18.03.1971
Efri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

213. mál, náttúruvernd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa frv. gagnrýndi ég það m. a., hversu seint frv. er fram komið og hversu lítill tími er þar af leiðandi fyrir Alþ. til að fjalla um svo veigamikið mál, sem hér er óneitanlega um að ræða. En það var einróma skoðun menntmn. þessarar hv. d., eins og framsögumaður hennar hefur þegar gert grein fyrir, að þrátt fyrir það, þótt tími væri helzt til naumur til þess að kanna hin mörgu efnisatriði þessa máls, þá væri málið svo mikilvægt, að það væri ástæða til a. m. k. að freista þess að láta það fá framgang á þessu þingi. Og þess vegna hefur n. nú skilað áliti um það. Ég gagnrýndi það einnig við 1. umr., að af hálfu ríkisstj. höfðu verið gerðar nokkrar og býsna veigamiklar og, að ég er hræddur um, örlagaríkar breytingar á þessu frv. frá því, sem það var lagt hér fyrir í fyrra, þá óbreytt eins og milliþinganefnd hafði unnið að málinu og skilað því frá sér. Sú breytingin, sem ég taldi nú einna óheppilegasta, var að taka algerlega út úr hinu eldra frv. ákvæðin um sérstakan sjóð, náttúruverndarsjóð, sem væri undir stjórn náttúruverndarráðs, en það var í rauninni mjög stórt atriði í sambandi við frv., að náttúruverndarráð fengi með slíkum sjóði verulega aukna möguleika til sjálfstæðra athafna og frumkvæðis um ýmis efni, enda þótt það væri þó jafnframt bundið í frv., að ef um væri að ræða framkvæmdir eða aðgerðir, sem kynnu að kalla á verulegt fjármagn úr ríkissjóði, þá yrði slíkt að sjálfsögðu ekki gert án þess að aðrir aðilar, svo sem ráðuneyti, kæmi til.

Þrátt fyrir það, þó fleiri atriði væru, sem ég taldi sízt til bóta af þeim, sem hæstv. ríkisstj. hafði breytt frá hinu upphaflega frv., þá hef ég ekki farið út í að flytja brtt. um annað heldur en það, að á ný yrði sett inn í frv. ákvæði um náttúruverndarsjóð og ákvæði um fjáröflun til hans. Þessar tillögur mínar eru á þskj. 536 og það er fyrst og fremst um þær, sem ég ætla að fara hér nokkrum orðum. Eins og ég sagði áður, þá var ein meginbreyting hæstv. ríkisstj. á hinu upphaflega frv. eins og það var lagt fram í fyrra að kippa algerlega út ákvæðunum um náttúruverndarsjóð og setja inn í staðinn ákvæði um það, að kostnaður við framkvæmd laga þessara skuli greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem fé yrði veitt til á fjárlögum. Í hinu upphaflega frv. voru hins vegar ákvæði um sérstaka fjáröflun í þennan sjóð. Og ég get sagt það hreinskilnislega, að ég var aldrei neitt sérstaklega ánægður með þær tillögur út af fyrir sig, hvernig fjár skyldi til sjóðsins aflað, því að það var hvort tveggja, að það mátti mjög um það deila, hvort það væru eðlilegir tekjustofnar, og svo var það alveg ljóst, að það fé, sem þannig fengist, mundi vera allsendis ófullnægjandi. En ég hygg, að það, sem hafi nú fyrst og fremst ráðið því, að nefndin, sem undirbjó frv., varð á endanum sammála um slíka tillögu, hafi verið það, að hv. fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni gerðu sér þá einhverjar vonir um, að slíkar tillögur, — ef ekki væri um hærri upphæðir að ræða heldur en þar voru tilgreindar — slíkar tillögur kynnu að finna náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh., sem hlaut þar að sjálfsögðu um að fjalla. En þarna var á sínum tíma um að ræða fjárupphæð, sem gert var ráð fyrir að næmi nálægt 4 millj. kr. Þetta var óneitanlega allsendis ófullnægjandi, en þó betra en ekki og hefði kannske mátt vænta þess, að þar yrði síðar ráðin bót á. Í stað þeirra tekjustofna, sem þar var lagt til að taka upp, hef ég nú gert að tillögu minni á þskj. 536, að náttúruverndarsjóður verði stofnaður með framlögum úr ríkissjóði og tekjur náttúruverndarsjóðs verði fyrst og fremst fast framlag úr ríkissjóði, sem nemur a. m. k. 20 millj. kr. á ári. Ég tel, að ef einhver alvara er með samþykkt frv. eins og þess, sem hér liggur fyrir, þá verði að horfast í augu við það, að náttúruvernd kostar verulegt fé. Og ég hygg, að því verði ekki í fáum orðum lýst öllu greinilegar heldur en með því að vitna til þess, sem segir um náttúruverndarsjóðinn í grg. frá þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., og ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkurn hluta þess, sem þar er sagt um náttúruverndarsjóðinn og hlutverk hans. Þar segir svo:

„Flestar náttúruverndarframkvæmdir hafa nokkurn kostnað í för með sér. Þær upphæðir, sem um er að ræða, eru mjög misháar, allt frá framkvæmdum, er miða að stuðningi við útivist almennings, til kaupa á jörðum í sambandi við stofnun nýrra þjóðgarða. Stuðningur við útivist almennings getur orðið mjög fjárfrekur útgjaldaliður. Á þessu sviði er um mjög brýna þörf að ræða, sem ekki er séð fyrir með öðru móti.

Það sjónarmið hefur orðið mjög ríkjandi í umræðum nefndarinnar, að ósnortin náttúra landsins muni í nánustu framtíð verða þjóðinni drýgri tekjulind en margar þær framkvæmdir, sem nú er mjög haldið á loft. Í næsta nágrenni við okkur búa tugir milljóna manna, sem aldrei hafa kynnzt ósnortinni náttúru, hvorki séð ómengaðan fjallalæk né andað að sér fersku lofti í þeim skilningi, sem við leggjum í orðin. Það þarf ekki mikið hugarflug til að sjá, hvaða möguleikar eru fyrir hendi á sviði ferðamála, ef okkur tekst að viðhalda ósnortinni náttúru mitt í heldur óhrjálegum heimi mengunar og náttúruspjalla.

Sérhvert framlag til náttúruverndar á Íslandi er því ekki aðeins trygging fyrir því, að við varðveitum landið til nytja og ánægju okkur sjálfum og afkomendum okkar til handa, heldur er beinlínis hægt að staðhæfa, að sérhver fjárfesting í þessu skyni muni bera margfaldan ávöxt í beinum tekjum af erlendum ferðamönnum.“

Síðan segir um náttúruverndarsjóðinn sérstaklega:

„Náttúruverndarsjóður á að gegna því hlutverki að gefa náttúruverndarráði svigrúm til mjög aukinna framkvæmda. Nefndin hefur rætt fjölmörg verkefni, sem hún telur brýna þörf á að leysa á sem skemmstum tíma. Þar á meðal er mjög mikil fjölgun þjóðgarða frá því, sem nú er, þannig að ekki séu færri en 1–2 þjóðgarðar í hverjum landsfjórðungi. Verkefni af þessu tagi verða ekki unnin með nægilegum hraða, nema því aðeins að náttúruverndarráð geti tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar með tilstyrk árvissra og helzt vaxandi tekjustofna.

Önnur verkefni, sem náttúruverndarráði er ætlað að standa straum af, lúta að rannsóknum, sem ýmist eru beinn undirbúningur náttúruverndarframkvæmda eða miða að því að upplýsa, hvort og að hve miklu leyti friðlýsing einhvers svæðis er nauðsyn. Algengustu tegundir rannsókna, sem hér eru hafðar í huga, eru umhverfisrannsóknir, sem segja til um, hvaða áhrif truflun viss þáttar í náttúrlegu umhverfi hafi á aðra þætti náttúrunnar. Í mörgum tilvikum mundi kostnaður við slíkar rannsóknir dæmast á þann aðila, sem að trufluninni stendur, en náttúruverndarsjóður gefur náttúruverndarráði frjálsar hendur, þar sem um vafaatriði er að ræða eða ágreiningur kemur upp.“

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með því að lesa meira upp úr þessari grg., en af því, sem ég hef þegar lesið, er ljóst, að nefndin, sem samdi þetta frv., lagði mjög ríka áherzlu á það og taldi það eitt af frumskilyrðum þess, að lögin kæmu að gagni, að náttúruverndarráð hefði nokkuð frjálsar hendur að því er tekur til fjármála, og þyrfti ekki í ýmsum tilfellum að bíða eftir því að fá ákveðnar samþykktir eða ákveðnar fjárveitingar á fjárlögum. Sú bið gæti oft á tíðum orðið helzt til löng og jafnvel undir högg að sækja um fjárveitingar, þegar svo væri, að þær væru algerlega háðar fjárlagaafgreiðslu hverju sinni.

Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á það sjónarmið, að það sé mjög æskilegt, að náttúruverndarráði sé gert kleift að starfa á þann hátt, sem til er ætlazt, með því að sjá því fyrir nokkru og það allverulegu fjármagni til starfa sinna. Ég minnist þess að vísu, að við 1. umr. málsins neitaði hæstv. menntmrh. því algerlega, að sparnaðarsjónarmið hefðu ráðið því hjá ríkisstj., að þetta ákvæði um náttúruverndarsjóðinn var tekið út, og vissulega þótti mér ánægjulegt að heyra þá yfirlýsingu hæstv. ráðh. Hann taldi, að þar hefði ekki ráðið sparnaðarsjónarmið, heldur væri það stefnuskráratriði hæstv. ríkisstj. að fækka fremur heldur en fjölga hinum sérstöku tekjustofnum til alveg ákveðinna og afmarkaðra framkvæmda. Út af fyrir sig er ég sammála því sjónarmiði og því, prinsipi“, að slíkum einstökum tekjustofnum, sem ákvarðaðir eru til sérstakra mála eða framkvæmda, eigi að fækka eða þeir eigi jafnvel að hverfa og að það sé fremur, að ríkið eigi að taka til sín skattana og síðan eigi að verja slíkum hlutum úr ríkissjóði. Og með tillögu minni hér væri í rauninni gengið algerlega inn á þetta sjónarmið, því að þar er lagt til, að fjármagnið komi beint úr ríkissjóði, en til þess að hafa það ekki algerlega laust og óbundið, þá hef ég talið rétt og eðlilegt að setja þarna þann varnagla, að framlagið skuli nema a. m. k. 20 millj. kr. á ári. Ég er sannfærður um, að það verður nóg með það fjármagn að gera, og þótt meira væri, miðað við þau verkefni, sem fyrir liggja á þessu sviði.

Í sambandi við þetta mál er e. t. v. rétt að minna á það hér, að í fréttum af hinni nýju ríkisstj. í Noregi, í hádegisútvarpi í dag, var m. a. frá því skýrt, að því væri yfirlýst af ríkisstj., að hún mundi setja á stofn sérstakt rn. til þess að fjalla um náttúruverndar- og umhverfismál. Svo mikils metur hin nýja ríkisstj. Noregs þessi mál, að hún hefur ákveðið, að um þau skuli fjalla sérstakt rn. Ég hygg, að skilningur manna hér á landi á nauðsyn þessara náttúruverndar- og umhverfisverndarmála hafi einnig vaxið svo mikið nú hin allra síðustu ár, að menn telji það ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt, að þeim sé sinnt í miklu ríkari mæli heldur en áður og að til þeirra sé veitt nauðsynlegu fé, svo að hægt sé að gera þá hluti, sem allra brýnastir eru, ekki aðeins til þess að vernda náttúruna — það sé frumskilyrðið og það mikilvægasta, heldur einnig til þess að auðvelda almenningi, bæði okkur sjálfum og gestum okkar, að njóta óspilltrar íslenzkrar náttúru.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt. mínar, sem, eins og ég áður sagði, fjalla eingöngu um náttúruverndarsjóðinn, að ákvæði um hann verði sett á ný inn í frv. Á tveimur öðrum þskj. hafa verið lagðar fram brtt. við þetta frv. og um þær flestar get ég sagt það, að mér sýnast þær vera annaðhvort verulega til bóta eða þá a. m. k. algerlega skaðlausar og jafnvel heldur til bóta nema e. t. v. ein, sem ég taldi rétt að gera aths. við með örfáum orðum. Það er 2. brtt. á þskj. 539 frá þeim Birni Jónssyni og Steingrími Hermannssyni. Ég minnist þess einmitt, að um það atriði, sem þar er um fjallað, hvort ætti að binda kosningu náttúruverndarráðs við ákveðna menntun að einhverju eða öllu leyti, var mikið rætt og var að nokkuð vel athuguðu máli horfið frá því og talið, að náttúruverndarþing hlyti að hafa slík sjónarmið mjög ríkt í huga, þegar það kysi menn í náttúruverndarráð, jafnframt því sem að sjálfsögðu væri ráð fyrir því gert, að náttúruverndarráð hefði ráðgjafa á hinum ýmsu sviðum. Það kom til að mynda fram sú hugmynd, að e. t. v. ætti að binda það, að einn af náttúruverndarráðsmönnum væri lærður lögfræðingur, al því að oft er um að ræða lögfræðileg atriði, sem snerta starfsemi og ákvarðanir náttúruverndarráðs. En talið var, að það væri í rauninni eðlilegra að binda þetta ekki og að náttúruverndarráð hefði þá sína ráðunauta á hinum ýmsu sviðum, ef í því væru ekki á hverjum tíma menn, sem hefðu sérþekkingu á hinum mörgu einstöku efnum, sem ráðið yrði að fjalla um. Það var jafnframt gert ráð fyrir því, að það kæmi varla til mála, að af sjö mönnum, sem skipuðu náttúruverndarráð, yrðu ekki einn eða tveir eða fleiri líffræðingar í víðtækri merkingu þess orðs. Ekki man ég, hvort rætt var í nefndinni um þörfina á því, að þar væru verkfræðingar, en þó kann það að vera. Ég er ekki viss um, að þessi tillaga sé til bóta, og tel jafnvel, að hún þrengi heldur möguleika á því, að í náttúruverndarráð veljist hinir allra hæfustu menn og menn með alveg sérstaklega mikinn áhuga á þessum málum, því að það tel ég jafnvel enn þá meira atriði heldur en sérþekkingu á hinum einstöku þáttum, því að ráðið hlýtur að leita að slíkri sérfræðiþekkingu, þegar hún er ekki fyrir hendi innan ráðsins.

Að öðru leyti virðist mér, að þær tillögur, sem fluttar eru bæði á þskj. 539 og þskj. 562, séu ýmist til verulegra bóta eða a. m. k. ekki á neinn hátt til hins lakara, heldur jafnvel að þar séu nánari ákvæði um ýmis atriði og viðbótaratriði, sem gjarnan mega í þessari löggjöf vera.

Að svo mæltu vil ég mega vænta, að þetta mál geti fengið hér tiltölulega greiðan gang í gegnum hv. d. Ég er að sjálfsögðu fús til þess að verða við þeim tilmælum hv. form. menntmn. að taka mínar brtt. aftur til 3. umr., en þá treysti ég því fullkomlega, að haldinn verði mjög bráðlega fundur í menntmn. til þess að fjalla um þær tillögur, sem fram eru komnar eða fram koma, og að það verði ekki til þess að seinka málinu. Og í trausti þess skal ég verða við þeim tilmælum að taka mínar brtt. aftur til 3. umr. málsins.