10.10.1964
Sameinað þing: 0. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Dóru Þórhallsdóttur

Aldursforseti (Ólafur Thors):

Herra forseti Íslands. Hæstv. ríkisstj. Hv. alþm. Fimmtudaginn 10. f.m. andaðist hér í bæ forsetafrú Dóra Þórhallsdóttir eftir skamma sjúkdómslegu. Frú Dóra var fædd í Reykjavík hinn 23. febr. 1893, yngst fjögurra barna hjónanna Þórhalls biskups Bjarnarsonar og frú Valgerðar Jónsdóttur. Frú Dóra óx upp í föðurgarði og var snemma meginstoð móður sinnar í langvarandi veikindum hennar og tók við öllum búsforráðum á biskupsheimilinu við andlát hennar árið 1913 og veitti því forstöðu, þar til biskupinn, faðir hennar, lézt árið 1916.

Laufásheimilið lifir enn í minningu margra. Frú Valgerður var gáfuð og góð kona, sem bar langvinnt dauðastríð að hætti mikilla kvenna. Biskupinn, séra Þórhallur, var einn umsvifamestur atkvæðamaður sinnar samtíðar hér á landi, mikill gáfu- og gæðamaður, sem lét sig margt varða, jafnt í andlegum sem veraldlegum efnum, og þá ekki sízt allt, sem snerti landbúnað. Var biskupinn einkar fróður um sögu landsins og bókmenntir og flestum sýnna um að fræða aðra.

Saga frú Dóru hefði orðið bæði falleg og fróðleg og skemmtileg, þótt hún hefði aðeins fjallað um unglingsárin á hinu rammíslenzka menningarheimili foreldra hennar. En þeirri sögu var ætlað að verða lengri.

Hinn 3. okt. 1917 giftist Dóra Þórhallsdóttir Ásgeiri Ásgeirssyni cand. theol., og nú tekur lífið að greikka sporið. Ásgeir Ásgeirsson verður kennari, fræðslumálastjóri og alþm. Yngstur þm. er hann 1930 kosinn til að gegna mestu virðingarstöðu Alþingis, þegar meira þótti undir komið en nokkru sinni áður, að vel væri þar til öndvegis skipað. Skömmu síðar varð hann fjmrh. og enn ári síðar forsrh. í tvö ár. Hér er ekki ætlunin að rekja feril Ásgeirs Ásgeirssonar og þaðan af síður að kveða upp dóm um athafnir hans á stjórnmálasviðinu. Má án efa um þær deila, eins og allra annarra, en þó minna en margra annarra. Hitt er óumdeilanlegt, að alltaf, þegar mest reið á, stóð frú Dóra örugg við hlið manns síns og varpaði ljóma á hann, stöðu hans og starf, og þau raunar hvort á annað.

Þegar hér er komið sögu, hafði frú Dóra þjónað með prýði æðstu virðingarstöðu, sem konu var ætlað að gegna hér á landi. En enn hafði forsjónin ætlað henni það starfið, sem þyngstu skyldurnar lagði á hennar herðar og á mestu reið, að hún fengi undir risið.

Árið 1952 var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti Íslands. Frá þeim degi og allt fram í andlátið gegndi frú Dóra mestu virðingarstöðu þjóðar sinnar með þeim ágætum, að ekki verður á betra kosið. Þjóðin hefur fyrir löngu kveðið upp þann dóm, honum verður aldrei haggað, við hann er engu að bæta.

Við andlát hennar erum við öll harmi lostin. Með öllu er öfgalaust að segja, að aldrei fyrr hefur íslenzk kona verið jafnmörgum harmdauði sem frú Dóra Þórhallsdóttir. Til þess ber margt og nokkuð sitt hjá hverjum. En ætli samt ekki að flestum kæmi fyrst í hug, hversu oft frú Dóra gladdi okkur með tígulegri og virðulegri framkomu sinni og jafnframt með elskulegu látleysi og góðvilja, sem aldrei yfirgáfu þessa tignustu konu landsins og tryggðu henni sjálfri öruggan sess í hjörtum þeirra, sem henni kynntust?

Vér alþm. tökum undir með þjóðinni. Vér hörmum brottkvaðningu frú Dóru Þórhallsdóttur og söknum hennar. Vér lýsum samúð með forseta Íslands, herra Ásgeiri Ásgeirssyni, og biðjum honum allrar blessunar.

Ég vil biðja hv. þingheim að minnast forsetafrúarinnar Dóru Þórhallsdóttur með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum]. Fundi frestað.