21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 40 flutt till. til þál. um, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að Skipaútgerð ríkisins taki upp daglegar áætlunarferðir með vörur og farþega milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og jafnframt verði undirbúin smíði skips, sem væri sérstaklega gert til þess að sinna þessu verkefni á sem hagkvæmastan hátt og veita sem bezta þjónustu.

Samgöngur milli Vestmannaeyja og lands hafa nú um hríð verið ófullnægjandi og ótryggar, enda fara þær kröfur, sem landsmenn gera til góðra samgangna, sífellt vaxandi. Skipaútgerð ríkisins heldur uppi ferðum til Vestmannaeyja frá Reykjavík, sem hafa undanfarið verið með þeim hætti, að strandferðaskipið Herjólfur hefur farið nokkuð reglulega tvær ferðir í viku milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og öðru hverju á sumrin milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Flugfélag Íslands hefur reglulegar áætlunarferðir til Vestmannaeyja frá Reykjavík, en veðurskilyrði til þessa flugs eru oft mjög erfið, og á árinu 1969 féllu niður ferðir sökum veðurs í 89 daga á árinu. Þeir dagar voru oft æði margir í röð, og það má nærri geta, hverjum erfiðleikum það getur valdið, þegar margir dagar líða á milli skipaferða og flugferðir falla niður til svo fjölmenns byggðarlags í marga daga í röð. Einnig hafa skipasamgöngur öðru hverju truflazt um nokkurn tíma vegna viðgerða á skipum eða á annan hátt, m.a. nú nýlega í sambandi við það, þegar skipin stöðvuðust vegna deilu við yfirmenn, en nútíma atvinnulíf krefst örra og traustra samgangna, og nútímafólk vill geta komizt ferða sinna og þarf að geta komizt ferða sinna án óvæntra tafa.

Það er á sjötta þús. manns, sem búa í Vestmannaeyjum, og margir fleiri, sem eiga erindi þangað. Vestmanneyingar starfa við útflutningsframleiðslu fyrst og fremst, enda leggja þeir til hennar drýgri skerf en margir aðrir, en sækja aftur á móti flesta aðdrætti sína til annarra landshluta. Eyjabúar yfirleitt eru að sjálfsögðu háðari skipulögðum ferðum en aðrir, og það leggur að sjálfsögðu þjóðfélaginu, okkur, sem annars staðar búum, skyldur á herðar gagnvart þeim. Viðskipti Vestmanneyinga við Skipaútgerð ríkisins hafa um langt skeið verið bæði mikil og góð, þannig að Skipaútgerðin ætti að finna til nokkurra skyldna gagnvart þeim. Ég dreg þessa ályktun ekki eingöngu af því, að það skip, sem einkum hefur verið í Vestmannaeyjasiglingum hefur haft betri afkomu en önnur strandferðaskip yfirleitt, heldur dreg ég hana fyrst og fremst af flutningaskýrslum Skipaútgerðar ríkisins, sem fyrir liggja. Samkv. þeim er flutt meira vörumagn til Vestmannaeyja en til nokkurrar annarrar hafnar og meira vörumagn frá Vestmannaeyjum en frá nokkurri annarri höfn nema Reykjavík. Á árinu 1969, og það er ekki mjög mikið öðruvísi en önnur ár í því sambandi, voru fleiri farþegar fluttir af Skipaútgerðinni til og frá Vestmannaeyjum en til og frá nokkurri annarri höfn, þ. á m. Reykjavík. Þegar fleiri fara með skipum Skipaútgerðar ríkisins frá Vestmannaeyjum heldur en koma í allt til Reykjavíkur, þá á það einmitt sína skýringu í því, hvað margir Vestmanneyingar hafa notað sér þær ekki svo mjög mörgu ferðir, sem eru frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar, og aðrir, sem erindi eiga til Eyja, nota sér þessar ferðir, og þær hafa verið mjög vinsælar. Þær tölur, sem ég hef um þetta, eru þær, að á árinu 1969 fluttu skip Skipaútgerðarinnar 5717 tonn til Vestmannaeyja. Næstmest fluttu þau til Reykjavíkur, 5044 tonn, næst komu svo flutningar til Hornafjarðar og Ísafjarðar, töluvert miklu minna. Aftur var langmest vörumagn flutt frá Reykjavík, 17 þús. tonn, en næst koma Vestmannaeyjar. Þaðan eru flutt 1400–1500 tonn, og síðan kemur Hornafjörður og aðrar hafnir. Í Vestmannaeyjum gengu á þessu ári 3777 farþegar á skip Skipaútgerðarinnar, en í Reykjavík komu á skipsfjöl 2943 farþegar, og þar á eftir kemur svo Þorlákshöfn með rúmlega 1000 farþega, sem þar ganga á skip. En af skipum Skipaútgerðarinnar fara flestir farþegar í Vestmannaeyjum, 2727, næstflestir í Þorlákshöfn, 2419, og í Reykjavík 2408. Þær tölur, sem birtar eru um aðra staði, eru lægri. Er þetta mjög athyglisvert og sýnir, hve ríkur þáttur flutningar til og frá Vestmannaeyjum eru í starfsemi Skipaútgerðar ríkisins.

Nú síðustu árin hefur skapazt ný flutningaþörf í sambandi við Eyjar, en það eru bifreiðar ferðafólks og þá fyrst og fremst Vestmanneyinga, sem vilja ferðast um landið. Um s.l. áramót voru 600 bifreiðar í Vestmannaeyjum, þar af 488 fólksflutningabifreiðar minni en sjö farþega, en gera má ráð fyrir, að langflestar þeirra séu einkabifreiðar og eigendur þeirra hafi fullan hug á því að ferðast um landið með fjölskyldur sínar eins og aðrir landsmenn, enda eiga þeir sanngirniskröfu á því, að þeim sé auðveldaður aðgangur að þjóðvegakerfinu, því að þeir greiða til þess skatta og skyldur eins og landsmenn yfirleitt og bifreiðaeigendurnir sérstaklega.

Það hníga margvísleg rök að því, að Þorlákshöfn sé sá staður í landi, sem eðlilegast sé, að siglingar til Eyja séu stundaðar frá. Það er fyrst að nefna það, að það er sú höfn í landi, sem næst er Vestmannaeyjum. Þar í milli er 31/2 klst. sigling með þeim skipum, sem nú er um að ræða, en það er 10 stunda sigling milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur er svo rúmlega klukkustundar akstur, og það gefur auga leið, hversu miklu þægilegri sú ferð er farþegum en sigling fyrir Reykjanes. Þá ber einnig að minna á það, að mjög mikið af aðdráttum Vestmanneyinga kemur einmitt úr sveitunum austanfjalls, þ. á m. mjólkin og annað nýmeti, og það eru einmitt þær vörur, sem verst þola tímafreka flutninga og mest ríður á, að séu fluttar reglulega.

Auðvitað kemur mikið af þeim vörum, sem til Vestmannaeyja fara, úr Reykjavík, þ. á m. mikið af innfluttum vörum, sem þar er skipað upp úr millilandaskipum. Þangað fer einnig mikið af þeim vörum, sem Vestmanneyingar senda frá sér. Í sambandi við þetta verður auðvitað að taka upp eðlilega flutninga í sambandi við áætlunarferðirnar frá Þorlákshöfn milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar, en þar kemur einnig til athugunar, að hve miklu leyti er hagkvæmt og rétt að láta vöruflutningaskipin nýju, sem sigla austur um, koma við í Vestmannaeyjum líka vegna þessara flutninga.

Það var vissulega mikil samgöngubót, þegar Herjólfur kom til sögunnar fyrir meira en áratug. Nú síðustu árin hefur hann verið tekinn nokkru meira úr Vestmannaeyjasiglingum en áður var til annarra þarfa, en þegar nýju vöruflutningaskipin eru bæði komin í notkun, má gera ráð fyrir því, að Herjólfur geti aftur sinnt Vestmannaeyjasiglingum í ríkari mæli, en væntanlega yrði það þó aðeins til bráðabirgða, því að flutningaþarfirnar eru breyttar. Þess er varla að vænta, að Herjólfur anni þeim á hagkvæman hátt, sízt þegar hann á að gera það á nýrri siglingaleið, sem hann var ekki miðaður við í upphafi, og því verður að gera ráð fyrir því, að nýtt skip þurfi að smíða, sem verður miðað við að sinna þessu verkefni á sem hagfelldastan hátt. Eftir að Þorlákshöfn er komin og þær framkvæmdir orðnar þar, sem raun ber vitni og lokið var við nú fyrir nokkrum árum, þá verður að teljast, að hún sé nægilega örugg höfn til þess, að þaðan séu svona áætlunarsiglingar, sem hér er gert ráð fyrir. Þó að þessar siglingar séu að sjálfsögðu fyrst og fremst miðaðar við það að vera samgöngubót fyrir Vestmanneyinga og aðra, sem þangað eiga erindi, þá liggur það í augum uppi, að þau umsvif og athafnir, sem þetta hefði í för með sér í Þorlákshöfn, yrði einnig lyftistöng fyrir þann stað, og ástæða er til þess að stuðla að því.

Ég vil svo geta þess, sem ég hefði kannske átt að geta í upphafi máls míns, að sú hugmynd, sem hér er hreyft í þessari till., er ekki ný af nálinni, eins og þm. sjálfsagt vita. Það mun hafa verið strax á kjörtímabilinu 1959–1963, síðari hluta þess, sem þm. Alþb. og Framsfl. úr Suðurlandskjördæmi fluttu frv. til l. um það, að byggt yrði skip sérstaklega fyrir þessar siglingar, og sú till. hefur verið tekin upp oftar en einu sinni síðan, ýmist í frv.-formi eða í sambandi við fjárlög, en þegar ég hef kosið að flytja till. nú í þessu formi, þá er það vegna þess, að ég vil leggja aðaláherzluna á það, að þessar siglingar verði teknar upp og jafnframt verði svo undirbúin smíði skips, en ekki hitt, að byrjað sé að smíða skipið og síðan beðið með siglingarnar, þangað til það væri tilbúið. Enda vænti ég þess, að þegar skipakostur batnar hjá Skipaútgerð ríkisins, sem nú er að gerast um þessar mundir, þá verði hægt að láta Herjólf sinna þessum ferðum, þar til öðruvísi úr rætist.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.