14.04.1972
Efri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

181. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Jón Árnason:

Herra forseti Aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv., því að ég er einn af flm. þess. Eins og fram kom hjá hv. frsm. n., þá var þetta mál sent til umsagnar ýmsum aðilum, bæði LÍÚ, Fiskifélaginu, stjórn sjóðsins o. fl., eins og hann greindi frá. Það var LÍÚ, sem mælti gegn samþykkt þess,a frv. og taldi, — það voru aðalrökin hjá þeim, — að vera mundi mjög erfitt að fylgjast með því, að ekki væri farið þannig að í greiðslu fæðispeninga í þessu sambandi, að það væri nokkurn veginn tryggt, að ekki væri um misnotkun að ræða.

Ég verð að viðurkenna, að það er rétt, að um allmikið vandamál getur verið að ræða í þessu sambandi, og það mun sérstaklega vera, eftir því sem upplýst er, að um slíka útgerð geti verið að ræða á Norðurlandi. Það mun vera mjög lítið um það, að opnir bátar hér á Suðvestur landi stundi róðra á annan hátt en þann að koma jafnan að landi að kveldi, og þegar þannig er, þá er náttúrlega enginn vandi að fylgjast með raunveruleikanum í þessum efnum.

Ég féllst á það, eins og aðrir nm., að ákvæði það, sem hér um ræðir og fjallar um, á hvern hátt greiðsla fari fram, gildi að þessu sinni aðeins fyrir yfirstandandi ár. Eins og frsm. sagði, verður þá komin reynsla á þetta mál, og með hliðsjón af því taldi ég fyrir mitt leyti, þó að ég væri flm. að frv., að við nánari athugun væri rétt að afgreiða málið þannig að þessu sinni, og ég mun að sjálfsögðu, eins og fram kemur í nál., fylgja þeirri afgreiðslu.

Ég vil svo að lokum segja það, að mér er fyllilega ljóst, að það getur verið um nokkur vandamál að ræða í sambandi við framkvæmd á þessum lögum, þannig að nokkurn veginn sé öruggt, að komið verði í veg fyrir, að misnotkun eigi sér stað, og ég vænti, að sú reynsla, sem kemur á framkvæmdina á yfirstandandi ári eða komandi sumri, leiði þá í ljós, hvort það er ekki eðlilegt að lögþinda þetta til frambúðar.