21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (3741)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti lýsa ánægju minni yfir þeim umr., sem hafa farið fram um þetta mál, sem hér hefur verið flutt till. um og reyndar er ekki nýtt af nálinni hér í þingsölum, eins og flm. reyndar gat um. Ég leyfi mér að láta í ljósi sérstaka ánægju yfir tiltölulega góðum undirtektum þeirra flokksmannanna, hæstv. samgrh. og hv. 3. þm. Sunnl., því að ég hef nú dálitla lífsreynslu líka í svona málum, og þeirra flokkur hefur ekki alltaf tekið svona till. vel. Ég minnist þess t.d., að flokksblað þeirra úti í Vestmannaeyjum fór hinum hraklegustu orðum um það, að flutt skyldi á Alþ. till. um smíði sérstaks skips á snærum ríkisins til Vestmannaeyjaferða. Þetta skip ættu Vestmanneyingar að smíða sjálfir og eiga, það kostaði ekki meira en svo sem eins og það, að allir Vestmanneyingar fengju sér gúmmístígvél, í hvaða sambandi sem sú samlíking hefur nú staðið við ferðaþörf Vestmanneyinga á milli lands og Eyja.

En sem sagt, þetta er liðinn tími, og ég fagna því mjög. Það er að vísu imprað á því, að það sé vafasamt, að það séu ekki Vestmanneyingar sjálfir, sem eigi að smíða svona skip. Ég tel það ekki mjög miklu máli skipta, hver smíðar svona skip. En samgöngur þurfa að vera, og þær þurfa að vera betri, og þær þurfa að vera fullkomnari en þær hafa verið um skeið, að ég ekki tali um það, hvernig þær voru, áður en Herjólfur kom til sögunnar. Ég vil sömuleiðis láta í ljós fögnuð yfir því, að svo skuli nú komið málum, að flutningsgjald fyrir bifreiðar á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur skuli hafa verið lækkað frá því, sem áður var. Sannleikurinn er sá, að mér er alveg óskiljanlegt, með hverjum hætti sú óhæfa hefur komizt inn í gjaldskrár, sem allt þar til nú fyrir skömmu voru í gildi um flutning bifreiða á milli Vestmannaeyja og lands. Ég sannreyndi það sjálfur eitt sinn, þegar ég var að afla mér upplýsinga um bifreiðaflutninga til Vestmannaeyja, að það var miklu dýrara að flytja bíi til Vestmannaeyja en til Kaupmannahafnar, ef menn fóru með skipinu sjálfir. En sem sagt, ég læt í ljósi sérstakan fögnuð yfir því, að þetta skuli nú vera breytt, og vænti ég, að e.t.v. megi setja það í samband við það, að þm. Sunnl. fer nú með samgöngumál og hefur vafalaust rekið augun í þessa óhæfu ekki síður en ég og gert ráðstafanir til að breyta því. Ég vona, að ég megi þakka honum fyrir það.

En annars stóð ég nú aðallega upp vegna þess, að í sambandi við umr. um Vestmannaeyjasamgöngurnar á sjó er eitt geysimikilvægt atriði, sem á að vera í athugun. Ég veit ekki, hversu langt slík athugun kann að vera komin. En sé hún komin eitthvað áleiðis, þá vildi ég óska eftir svörum samgrh. þar um, því að það skiptir verulegu máli. Eins og ráðh. sjálfur gat um hér í ræðustóli áðan, þá er ekki alveg að vita, hvort hægt er að hafa samgöngurnar við Þorlákshöfn svo reglulegar sem menn gjarnan vildu annars óska vegna ófullkomleika hafnarinnar þar og vegna þeirrar sjóleiðar, sem þar er um að fara, en hún er bæði alllöng og sérstaklega ströng á vetrarmánuðum. En í hv. Ed. var í fyrra samþ. till. til þál. um áskorun á ríkisstj. að láta fram fara athugun, sérstaka athugun á hafnarstæði og hafnargerð við Þjórsárósa eða í Þjórsármynni. Það er á allra vitorði, að við það fljót eru nú að fara fram framkvæmdir með þeim hætti, að rennsli árinnar verður jafnað og ós hennar getur væntanlega orðið hagkvæmara hafnarstæði í framtíðinni en verið hefur til þessa. Enn fremur er það vitað mál, að hafnamálastjórnin hjá okkar þjóð hefur verið ærið hugmyndafátæk um hafnargerðir allt til þessa. Henni hefur lítið annað dottið í hug í hafnargerðum en að hafnir skyldu byggjast með þeim hætti, að grjóti væri ekið fram í sjóinn, unz grjótgarðarnir þar væru orðnir svo stórir og fyrirferðarmiklir í úthafinu, að þar myndaðist pottur, sem skip gætu haft skjól í. En ef maður lítur til annarra landa með svipuðum ströndum og okkar strönd virðist vera, þá eru hafnir yfirleitt ekki byggðar með þessum hætti. Þær eru byggðar með þeim hætti, að það er grafið upp í árósa og hafnir gerðar þar. Ég vil í sambandi við þetta mál sérstaklega vekja athygli á þessu og nota tækifærið til þess að spyrja ráðh. um þetta: Er athugunin á hafnargerðinni í Þjórsárósum komin eitthvað áleiðis? Ég tel þetta vera verulegt atriði í sambandi við Vestmannaeyjasamgöngur.