28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

35. mál, íþróttalög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn, hefur athugað þetta frv., sem flutt er af 6 þm. hér i hv. þd., en sú breyting á íþróttal., sem lagt er til að gera með frv., er sú, að stofnuð skuli embætti íþróttanámsstjóra, sem séu starfandi einn í hverjum landsfjórðungi undir umsjón íþróttafulltrúa ríkisins. Vísast til frv. og grg. með því um það, hvernig störfum íþróttanámsstjóra skuli skipað, en m.a. segir þar í 3. tölul. d-liðar l. gr., að íþróttanámsstjórar skuli m.a. hafa þau störf á hendi að efla frjálsa íþróttastarfsemi og veita íþróttafélögum og einstaklingum aðstoð og leiðbeiningar um íþróttamál.

Eins og fram kemur í nál., sendi menntmn. frv. til umsagnar framkvæmdastjórn Íþróttasambands Íslands og íþróttafulltrúa ríkisins, og hafa umsagnir borizt frá báðum aðilum. Íþróttafulltrúi kveðst í sinni umsögn vera frv. meðmæltur í aðalatriðum, en bendir þó á tiltekin atriði, sem hann telur rétt að breyta, annars vegar það, að íþróttaumdæmin skuli ekki vera miðuð við landsfjórðunga, heldur kjördæmaskipunina, og meðan ekki sé námsstjóri í hverju slíku íþróttaumdæmi, þ.e.a.s. hverju kjördæmi, geti sami námsstjóri annazt þessi mál í 1—3 kjördæmum, og hins. vegar leggur íþróttafulltrúi ríka áherzlu á, að fram komi í frv., að náin félagsleg tengsl slíkra íþróttanámsstjóra skuli vera við frjálsíþróttasamtök þjóðarinnar.

Í umsögn framkvæmdastjórnar Í.S.Í. kemur fram, að hún telur, að stofnun embætta íþróttanámsstjóra sé til bóta að því er snertir afskipti af íþróttamálum, sem ríkið lætur til sín taka, en hins vegar sé í 20. gr. gildandi íþróttal. íþróttastarfsemi utan skólanna falin frjálsu framtaki landsmanna og sé Íþróttasamband Íslands æðsti aðili um frjálsa íþróttastarfsemi áhugamanna í landinu, þetta skipulag hafi gefizt mjög vel og sé ekki sjáanleg nein ástæða, sem réttlæti að breyta því skipulagi. Hins vegar bendir framkvæmdastjórnin á það, sem liggur auðvitað í augum uppi, að með breytingum á frv. mætti færa það til þess vegar, að það samræmist þessari verkaskiptingu íþróttafulltrúa annars vegar og þá Íþróttasambandsins hins vegar, en í niðurlagi umsagnar sinnar segir framkvæmdastjórn Í.S.Í. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar viljum vér eigi draga dul á þá skoðun vora, að líklegra til enn jákvæðari árangurs teljum vér það vera, að hið háa Alþ. samþykki að veita sömu upphæð eða hærri en framkvæmd nefnds frv. kostar ríkissjóð til héraðssambanda úti um byggðir landsins til eflingar starfs þeirra og í því beina augnamiði að gera þeim kleift að hafa starfandi leiðtoga um 3—4 mánaða skeið að sumrinu eða lengri tíma, ef efni leyfa.“

Það kom ekki til umr. í n. að flytja brtt. við frv., því að það var upplýst, að íþróttalög, lög um Íþróttakennaraskóla Íslands og lög um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, eru nú í endurskoðun. Eins og fram kemur í nál., telur n., að frv. miði í rétta átt, þ.e.a.s. það geti orðið til framdráttar íþróttum í landinu, en hins vegar tók n. að sjálfsögðu enga afstöðu til þess, hvort sama eða betri árangri mætti ná og þá á hagkvæmari hátt með öðru skipulagi í þessum efnum, því að eins og ég áður sagði, kom aldrei til þess, að hreyft væri neinum brtt. við frv., hvað þá heldur ræddar.

Með tilliti til þess, að öll þessi lög, sem ég áður nefndi, eru í endurskoðun, varð n. sammála um að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að þeirri endurskoðun ljúki sem fyrst, svo að unnt verði að leggja frv. um þessi efni fyrir næsta reglulegt Alþ., og kemur þetta fram í niðurlagi nál. á þskj. 612.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en vísa til þeirrar till., sem n. hefur gert einróma.