22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

281. mál, almannatryggingar

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða mikið við þessa umr. um einstök atriði þessa frv., heldur fara um það nokkrum almennum orðum nú. Mér mun gefast betra tækifæri til þess, þegar það kemur til n., þar sem ég á sæti og eftir að málið hefur verið þar til meðferðar, að ræða einstök atriði. Ég vil strax taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég tel, að það séu fá málefni, sem löggjafarvaldið fjallar um, sem nú sé brýnna að gera umbætur á en tryggingalöggjöfin, og þarf ekki í sjálfu sér mörg orð um það að hala, hvernig tryggingalöggjöfin, eins og hún er nú úr garði gerð, er alveg vanmáttug að fullnægja lágmarkskröfum þess fólks, sem á við að búa vanheilindi til starfa eða er orðið lasburða af elli, og hversu vanmáttug löggjöfin er í því að halda þessu fólki ofan vissra fátæktarmarka. Ástandinu í þessum málum var nýlega lýst mjög skilmerkilega í merkri blaðagrein, sem Jónas Guðmundsson, einn af fyrrverandi forystumönnum Alþfl. og fyrrverandi alþm., sem um áratuga skeið hafði haft mikil afskipti af sveitarstjórnarmálum og tryggingamálum, ritaði. Hann sagði m.a., að það væri guðlast að tala um velferðarþjóðfélag á Íslandi, því að hér ríkti ekki einu sinni framfærsluþjóðfélag. Með þessum orðum átti hann vitanlega fyrst og fremst við tryggingamálin.

Það er oft talað um það, að hér á Íslandi sé lítil stéttaskipting og jafnvel að engin fátækt sé hér. Fátækt er auðvitað afstætt hugtak og ekki ákaflega auðvelt að segja ákveðið hvar mörkin liggja, en ég held, að hér á landi hljótum við að leggja stolt okkar í það og allar aðstæður leyfi okkur að setja það mark tiltölulega hátt og við getum ekki í þeim efnum t.d. farið að miða okkur við afkomu manna í þróunarlöndunum eða önnur þau ríki, þar sem þjóðartekjur á mann eru miklu lægri en hér eru. En það er kunnugt, að við Íslendingar erum meðal þeirra þjóða sem hafa hvað hæstar þjóðartekjur á mann — kannske meðal hæstu þjóðanna. Við búum líka á breiddargráðu, sem verður til þess, að menn gera miklar kröfur til ýmissa þeirra lífsþæginda, sem frekar er hægt að vera án á öðrum breiddargráðum jarðar, og af því leiðir, að menn þurfa meira til sín og hin raunverulegu fátæktarmörk liggja af þeirri ástæðu miklu ofar en meðal margra annarra þjóða. En ég tel, að það sé alveg augljóst, að hér á landi hljóti allir þeir að vera neðan hinna raunverulegu fátæktarmarka yfirleitt, sem þurfa að byggja afkomu sína á íslenzkri tryggingalöggjöf. Ég tel líka, að verkamenn, sem ekki hafa annað til framfærslu sér og sínum fjölskyldum en dagvinnutekjur, séu innan eðlilegra fátæktarmarka. En það er að mínu viti fyrst og fremst gamla fólkið, sem á fáa eða engan að og ekki hefur tekizt á langri ævi að safna í neina varasjóði til ellinnar eða þá þeir hafi eyðilagzt í eldi verðbólgunnar, og þeir, sem sjúkdómar og slys hafa dæmt úr leik, sem hér koma til álita. Það má líka nefna einstæðar mæður, ekkjur o.s.frv. og ýmsa fleiri, sem ekki hafa af neinum nægtabrunnum að ausa og verða að sætta sig við þau lágmarkskjör, sem íslenzk tryggingalöggjöf dæmir þeim. Það er að mínu viti alveg öruggt mál og hafið yfir gagnrýni, að það er raunverulega í mörgum tilfellum um að ræða hreint svelti. Þetta fólk hefur ekki til hnífs eða skeiðar í bókstaflegri merkingu. Og ég held, að það gæti verið alveg sérstakt rannsóknarefni að athuga það, við hvaða lífsskilyrði þetta fólk raunverulega lifir í stórhópum. Ég held, að niðurstaðan af því yrði sú, að í ýmsum tilfellum minnti ástandið jafnvel frekast á það, sem hér gerðist um niðursetninga á tímum hreppaflutninga fyrir áratugum síðan.

Það er þess vegna vissulega ekki að ófyrirsynju, að endurskoðun hefur farið fram, sem þótti nauðsynleg á tryggingakerfinu. En um þá endurskoðun, sem hér hefur farið fram, vil ég fyrst segja það, að ég tel, að undirbúningur og framkvæmd þessarar endurskoðunar hafi verið í samræmi við verstu siðvenjur, sem tíðkazt hafa um endurskoðun stórra lagabálka á undanförnum áratugum undir viðreisnarstjórninni. Hér hefur pólitísk n. verið sett til starfa og pólitískir gæðingar að mestu leyti, þó að ég vilji ekki segja, að það sé ekki út af fyrir sig þar um margt mætra manna að ræða. En þeirri aðferð hefur ekki verið beitt, sem ætti að vera regla að beita við endurskoðun á slíkum stórum og þýðingarmiklum málaflokkum sem þessum, þ.e. að um væri að ræða breitt pólitískt samstarf t.d. milliþinganefnd, sem skipuð væri fulltrúum margra þingflokka. Í þessari n. hafa heldur engir verið, sem líta mætti á sem sérstaka fulltrúa öryrkja eða lífeyrisþega eða neinna samtaka, sem við þau mál fást, þó að hins vegar sé tekið fram í grg., að eitthvert samband hafi verið haft við þessa hópa. Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur um árangurinn. Dómur þess manns, sem í n. átti sæti og er vafalaust langhæfastur af öllum þeim, sem skipaðir voru að öðrum ólöstuðum, er sá, að frv. hafi verið illa undirbúið og m.a. hafi verið sleppt að fást við ýmis mjög mikilsverð atriði tryggingamálanna eins og t.d. sérstakan tryggingadómstól, sem menn virðast þó vera sammála um, að nauðsyn sé á að koma á fót, og ekki hafi verið athugaðar neinar breytingar á fjölskyldubótakerfinu í þessu sambandi og hugsanlegum tengslum þess við skattkerfið.

En við þetta má auðvitað ýmsu bæta. Það hefur ekki verið tekin til neinnar sérstakrar meðferðar sú aðferð, sem höfð var til tekjuöflunar til tryggingamálanna. Sá mikilvægi þáttur, sem lýtur að útgjaldahliðinni, er auðvitað ákaflega mikilsverður. En hann tengist að sjálfsögðu ýmsum öðrum grundvallaratriðum tryggingakerfisins. Í mínum huga er það t.d. mikil spurning, hvort ekki er orðin á því brýn nauðsyn að fá fram með löggjöf og með endurskoðun bæði á skattamálum og tryggingamálum beina tengingu milli skattkerfisins og tryggingakerfisins t.d. á þann hátt, að skattkerfið sé meira og beinna notað til þess að tryggja öllum, vinnufærum mönnum sem óvinnufærum, gömlum sem ungum, lágmarksframfærslu. Ég tel, að í þessu sambandi hafi líka átt að taka nefskattakerfið til rækilegrar athugunar. Ég tel það í eðli sínu óréttlátt og tel það verka að meira eða minna leyti til beinnar eða óbeinnar skerðingar á kjörum ýmissa þeirra, sem sízt skyldi, í sambandi við tryggingamálin. Ég tel t.d., að það sé alveg fráleitt, að unglingar, sem nú eru flestir sem betur fer í skólum til undirbúnings sínu lífsstarfi fram að tvítugsaldri eða fram yfir tvítugsaldur, séu látnir borga þessi iðgjöld, jafnvel þótt hagkerfið væri notað. Og staðreyndin er sú, að þessir nefskattar eru a.m.k. fyrir heimili, sem hafa mörg börn á framfæri og á einhverju tímabili mörg börn í skólum, einhver þyngstu opinberu gjöldin, sem um er að ræða. En aðalatriði þessa máls tel ég það, að við ættum algerlega að hverfa frá nefskattakerfinu og afla tekna með öðrum leiðum í okkar skattkerfi.

Um þær hækkanir, sem hér eru fyrirhugaðar samkv. þessu frv. á lífeyrisgreiðslum, þá tel ég, að þær séu algerlega ófullnægjandi. Lágmarkslífeyrir er samkv. frv. ákveðinn tæpar 5900 kr. á mánuði eða rúmlega 160 kr. á dag, og það mega auðvitað allir sjá, hversu hátt það hossar hverjum þeim, sem á því verður að byggja framfærslu sína. Og þó að tekið sé með í reikninginn það tekjulágmark, sem á að ábyrgjast lífeyrisþegum samkv. frv., þá er hér ekki um að ræða nema 7 þús. kr. á mánuði eða röskar 200 kr. á dag. Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að minnast sérstaklega á eitt atriði, og það eru tengsl þessa frv. við annað frv., sem lagt var hér fram sama daginn fyrir helgina, s.l. föstudag, um eftirlaun til aldraðra. Ég tel, að með ákvæðum þessa frv. sé verið að ræna aftur samningsbundnum greiðslum, sem aldrað fólk í stéttarfélögum á að njóta og með síðari löggjöf einnig bændur. Þau lög eru í raun og veru að verulegu leyti „annúlleruð“ með ákvæðum þessa frv. Ég tel það alveg fráleitt, að þegar tekjulágmark lífeyrisins er ákveðið, séu teknar inn í þetta þær greiðslur, sem þetta fólk á að hafa samkv. lögunum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, og algerlega óvenjulegt líka frá því sjónarmiði séð, að þeir aðilar, sem að þeim greiðslum standa, séu teknir inn sem einhver uppistaða í tryggingakerfinu.

Hér er um alveg óskylda hluti að ræða, sem ekki er unnt með nokkurri sanngirni að blanda saman, og ég tel það illa gert og ómaklega að hrifsa þannig til baka, eins og með þessum ákvæðum er gert, með annarri hendinni það, sem látið er með hinni. Eftirlaun til aldraðra voru skoðuð og um þau samið sem alveg sérstakar greiðslur — öllum öðrum greiðslum óháðar — til þeirra öldruðu manna í stéttarfélögunum, sem ekki gátu notið þess lífeyris með ákvæðunum og samningunum um lífeyrissjóðinn, og þær greiðslur má að mínu viti ekki með neinum beinum eða óbeinum hætti skerða. Þannig að ég held, að það sé alveg bráðnauðsynlegt að gera hér breytingu á, þó að annað væri látið standa, þegar þetta tekjulágmark er ákveðið fyrir hvern einstakling, og þessar greiðslur komi ekki þarna inn í. Og sannleikurinn er sá, að þessar greiðslur til aldraðra í stéttarfélögum skipta ekki lengur máli nema fyrir betur stæða lífeyrisþega. Þeir, sem eru á lágmarksbótum samkv. lögum um lífeyrisgreiðslur til aldraðra, eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, njóta einskis við þá löggjöf, eins og ákvæði þessa frv. eru. En ég vil samt sem áður taka það mjög skýrt fram, að ég tel, að með því að ábyrgjast ákveðið lágmarkstekjumark, liggi á bak við það alveg heilbrigð hugsun, og ég hygg, að það mætti alveg að ósekju og væri til bóta, að það væri farið lengra inn á þær brautir að ákveða lífeyrisgreiðslur eftir því, hverjir aðrir tekjumöguleikar lífeyrisþegans eru.

Það er enginn vafi á því, að á sama tíma og lágmarkslífeyrisgreiðslurnar eru fyrir neðan allar hellur og verða fyrir neðan allar hellur þrátt fyrir þær tryggingar, sem nú voru fyrirhugaðar, þá fer stórfé í gegnum tryggingakerfið til fjölmargra, sem enga þörf hafa fyrir það fé af þjóðfélagsins hálfu. En þegar horfið væri að þessu, þá teldi ég sem sé, að það þyrfti að tengja þetta allt og skoða þau mál niður í kjölinn í beinu sambandi við sjálft skattkerfið og endurskoðun á því. En sem sé við segjum það, að ástandið í þessum málum sé allt á þann veg, að auðvitað verði menn öllu fegnir og gleðjist yfir hverjum áfanga, hversu smár sem hann er í því að endurbæta tryggingakerfið. Og það á auðvitað líka við um þær réttarbætur, sem í þessu frv. felast og eru allmargar, en breyta þó ekki að mínu viti eða bæta í grundvallaratriðum kerfið að neinu verulegu marki.

Það voru hafðar uppi — ef ég man rétt, ef mig misminnir ekki, ég hef ekki um það orðréttar tilvitnanir, ég hef ekki aflað mér þeirra, en það ætti að vera auðvelt — stórar samþykktir á síðasta flokksþingi Alþfl. á því hausti, sem leið, um allsherjarendurbætur á tryggingakerfinu. Ég vil í sjálfu sér ekki efast um vilja Alþfl. í því í reynd, að hann hafi verið meiri en þetta frv. gefur til kynna, en hér hafi mál farið í samræmi við það, sem nýlega sagði í einu málgagni Alþfl., Alþýðumanninum á Akureyri, að Alþfl. hefði á síðustu árum lagt Sjálfstfl. til ýmis góð mál til þess að berjast fyrir, en auðvitað hefði það allt orðið að platpólitík í höndum Sjálfstfl. Þetta er að vísu nýyrði, kannske dónalegt að endurtaka það hér úr ræðustól á Alþ., en þannig stendur þetta svart á hvítu í næstsíðasta eintaki af Alþýðumanninum á Akureyri.

Ég verð að segja það, að mér þykir sú hækkun lífeyris, sem hér er fyrirhuguð, lítil miðað við allar aðstæður og miðað við það, hvaða breytingar hafa verið að gerast í okkar launakerfi. Ég benti t.d. á það, að hækkunin er ekki nema í kringum 1/30 partur af þeirri kauphækkun, sem hæstv. ráðh. hefur verið ákveðin í sambandi við útreikninga á launakerfi opinberra starfsmanna, og hún er miklu minni en sú meðaltalshækkun, sem opinberir starfsmenn hafa fengið. En eins og hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykv., kom inn á, þá er þó eitt enn lakara, þ.e.a.s. það, að hér er aðeins um að ræða að gefa út ávísun á tékkhefti næstu ríkisstj. — ávísun, sem allsendis er óvíst, að nokkur innstæða verði fyrir, þegar sú ríkisstj. fer frá, sem þetta frv. ber fram. Það er staðreynd, að hæstv. núv. ríkisstj. mun á þessu ári leggja á þjóðina í sköttum og skyldum til ríkissjóðs a.m.k. hálfan fjórða milljarð, og það er líka staðreynd, eftir því sem bezt verður vitað og staðfest al talsmönnum ríkisstj. hér á Alþ., að þessum umframtekjum verður búið að eyða öllum upp til agna 1. sept. n.k., og hvar á þá að taka það fé, sem vantar fyrir t.d. þessum og öðrum nauðsynlegum útgjöldum.

Ég tel að vísu, að okkar hag sé ekki svo illa komið, og spái því ekki, að honum verði svo illa komið, að við getum ekki risið undir því með þeim þjóðartekjum, sem við höfum, að auka lífeyri gamla fólksins og þeirra sjúku og vanmáttugu í þjóðfélaginu um 180–200 millj. kr. úr ríkissjóði. Ég held, að það sé enginn vafi á, að það sé hægt, en samt sem áður þarf að ákvarða til þess einhverjar leiðir, og það hefur verið vanrækt í sambandi við þetta frv.

Og það hefur líka verið vanrækt að gera grein fyrir því, hvaða áhrif þetta hefur á fjárhag sveitarfélaganna og hvernig við eigum að. mæta því. Þar eru örugglega möguleikarnir töluvert minni en hjá ríkisstj. Hv. síðasti ræðumaður gerði nokkuð að umtalsefni það atriði, sem hann taldi til einna mestra bóta í sambandi við þetta frv., að nú væri ákveðið með vissum hætti að greiða vísitölu á laun. Ég get vissulega tekið undir þetta.

En ég verð að játa, að mér er ekki fullkomlega ljóst, og vildi ég biðja um það sérstakra skýringa hæstv. ráðh., hvað ákvæðin um þetta raunverulega þýða Þýða þau það, að lífeyrisgreiðslur og bætur samkv. tryggingunum eigi ekkert að hækka í samræmi við kauphækkanir, sem verða á þessu ári? Gildir það aðeins um þær hækkanir, sem verða eltir næstu áramót á kaupi? Þetta er auðvitað ákaflega mikilsvert atriði vegna þess, að það er öllum augljóst, að þegar kemur að skuldadögunum 1. sept. og ég vil nú segja ekki síður 1. okt. n.k., þegar samningar óvefengjanlega verða úr gildi numdir, þá hlýtur að verða um mjög verulegar kaupkröfur að ræða af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að sjálfsögðu fyrst og fremst vegna þess, hvernig farið hefur um þær kauphækkanir, sem hún samdi um á s.l. vori, og einnig með hliðsjón af því, að betur launaðar stéttir hafa breytt sínum kjörum nú, síðan þeir samningar hafa verið gerðir. En ef skilja ber þetta svo og ef það er meiningin, að þetta eigi aðeins að gilda um þær kauphækkanir, sem verða eftir 1. jan. 1972, þykir mér auðsætt, að þessar hækkanir, sem hér eru ákveðnar, séu nákvæmlega einskis virði og þá geti farið svo, að hlutur lífeyrisþeganna í samanburði við aðra, sem laun taka með öðrum hætti í þessu landi, verði lakari en áður. Ég verð að vísu að játa, að mér þykir miklu sennilegri sú skýring, að það sé hugsunin að þetta eigi að gilda um allar kauphækkanir, sem verða, hvort sem er á þessu ári eða því næsta. En mér hefur ekki tekizt að sjá það af ákvæðum laganna, að það sé óyggjandi. Og hv. síðasti ræðumaður skildi þetta örugglega, þar sem hans orð féllu á þann veg, að hér væri eingöngu um að ræða, að þessar óbeinu vísitölubætur ættu að fylgja kaupgjaldi frá og með næstu áramótum, en hér er auðvitað um alveg úrslitaatriði að ræða, þ.e. hvort þessar hækkanir, sem hér er vísað á í framtíðinni og lofað og væntanlega staðið við, eru einhvers virði eða einskis virði.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að mér finnst höfuðgallinn á þessu frv. vera sá, að lífeyrisgreiðslurnar og bæturnar samkv. lögunum séu of lágar og það hefði ekki verið nein ofrausn, þó að þær hefðu verið tvöfaldaðar frá því, sem nú er. Það hefði verið raunverulega alveg lágmark þess, sem hugsanlegt var, að við gætum sætt okkur við, ef við á annað borð eigum að skoða tryggingabæturnar sem einhverja vörn gegn því, að verulegur hluti af því fólki, sem erfiðast á með að bjarga sér í samfélaginu af eigin rammleik, eigi ekki að vera fyrir neðan þau fátæktarmörk, sem þjóðinni eru ekki sæmandi miðað við sína fjárhagsgetu og sínar tiltölulega miklu þjóðartekjur.

Í öðru lagi tel ég það megingalla á frv., að breytingarnar á sjálfu gjaldakerfinu til trygginganna hafi ekki verið endurskoðaðar og þeim ekki breytt í grundvallaratriðum, þ.e.a.s. að ekki hafi verið horfið að neinu leyti frá nefskattakerfinu eða gerð nein tilraun til þess að fara út á þær brautir.

Og svo að lokum það, að lögin skuli ekki taka gildi fyrr en 1. jan. 1972. Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði um það mál. Ég tel þetta bæði óviðunandi og ósæmandi al ríkisstj., sem er að fara frá völdum, að ætlast ekki til neins af sjálfri sér um tekjuöflun til þeirra bóta á tryggingalöggjöfinni, sem hún viðurkennir, að séu nauðsynlegar, en vísi aðeins á ríkisstj., sem enginn getur í dag sagt um, hver er eða hver verður. Ég held, að í þessum efnum væri það eitt sæmandi hæstv. ríkisstj. að standa sjálf við sínar eigin skuldbindingar, en ekki ætla það einhverjum öðrum.

Ég hefði talið, að það hefði verið algert lágmark til viðbótar því, sem í þessu frv. felst, að í l. væri nú þegar sett ákvæði um nýja og betri endurskoðun á öllu tryggingakerfinu, t.d. með skipun milliþinganefndar. En þrátt fyrir þetta, sem ég hef sagt, þá vil ég ítreka það, að frv. í heild gefur — því er ekki hægt að neita — ofurlítið fyrirheit um nokkrar úrbætur, sem hafa vissulega verið tíundaðar hér rækilega af hæstv. ráðh. í hans framsöguræðu, og eins og ég sagði áðan, þá verða menn, eins og málin standa í þessum efnum, flestu fegnir.

Ég mun því ekki fyrir mitt leyti gera neinar tilraunir til þess að tefja afgreiðslu á þessu máli og leggja mitt fram til þess, að það geti fengið fljóta afgreiðslu, en ég ætlast líka til þess, að sú hv. n., sem fær það til athugunar, taki frv. raunverulega til rækilegrar yfirvegunar og geri á því allra nauðsynlegustu breytingar til þess, að frv. geti talizt nokkur veruleg bót á því slitna fati, sem íslenzka tryggingakerfið nú er.