27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3096)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 287 till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvernig hagnýta megi síldaraflann við Suðurland á sem beztan og verðmætastan hátt, og gera að rannsókn lokinni áætlun um það, á. hvern hátt ríkið geti bezt stuðlað að því, að upp byggist iðnaður, sem vinni sem fullkomnastar vörur úr þessum afla.“

Það getur varla leikið á tveim tungum, að við Íslendingar höfum óvenjugóða aðstöðu til þess að stunda fullkominn matvælaiðnað á grundvelli sjávarafla okkar. Lega landsins hér í Norður-Atlantshafinu mitt á meðal fiskimiðanna skapar okkur möguleika til þess að landa aflanum alveg ferskum, og þá aðstöðu hafa fastar aðrar fiskiðnaðarþjóðir jafngóða. Það er nauðsynlegt, að við nýtum þessa aðstöðu sem bezt með því að framleiða úr sjávaraflanum fullkomna neyzluvöru í fullkomnum neytendaumbúðum og með nútíma frá gangi að öllu leyti. Það var stórt framfaraspor, þegar við tókum upp hraðfrystingu í stórum mæli fyrir 20–30 árum, en síðan er tæpast hægt að ægja, að við höfum tekið upp nýjar aðferðir, sem valdið hafi neinni gerbreytingu í okkar fiskiðnaði. Við höldum áfram að salta aflann og herða hann og frysta hann, eins og við höfum lengi gert. Aðrar þjóðir gera meira í þessum efnum. Þær leggja niður í dósir og sjóða niður, og þær reykja og pakka í margvíslegar neytendaumbúðir og auka þannig verðmætin stórkostlega. Okkar fiskiðnaður er þannig einhæfari en flestra annarra, sem við slíkan iðnað fást, og það á sjálfsagt sinn þátt í því, að íslenzkur fiskiðnaður er tæpast samkeppnisfær við erlendan um hráefni, sem er veitt á íslenzkum miðum.

Það er brýnt hagsmunamál að ráða bót á þessu og efla fiskiðnaðinn þannig, að hann framleiði fjölbreyttari og verðmætari vörur. Við getum ekki gert ráð fyrir að geta haldið áfram að draga sífellt meiri afla úr sjónum, heldur verðum við að leggja aukna áherzlu á að auka verðmætin, sem við framleiðum úr þessum afla. Með þeirri fullkomnu veiðitækni, sem hefur rutt sér til rúms á síðari árum, er vandamál okkar í rauninni ekki lengur fólgið í því fyrst og fremst að ná aflanum, heldur hinu, að gera sem mest verðmæti úr honum, og auk þess má, jafnvel telja það nokkuð vafasamt, hve lengi er hægt að halda áfram að ganga á það lagið að auka aflamagnið, og því verður nauðsynin enn brýnni að auka verðmæti hverrar aflaeiningar. Þannig telja t.d. fiskifræðingar okkar, að þorskstofninn við landið sé nærri því fullnýttur og vafasamt að að gera ráð fyrir, að meiri sókn í hann geti verið hagkvæm. Það er að vísu minna vitað um hagi og háttu síldarstofnanna og hversu mikið er óhætt að veiða af þeim árlega, og það er auðvitað hin mesta nauðsyn, að það sé lagt á það mikið kapp að afla fullkominnar þekkingar á því sviði. En með tilkomu fullkominna fiskleitartækja og fullkominna veiðitækja, kraftblakkar, nælonnóta, þá hefur aðataðan til síldveiða gerbreytzt og síld veiðist nú við ýmsar aðstæður, sem áður hefði ekki þurft að reyna að veiða síld við. Þannig veiðist nú síld að vetrarlagi austur með öllu Suðurlandi, og sjómenn og fiskifræðingar hafa látið í ljós þá skoðun, að þessar síldargöngur muni vera árvissar og megi byggja á þeim veiði að staðaldri.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur borizt á land í Vestmanneyjum mjög mikið magn síldar. Aðstaðan til vinnslu þar er hins vegar enn þá mjög ófullnægjandi. Frystihúsin geta ekki tekið við nema mjög litlu magni, töluvert er ísað til útflutnings, en langmest fer í bræðslu, til framleiðslu á mjöll og lýsi.

Vestmanneyjum er eina síldarverksmiðjan, sem raunar hefur það hlutverk kannske fyrst og fremst að vinna mjöl úr beinum og úrgangi frá frystihúsunum. Það er gert ráð fyrir, að þessi verksmiðja geti brætt um 5000 tunnur síldar á sólarhring, þegar lokið er stækkun, sem nú stendur yfir. í Þorlákshöfn hefur engri síld verið landað á þessum vetri sökum þess, að þar er engin aðstaða til þess að vinna síld með neinu öðru móti en að frysta hana. En þá er það jafnan svo, að það er ekki nema hluti aflans hæfur til frystingar, og þar sem ekki er hægt að gera neitt við hitt, hefur frystihúsið í Þorlákahöfn ekki tekið á móti síld þar í höfninni, heldur keypt frystingarhæfa síld annars staðar og ekið henni til Þorlákshafnar. Í Vestmanneyjum, þar sem bræðsla síldarinnar er næstum eina úrræðið til þess að nýta hana, hefur síldarverksmiðjan ekki nærri haft við að vinna það magn, sem þar hefur borizt á land að undanförnu. Haugar af síld hafa hlaðizt upp á bryggjunum, þar sem allar þrær hafa verið fullar, og af þessu skapast hin mestu vandræði. En alvarlegast í þessu máli er þó það, að með þessum hætti fer langmest af síldinni til bræðslu, og á þann hátt verða framleiðsluverðmætin, sem úr henni fást, allt of lítil.

Síldaraftinn á s.l. sumri við Norður- og Austurland, sem fór í bræðslu, nam um 2 millj. mála eða sem svarar 2.7 millj, tunna, og aðeins um 1/2 millj. tunna fór til annarra nota. síldarverksmiðjur ríkisins hafa áætlað, að útflutningsverðmæti bræðslusíldaraflans fob. Frá s.l. sumri muni nema um 450 millj. kr., en það er aðeins um 200 kr. úr hverri tunnu aflans. Þetta er aðeins lítið brot af því framleiðsluverðmæti, sem fæst úr hverri saltsíldartunnu, og enn minna brot af því, sem fæst með öðrum og fullkomnari aðferðum. Þess vegna ber að taka flestar aðrar verkunaraðferðir fram yfir bræðslu, þó a5 auðvitað sé hitt jafnljóst, að alltaf hlýtur eitthvað af aflanum að fá þá meðferð, þótt ekki væri annað en úrgangurinn.

Í sambandi við nýjar síldarbræðslur, sem byggðar yrðu, þarf að kanna vandlega, hvort nýjar aðferðir, sem sífellt er verið að reyna að fullkomna erlendis til framleiðslu á betra og fínna mjöli, svokölluðu manneldismjöli, kæmu til greina. Komi slíkar aðferðir til greina fyrir síld, eru þær trúlega líklegri fyrir magra síld en feita. Auðvitað verður að fara varlega í því að taka upp nýjar aðferðir, sem eru ekki fullreyndar, af því höfum við ekki of góða reynslu í íslenzkum síldariðnaði, en megum hins vegar ekki láta það hræða okkur meira en efni standa til. Hér er mikið í húfi, að það megi takast að vinna sem fullkomnastar afurðir úr þessu mikla aflamagni. Suðurlandssíldin er einmitt talin henta mjög vel til ýmiss konar vinnslu, sem nýtur vaxandi vinsælda á mörkuðum, svo sem súrsun, reykingu o.fl., m.a. sökum þess, að hún er magrari en Norðurlandssíldin. Ýmiss konar verkun á síldarflökum kemur einnig mjög til álita, og það eru nú á markaðinum mjög fullkomnar vélar til þess að flaka síld, sem þó kveður enn of lítið að hér á landi. Það hafa ýmsir aðilar sýnt virðingarverða viðleitni til þess að fara inn á nýjar brautir í þessum efnum, en það hefur enn sem komið er verið í frekar smáum atil og á algeru byrjunarstigi. En auðvitað er full ástæða til þess, að nýjar leiðir í þessum efnum séu ekki aðeins athugaðar á Suðurlandi, heldur einnig annars staðar á landinu, en því er það fyrst og fremst nefnt í till., að við stöndum nú frammi fyrir algerlega nýjum viðhorfum í hafnarbæjunum á Suðurlandi, ef síldveiði verður þar árviss atvinnugrein, og þá liggur fyrir að taka afstöðu til þess, á hvern hátt yrði bezt byggður upp iðnaður á grundveili þessa afla. Það væri þá hin mesta nauðsyn, ef hægt væri að skipuleggja þennan iðnað í rauninni frá grunni, til þess að tryggja, svo sem frekast er kostur, skynsamlega uppbyggingu þessa iðnaðar frá byrjun.

Sú athugun, sem hér er lagt til að fari fram á þessum málum, verður að vera ýtarleg og umfangsmikil. Það ber þar að kalla til ráðuneytis hina færustu sérfræðinga, ekki aðeins fiskiðnfræðinga og þá, sem kunnugastir eru markaðamálum og færastir á því sviði. Það verður einnig að kalla til fiskifræðinga til þess að meta það, hversu traustur grundvöllur þessar síldargöngur eru fyrir iðnaðaruppbyggingu. og láta í ljós rökstutt álit á því, að stofnarnir þoli árlega veiði, þeir sem þarna eru á ferð.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að till. verði vísað til allshn. og umr. frestað á. meðan.