24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

213. mál, náttúruvernd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hélt menntmn. þessarar hv. d. fund um náttúruverndarfrv. eða sérstaklega um þær brtt., sem fram höfðu komið um frv., nú í morgun og tók afstöðu til a. m. k. sumra þeirra. Því miður er nú ekki búið að útbýta þeim brtt., sem n. varð sammála um, og ekki heldur brtt., sem einstakir nm. boðuðu, að þeir mundu flytja. Það er þess vegna ekki ástæða til og ekki tök á því að ræða um þær og verður trúlega að bíða 3. umr.

Í sambandi við það, sem þegar er fram komið, að n. hefur fjallað m. a. um brtt. mína á þskj. 536, um að á ný verði tekið inn í frv. ákvæði um náttúruverndarsjóð, vil ég lýsa því yfir, að ég tel ekki ástæðu til þess að draga þessar brtt. mínar til baka til 3. umr., þar sem það liggur nú alveg fyrir, að n. sem heild treystir sér ekki til að mæla með tillögunum og það upplýstist enn fremur á nefndarfundinum, að hv. menntmrh. er þessum brtt. andvígur. Ég óska eftir því, — þrátt fyrir það, sem ég sagði við fyrri umr. með tilliti til þess, að n. liti á þessar brtt., — þá óska ég eftir því, að atkvæði fari fram um þær nú við 2. umr.