakendur í því og hvaða reglur giltu á hinum Norðurlöndunum um þátttöku þeirra í samnorrænum sýningum eða listsýningum utan Norðurlanda. Þessar upplýsingar frá hinum Norðurlöndunum eru því miður ekki komnar enn, en menntmrn. hefur gert þessum tveim mönnum og því félagi, sem þeir eru í forustu fyrir, grein fyrir afskiptum menntmrn. af norræna listbandalaginu frá upphafi, frá því að Íslendingar gerðust aðilar að því, og mun að sjálfsögðu gera þessum mönnum og þeirra félagi grein fyrir þeim upplýsingum, sem væntanlega fást innan tíðar frá Norðurlöndum um það, hvernig þessum málum er háttað þar. Sömuleiðis mun rn. gera Félagi ísl. myndlistarmanna grein fyrir þessu sama atriði, þegar upplýsingar berast.

Um efni málsins vil ég að síðustu aðeins segja þetta: Ég fyrir mitt leyti tel það vera eðlilegt, að settar verði fastari reglur en gilt hafa undanfarið um þátttöku íslenzkra listamanna í þeim listsýningum erlendis, sem hið opinbera styrkir. Hins vegar er mikill vandi á höndum varðandi það, hvernig slíkar reglur ættu að vera. Það, sem helzt virðist geta komið til greina í þeim efnum, er, að komið yrði á fót nefnd hér, sem fjallaði um þátttöku af hálfu íslenzkra listamanna í sýningum erlendis, sem hið opinbera styrkir, og væri þá eðlilegt, að listamennirnir sjálfir ættu fulltrúa í þeirri nefnd, og þá hlyti að teljast eðlilegast, að þeir fulltrúar væru kjörnir af íslenzkum listamönnum. En í því sambandi vaknar spurningin um það, hverjir eigi að hafa kosningarrétt til þess að velja fulltrúa íslenzkra listamanna í slíka nefnd. Þetta er raunar sami vandinn og á höndum er í sambandi við skipun safnráðs Listasafns ríkisins. Það er, sem kunnugt er, skipað fimm mönnum, forstjóra listasafnsins, sem er formaður í safnráðinu, einum manni skipuðum af menntmrh. og þrem mönnum kosnum af íslenzkum listamönnum samkv. ákveðnum reglum, sem um það eru í lögum um Listasafn Íslands. Samkv. þeim lögum var á sínum tíma gerð kjörskrá um þá íslenzka listamenn sem kosningarrétt eiga að hafa við kjör hinna 3 fulltrúa íslenzkra listamanna í safnráðið. Um þessa kjörskrá urðu á sínum tíma nokkrar deilur, þó ekki mjög alvarlegar, en þó er komið í ljós, að ákvæði gildandi laga um Listasafn ríkisins eru þannig, að nauðsynlegt er að breyta þeim, áður en kosning getur farið fram öðru sinni, því að lögin segja, að þeir listamenn eigi að hafa kosningarrétt til safnráðsins, sem eru félagar í myndlistarfélagi, þegar kosning fer fram. En síðan kosning fór fram síðast, hafa orðið svo miklar breytingar á meðlimum félaganna, að ég hygg, að allir séu sammála um, að ekki er hægt að setja kjörskrá saman öðru sinni eins og gert var hið fyrsta sinn, svo að áður en kjörtímabil núv. safnráðs rennur út, mun verða nauðsynlegt fyrir Alþingi að endurskoða þetta ákvæði gildandi laga um Listasafn Íslands. Hér er um alveg sama vanda að ræða í sambandi við það, ef komið verður á fót sérstakri nefnd til að sjá um íslenzkar listsýningar erlendis, sem fá opinbera styrki. Ef fulltrúar listamanna, sem ég tel vera sjálfsagt, eiga að eiga sæti í slíkri nefnd, þarf að kjósa þá. En þá vaknar spurningin um það, eftir hvaða reglum eigi að kjósa, þ.e. hverjir eigi að hafa kosningarrétt í því sambandi. Hér er um mikinn vanda að ræða. Sá vandi er í athugun, og meðan ég hef með þessi mál að gera, mun ég hafa samráð um lausn vandans við þau myndlistarfélög, sem nú starfa hér, annars vegar Félag ísl. myndlistarmanna og hins vegar Félag óháðra myndlistarmanna. Sem sagt, menntmrn. er í sambandi víð þá aðila, sem hv. þm. nefndi og lýst hafa opinberlega óánægju sinni yfir skipan þessara mála. Þau samráð munu halda áfram, og ég vona, að einhver lausn finnist á þessum vanda, sem íslenzkir listamenn yfirleitt geta unað við.