07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (1879)

104. mál, Stéttarsamband og Kjararannsóknarstofa bænda

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið hér viðstaddur í gær, þegar hv. 5. þm. Vestf. mælti fyrir frv. sínu á þskj. 200, en ég hafði hugsað mér þá þegar að taka til máls við 1. umr. og segja nokkur orð um þetta frv.

Með þessu frv. ef það yrði að l., sýnist mér, að sá grundvöllur, sem stéttarsamtök bænda hafa starfað á, síðan þau voru stofnuð fyrir rúmlega 20 árum, sé rifinn niður og nýtt skipulag tekið upp á þann hátt, að bændur geti átt rétt á því að stofna stéttarfélag innan sýslufélaga eða kaupstaða, sem síðan mynda landssambönd. Ekki verður annað séð af frv. en bændur geti verið utan við þessi samtök, ef þeim sýnist, en eins og þetta er nú, eru hreppabúnaðarfélögin grundvöllur Stéttarsambands bænda, en þar verða allir bændur að vera félagsbundnir, til þess að þeir geti notið framlaga hins opinbera til umbóta á jörðum þeirra. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég er ákaflega hræddur um, að fljótt mundi koma los á stéttarsamtök bændanna, ef einhverjir bændur gætu t.d. staðið utan þessara stéttarsamtaka. Og jafnvel gæti verið hætta á því, að bændastéttin gæti klofnað í tvær eða fleiri fylkingar um kjaramál sín, því að það vantar aldrei sundrungaröfl í landi okkar. A.m.k. er hætt við, að hagsmunasamtök bændastéttarinnar, sem væru þannig upp byggð, að menn væru algerlega frjálsir að því, hvort þeir væru í samtökunum eða utan þeirra, yrðu ekki sterkt baráttutæki. Mér lízt þess vegna ekki vel á þá skipulagsbreytingu, sem mér sýnist að hér sé lagt til að gerð verði á grundvelli stéttarsamtaka bændanna, ef ég hef skilið frv. rétt. Þá er hér gert ráð fyrir nýrri ríkisstofnun, sem á að hafa með höndum rannsókn á búskap bænda og kjörum þeirra, svonefndri kjararannsóknarstofnun bænda, sem á að vera ríkisstofnun. Þessi stofnun á að vera æði fjölþreifin, sýnist mér, og forvitin um hagi og ástæður hvers einstaks bónda, og hún á að taka við búreikningaskrifstofunni, sem á að fara að efla samkv. frv., sem liggur nú fyrir þinginu. Það má lesa um allt þetta í 7.—12. gr. frv. og víðar í því, og er það mikil lesning í sambandi við þessa stofnun, kjararannsóknarstofnunina. Mér virðist vera mikill sá áhugi, og mér sýnist, að flm. þyki mikils við þurfa, að hann skuli leggja til að setja upp stóra ríkisstofnun til þess að fylgjast með hag hvers bónda, ástandi hverrar jarðar, meira að segja þægindum í íbúðarhúsum, hvernig símasambandið er, hvað þá heldur annað. Stofnunin á auðvitað að gera meira en þetta. Hún á líka að leggja á ráð við ýmsum vanda, sem að kann að steðja á hverjum tíma hjá bændum. Hún á hvað þá annað að segja til um, hvaða bústærðir séu heppilegastar og hagkvæmastar í hverri búgrein.

Ekki efast ég um það, að allar þessar till., sem í frv. eru gerðar um þetta, eru gerðar vissulega í góðri meiningu. En ég er hins vegar jafnviss um það, að svona herradómur ríkisins yfir atvinnuvegi eins og landbúnaði okkar mundi verða honum til hins mesta ógagns og alveg óþolandi fyrir bændurna, ef slíkt kæmist í framkvæmd eða yrði að lögum. Ef bændurnir sjálfir geta ekki skipulagt það af framleiðslu sinni, sem þörf er á að skipuleggja, held ég, að það geti ekki frekar aðrir, og ríkisstofnun mundi ekki vera heppilegt tæki til þess. Og ég verð að segja það, að ef ekki er óhætt að trúa þeim stofnunum, sem núna eru til í landinu og séð hafa um nauðsynlega gagnasöfnun frá bændum, — þær eiga að hafa það starf með höndum áfram, eins og þær hafa haft með góðum árangri, — þá mundi eitthvert nýtt ríkisbákn ekki ráða betur við það verkefni. Ég veit t.d. ekki betur en upplýsingar um hverja einustu jörð á landinu liggi fyrir hjá Landnámi ríkisins. Þar getur maður gengið að því, hvenær sem manni sýnist. Búnaðarfélag Íslands hefur jafnharðan í höndum skýrslu yfir allar jarða- og húsabætur, sem gerðar eru árlega og veitt eru jarðræktarframlög til. Fasteignamat ríkisins hefur nákvæma lýsingu á hverri jörð og innfærir á hverju einasta ári öll millimöt, sem fara fram á nýjum byggingum á hverri jörð. Búnaðarbankinn hefur skrá um svo að segja öll fasteignaveðslán bænda í landinu. Hver einasti bóndi telur fram til skatts eins og aðrir þegnar þessa ríkis, og með skattframtalinu gerir bóndinn rekstrarskýrslu um bú sitt, sundurliðar þar tekjur búsins og sundurliðar einnig kostnað við búreksturinn, og samkv. því formi, sem hann fær til afnota við þetta og fylgir hverri skattskýrslu bænda, má segja, eins og þetta form er nú orðið, að hvert einasta smáatriði sé til tínt í sambandi við þessa skýrslugerð, og þó að einhver bóndi kynni að hafa löngun til þess að draga úr tekjum sínum eða auka útgjöldin, eru til þess svo litlir möguleikar, að þeir eru hvað allan fjölda bænda snertir nánast engir. Og ég skal færa rök að því. Öll mjólkursamlög og allir sláturleyfishafar og allar verzlanir, sem eiga viðskipti við bændur, senda skattstjórum upplýsingar um magn innlagðrar vöru frá hverjum bónda og það verð, sem bóndinn fékk fyrir vöruna, enn fremur upplýsingar, ef óskað er, um rekstrarvörukaup bóndans frá þeim verzlunarfyrirtækjum, sem hann skiptir við. Hagstofa Íslands fær allar þessar upplýsingar í sínar hendur og vinnur síðan úr þeim. Upplýsingasöfnun um allt, sem máli skiptir í sambandi við búrekstur og eignir bænda, er, að ég held, í góðu lagi hér á landi, og ég sé ekki, að ný ríkisstofnun gæti þar neitt bætt um, enda efast ég um, að til sé í nokkru landi, að lengra sé gengið í því að heimta upplýsingar um persónulega hagi manna, og ég hygg, að það muni ekki yfirleitt vera gert nema að undangengnum úrskurði dómsvalds, ef upplýsa þarf brot gegn landslögum, það er svo hart gengið eftir þessum upplýsingum. Ég hygg, að skattyfirvöld gangi hér a.m.k. gagnvart bændum eins langt í sumum tilfellum og komizt verður, og ég gæti sagt margar sögur af slíku, en mun ekki eyða tíma til þess. Það er verið með bréfaskriftum og hótunum að rekast út af málum eins og því, þegar gleymzt hefur að telja fram skepnur, sem hafa annaðhvort týnzt eða drepizt, og skattyfirvöld hóta að færa slíka gripi til eignar og tekjur af þeim til skattálagningar. Þetta er t.d. mjög algengt, og ég þekki ýmsa ístöðulitla menn, sem eru strangheiðarlegir, sem hefur orðið eftirrekstur af þessu tagi til sárra leiðinda, þó að þeim hafi orðið það á af vangá að gleyma að telja slíkt á sínum rekstrarskýrsluformum. Og ég skal nú ekki ræða frekar um þennan upplýsingasöfnunarþátt f frv.

Ég sé á frv., að flm. ætlast til þess, að kjararannsóknarnefndin verði mikill vinur bændanna, og hann setur henni það hlutverk að leiðbeina þeim, sem hún finnur, að þurfa slíks með. T.d. er í frv. í 10. gr. ákvæði um ýtarlega rannsókn á því, hvaða bústærð sé hagkvæmust í hverri búgrein. Ég hef oft áður heyrt nefnt eitthvað svipað. Er talað um, að það þurfi að gera rannsókn á því, hvaða bústærðir henti bezt, það hljóti að vera einhver bústærð, sem sé sú eina rétta í hverri búgrein. Mér hefur alltaf fundizt, þegar ég hef heyrt þetta, að það mætti alveg eins láta gera athugun á því, hvaða líkamsstærð manna væri hentugust fyrir hverja starfsgrein. Mér finnst þetta svo fjarstæðukennt og fáránlegt. Sannleikurinn er sá, að bændurnir eru eins og annað fólk, að það, sem hentar einum og er mátulegt fyrir hann, er annaðhvort of stórt eða of lítið fyrir annan. Þar koma til misjafnir hæfileikar, misjafn vilji, ólíkt upplag til starfa, misjafnt þrek, misjafn kjarkur, misjöfn heilsa, og síðast, en ekki sízt kemur þar til mjög ólíkur stuðningur konu og barna eða annarra vandamanna við búskap bóndans. Allt þetta og ótalmargt fleira kemur til greina í þessu starfi sem öðru. Svona er þetta líka í öðrum atvinnugreinum. Það má nefna það, að tveir sjómenn standa saman á þilfari og renna fyrir fisk. Þeir eru báðir með sams konar veiðarfæri, annar veiðir vel, en hinn fær varla bein úr sjó, þó að báðir sýnist fara nákvæmlega eins að við starf sitt. Ég ætla ekki að eyða tíma í að taka fleiri dæmi um slíkt, en þetta er svo alþekkt, að þess ætti ekki að þurfa. Ég álit þess vegna, að það sé alveg óhugsandi, að einhver sérstök bústærð geti verið sú eina rétta, og ég álít ekkert vit í því að ætla að steypa alla bændur, sem stunda sömu framleiðslu, í sama móti. Mín skoðun er sú, að bóndinn verði að vera sem frjálsastur, og ég er viss um, að einstaklingsbúskapur, annaðhvort í félagi við aðra eða aðeins með fjölskyldu bóndans, er eina rétta leiðin í okkar landbúnaði, og mun sú raunin, að ég hygg, víðast annars staðar, þar sem ég hef spurnir af úr öðrum löndum. Mun svo hafa farið víða, þar sem komið hefur verið á stórrekstri í búskap, samyrkjubúum og því um líku, að þær þjóðir hafa orðið að hverfa að verulegu leyti frá slíku rekstrarformi aftur.

Mér finnst heldur engin sanngirni í því, eins og viða kemur fram í kröfum til bændastéttarinnar, að hún eigi og allir bændur eigi að skila feikilega miklum afköstum við vinnu sína, fremur en t.d. að verkamenn og sjómenn eigi allir að vera eins og þeir allra duglegustu eru í þeim stéttum. Slíkt verður alltaf misjafnt í öllum stéttum og starfshópum, eins og ég hef áður lýst. Það fer eftir upplagi manna, þreki þeirra og heilsu og ýmsu öðru, hversu mikil afköstin geta orðið hjá hverjum og einum, svo að við getum ekki miðað við, að allir séu eins og þeir, sem duglegastir eru.

Frv. gerir ráð fyrir rannsóknar- og eftirlitsnefnd með dreifingarkerfi og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara, og á þessi n. að starfa í náinni samvinnu við kjararannsóknarstofnunina. Þessi n. á að vera skipuð fulltrúum neytenda og bænda, en forstöðumaður kjararannsóknarstofnunarinnar á að vera formaður þeirrar nefndar, þessarar rannsóknar- og eftirlitsnefndar. Hér á landi er vinnsla, dreifing og sala landbúnaðarvaranna næstum eingöngu í höndum félagsrekinna fyrirtækja bændanna. Fyrir tæpu ári var gerð á því athugun hér á landi af sérfróðum manni, hvort dreifingarkostnaður þessara vara hér væri líkur því, sem hann er í öðrum löndum á sams konar vörum, og kom þá í ljós það, sem ég held, að ýmsum hafi þótt undarlegt og brugðið í brún að sjá, að þessi dreifingarkostnaður hér var lægri en nokkurs staðar i öðrum löndum. Meðferð og vinnsla varanna er hér háð lögum og reglum og undir heilbrigðiseftirliti. Það sýnist því heldur ónauðsynlegt að setja hér á stofn rannsóknarnefnd af þessu tagi og taka fyrirtæki bændanna ein út úr til rannsóknar, en láta alla aðra, sem annast dreifingu og sölu matvara og hvers konar varnings og framleiðslu, láta þá i friði. Það þarf enga rannsókn í sambandi við þá. Ég veit ekki, hvers konar tortryggni það er, sérstaklega í garð bænda, sem hér á sér stað, ekki einasta hjá hv. flm. þessa frv., heldur hefur maður víða orðið var við þetta. Hefur bændastéttin verið hér á landi öðrum stéttum óáreiðanlegri? Maður hlýtur að spyrja þeirrar spurningar. Hafa bændurnir t.d. reynzt öðrum fremur okra á náunganum? Hafa þeir reynt að svíkja sína vöru? Hafa þeir staðið verr í skilum en aðrir við þá, sem hjá þeim hafa unnið? Hafa lánastofnanir tapað í viðskiptum við bændum fremur en aðra? Ég hygg, að öllum þessum spurningum verði ábyrgir menn að svara neitandi. Hvers vegna þá að setja fyrirtæki bændanna undir stöðugt eftirlit og rannsóknir. Ég fæ ekki séð, hvaða tilgangi slíkt hæfði, nema þá til að lítillækka bændur, en það veit ég, að hv. flm. vill ekki og hefur aldrei dottið í hug.

Þá er með þessu frv. sú breyting gerð á því fyrirkomulagi, sem í gildi er, að í stað þess að bændur og neytendur reyna að ná samkomulagi um afurðaverðið og kjör bænda, eiga bændur að semja um þetta við ríkisvaldið. Takist ekki samningar, eftir að bæði sáttasemjari ríkisins og þar á eftir sérstök sáttanefnd, skipuð af forsrh., hafa reynt að koma á samkomulagi, mega bændur gera sölustöðvun. Ekki veit ég, hvernig hv. flm. hugsar sér, að bændur gætu unnið mál sitt með þeim hætti, þar sem hann gerir ráð fyrir innflutningi landbúnaðarvara til samanburðar um verð og gæði innlendrar framleiðslu, eins og í frv. segir. Ég er hræddur um, að bændum gengi illa að ná fram sínum kröfum, hvort heldur væri í samningum eða með sölustöðvun, ef nægar útlendar mjólkur- og kjötvörur væru hér á markaði. Vafalaust eru ýmsir þeirrar skoðunar, að við eigum að flytja inn slíkar vörur og leggja okkar landbúnað að mestu niður. Ég hygg, að það vaki þó ekki fyrir hv. flm. þessa frv. Sannleikurinn er sá, að við flytjum mjög mikið inn í þetta land af landbúnaðarvörum, þar sem allur kornmatur, bæði til manneldis og skepnufóðurs, er fluttur inn frá öðrum löndum og allir ávextir og allmikið af kartöflum árlega flutt inn. Ég er þeirrar skoðunar, að máltækið „hollt er heima hvað“ sé viturlegt og að það séu hyggindi, sem í hag koma fyrir þjóðina, að búa sem mest og bezt að sínu, bæði með landbúnaðarvörur og annað, og kaupa ekki af öðrum það, sem við getum framleitt hér innanlands sjálfir.

Ég álít, að neytendur og bændur eigi, eins og þeir hafa gert um 20 ára skeið, að vinna áfram að samkomulagi um verðlags- og kjaramál. Ég játa, að slíkt getur oft reynzt erfitt, en bændur og aðrir vinnandi menn þessa lands eiga að ná sem oftast höndum saman að mínum dómi. Bændurnir eru fyrir löngu búnir að skilja það, að fólkið í borgum og þorpum þarf að hafa góð lífskjör, og ég veit ekki til þess, að bændur hafi reynt á nokkurn hátt að vera meinsmenn við kjarabaráttu þessa fólks í bæjunum. Þeir vita það og skilja, bændurnir, að svo bezt vegnar þeim sjálfum vel, að allur almenningur geti búið við góð lífskjör. Og hefur ekki þjóðin öll þörf fyrir það, að bændur nytji gæði moldar og yl sólar til fæðuöflunar fyrir landslýðinn? Vissulega er með því öryggi þjóðarinnar betur tryggt. Það hygg ég, að allir geti orðið sammála um.

Frv. gerir ráð fyrir, að útflutningsuppbætur verði skertar mjög og lækkaðar og hámarksupphæðin lækki á ári um 10 millj. í næstu 5 ár. Varla geta bændur talið slík ákvæði til þess. fallin að tryggja þeirra hag. Þó að það sé engan veginn æskilegt að þurfa á útflutningsuppbótum að halda, tel ég, að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðina, ekki síður en bændurna. Slíkt lagaákvæði tryggir það, að bændur framleiða nokkurn veginn í hörðum árum handa þjóðinni til neyzlu, og verður þá auðvitað nokkur afgangur í góðum árum, sem þarf að flytja út til annarra landa, og það er nokkurn veginn víst, að væru engar útflutningsuppbætur hér eða annað, sem kæmi í þeirra stað, væri framleiðslan ekki nóg og það þyrfti að flytja inn a.m.k. mjólkurvörur. En ég tel, að við eigum að nota okkar landkosti til mjólkur- og kjötframleiðslu, það sé meiri búmennska í því fyrir þjóðina heldur en að láta moldina óhreyfða og flytja inn frá öðrum löndum vörur, sem hér er með góðu móti hægt að framleiða. Þá er ég líka hræddur um, að fljótt yrði slæmur halli á okkar gjaldeyrisviðskiptum við útlönd, og ég held, að ástandið í þeim efnum sé ekkert of gott samt sem áður, þó að við flytjum ekki inn þessar vörur.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr. Ég veit vel, að til eru þeir bændur, sem hafa hreyft þeirri hugmynd, að betur mundi á því fara, að samtök þeirra semdu beint við ríkisstj., en að hafa það skipulag, sem nú er. Kannske er þetta frv. fram borið m.a. til að koma til móts við óskir þeirra manna í bændastétt, sem hafa verið að fitla við slíka hugmynd. Það er stundum vitnað til þess, að svona sé farið að í sumum löndum, t.d. í Noregi, þar semji bændurnir við ríkisstj. Ég hygg, að það séu ekki allir bændur þar í landi ánægðir með það fyrirkomulag, og víst er um það, að ekki hafa norskir bændur gert það með gleði í sínum samningum að verða að láta undan sinni ríkisstj. og hleypa inn á kjötmarkaðinn þar íslenzku dilkakjöti. Það verður sjálfsagt seint fundið það fyrirkomulag, sem allir geta verið ánægðir með. En allt stendur til bóta með reynslu og þróun.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur verið mikilsverð stofnun að mínum dómi fyrir bændur, og ég held, að það sé ekkert skrum, þó að það sé sagt, að sú stofnun sé meðal traustustu og ábyggilegustu stofnana í þessu landi og njóti almenns trausts. Það er ekki ráðlegt, þó að ýmsu sé ábótavant, — og það er auðvitað alltaf alls staðar einhverju ábótavant, — að vera að rífa það niður, sem fyrir er, og byggja upp nýtt í staðinn. Hitt er betra, finnst mér, að laga í hendi sér það, sem maður hefur, þegar gallar koma í ljós á því.

Ég sé ekki meiri andstæður í því, að stéttarsamtök bænda annars vegar og verkamanna eða neytendur almennt hins vegar semji um afurðaverð, heldur en þar væru að samningum einhver tvö félög innan Alþýðusambands Íslands, sem væru að gera einhvers konar verkefnasamning sín á milli. Ég sé ekki, að þetta séu nokkurn hlut meiri andstæður.

Hv. flm. þessa frv. og ég, við höfum báðir lifað og starfað með þeim stéttum, sem eiga að semja um afurðaverð landbúnaðarins skv. gildandi lögum og hafa gert það s.l. 20 ár, miklu oftar samizt milli þessara stétta. Ég hygg, að við getum báðir viðurkennt það, að þessar stéttir eru miklu minni andstæðingar nú í dag en þær voru fyrir rúmum 20 árum, þegar bændasamtökin voru stofnuð, svo að ekki hafa lögin um 6 manna n. spillt þar neinu, heldur mun það gagnstæða hafa átt sér stað, að kunnugleiki á högum hvors annars hefur orðið til að eyða alls konar tortryggni og misskilningi. Og það er sama reynslan og hvarvetna á sér stað, að þar sem stofnað er til kynningar, fer svo, ef góður vilji er fyrir hendi á báða bóga, að tortryggni og misskilningur eyðist. Ég vona, að þetta samstarf eflist enn, og ef einhver tortryggni er fyrir hendi, eigi hún eftir að eyðast og samningar geti sem oftast tekizt á milli bænda og annarra stétta þessa þjóðfélags.

Herra forseti. Ég veit, að þeim, sem hlustað hafa á þessi orð, sem ég hef nú látið falla um þetta mál, er ljóst, að ég er andvígur þessu frv. En ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég tel sjálfsagt, að málið fái þinglega afgreiðslu, þinglega meðferð og það sé athugað í n., eins og skylt er að gera með lagafrv.