21.04.1969
Neðri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og áður, þá hefur verið samvinna á milli allshn. Ed. og Nd. um þær umsóknir um ríkisborgararétt, sem voru upprunalega í frv., og þær umsóknir, sem hafa borizt eftir að Alþ. kom saman á s.l. hausti. Reglur þær, sem n. hafa sett og haft til hliðsjónar við sínar athuganir, voru settar í nál. 17. maí 1955 og síðan verið gerðar nokkru fyllri. Eins og frv. kemur frá Ed., þá eru 43 umsækjendur komnir inn í frv., en eftir að Ed. afgreiddi málið, þá komu nokkrar umsóknir til allshn. Nd., og mælir n. með því, að 9 umsækjendur fái ríkisborgararétt, og flytur um það brtt. á þingskjali nr. 486. Nokkrar umsóknir, sem bárust, synjuðu n. um, og ástæðan fyrir því er sú, að þeir umsækjendur fullnægðu ekki búsetuskilyrðum. Samkv. þessu frv. og brtt. er lagt hér til, að 52 fái ríkisborgararéttindi. Þessir umsækjendur eru frá 16 löndum, og eru 14 þeirra fæddir í Danmörku, 12 í Færeyjum, 7 í Þýzkalandi, 4 á Íslandi, 3 í Bandaríkjunum, 2 í Póllandi, og einn er frá hverju þessara landa:

Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Englandi, Kanada, Portúgal, Egyptalandi, Lettlandi, Tékkóslóvakíu og Íran.

Í sambandi við 2. gr. frv. langar mig til að fara hér nokkrum orðum, en þar segir, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli þó ekki öðlast ríkisborgararétt með l. þessum fyrr en þeir hafi fengið íslenzk nöfn samkv. l. um mannanöfn. Þetta ákvæði var sett fyrir allmörgum árum síðan, og um það urðu miklar deilur hér á Alþ., og margir þm. hafa haft hug á því, að þessu ákvæði væri breytt, en hins vegar var það ekki rætt nú í allshn., en ég vil minna á það, að í umr. um frv. um ríkisborgararétt hér í þessari hv. þd. 16. marz 1967 gerði hæstv. menntmrh. þetta að umræðuefni, og taldi hann persónulega ástæðu til, að þessu ákvæði væri breytt á þann veg, að menn, sem sæktu um ríkisborgararétt, væru ekki skyldaðir til þess að breyta um nöfn að öðru leyti en því að taka upp fornafn, en héldu ættarnafni sínu til æviloka, en afkomendur þessa fólks yrðu aftur bundnir við fornafn föður síns, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég er mjög hlynntur því, að þessi breyting sé gerð.

Hæstv. menntmrh. boðaði í þessari ræðu sinni, að hann mundi skipa n. til þess að endurskoða mannanafnalögin og boðaði það jafnframt, að sú breyting yrði lögð fyrir fyrsta Alþ. eftir síðustu kosningar, en ég sé á þessu, að það hefur ekki bólað neitt á þeirri breyt. enn, og ég vildi því gjarnan spyrjast fyrir um það, hvað liði þessari endurskoðun og hvort ekki megi vænta þess, að frv. um breyt. á mannanafnalögunum verði lagt hér fyrir Alþ. Ég sé, að hæstv. menntmrh. er ekki í sæti sínu, en ég ætla mér nú ekki að taka upp þann sið, sem einstaka þm. hafa tekið upp, að standa hér þegjandi í pontunni og láta leita að honum kannske um langan veg, en treysti því, að hæstv. forseti sjái um það, að þessi fsp. hafi hér verið gerð, og mér nægir það alveg, að hæstv. menntmrh. gefi þessar upplýsingar við 3. umr. þessa máls.