16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 465 ásamt hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, brtt. við 23. gr. frv., þar sem lagt er til, að til frádráttar komi, áður en útsvar er lagt á, ekki einasta það, sem tilgreint er í gr., eigin húsaleiga og skyldusparnaður heldur einnig, eins og till. segir, vextir af lánum úr lífeyrissjóðum og/eða Byggingarsjóði ríkisins, sem áhvílandi eru á íbúðarhúsnæði gjaldanda, sem nýtt er til eigin afnota. Ég tel, að hér sé farið eins hógværlega í sakirnar og frekast er unnt, þar sem tilgreindir eru aðeins þessir tveir lánaaðilar, sem allir eða flestallir húsbyggjendur þurfa að taka lán hjá og aðeins gert ráð fyrir, að þetta nái til þeirra aðila, sem búa í eigin íbúðum eða þeim íbúðum, sem nýttar eru af eiganda sjálfum. Við höfðum þetta í því formi í þeirri von, að þetta þætti eitthvað aðgengilegra heldur en ef hefði verið tekinn sá kostur t.d., eins og vel kom til greina, að vextir af áhvílandi veðskuldum á íbúðum almennt yrðu dregnir frá, áður en til útsvarsálagningar kæmi. En eins og ég sagði, við gerðum það í þeirri von, að þetta mætti þó verða frekar til þess að finna náð fyrir augum þeirra manna, sem nú ráða, hvort slíkar breytingar eru teknar inn eða ekki.

Ég skal svo ekki hafa um till. fleiri orð. Hún er ljós og skýr, þarf ekki neinnar sérstakrar grg. með, og almennt ætla ég ekki að fara að þreyta hv. þm. á umr. um málið. Það er búið að tala það mikið hér um tölur og útreikninga og annað slíkt, að ég ætla ekki að fara inn á það. En ég vildi aðeins leiðrétta eitt, sem kom fram hjá frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hv. 4. þm. Norðurl. e., þar sem hann var að reyna að sannfæra þm. um það, að giftar konur, sem afla sér tekna utan heimilis, færu betur út úr þessum lögum heldur en áður hefði verið. Það er svo með þetta atriði eins og í mörgum tilfellum öðrum, að hægt er að blekkja með því að segja aðeins hálfan sannleikann, eins og þessi hv. þm. gerði. Þegar tekjustofnalögin eru rædd, þá hljóta í þessu tilfelli, eins og almennt er í mörgum öðrum tilfellum í sambandi við lögin, að tengjast við þær umræður ákvæði þeirra skattalaga, sem hafa verið til umr. og eru hér til umr. í hv. Ed. Það hlýtur því að verða svo, að ef á að meta þessa aðstöðu, meta þessi hlunnindi giftra kvenna, sem aflað hafa sér tekna utan heimilis, meta þá aðstöðu eins og hún raunverulega er við þá breytingu, sem gerð er á þessum tvennum lögum, þá verður að taka hvort tveggja þetta til greina.

Hann tók tiltekið dæmi, þar sem maður hefði 400 þús. kr. tekjur og konan aflaði sér 200 þús. kr. tekna, og fékk út úr því, að útsvar yrði þá aðeins 20 þús. kr. eða 22 þús. kr., ef ákvæðið um 10% álag yrði notað, í staðinn fyrir að útsvarið hefði orðið 30 þús. kr. miðað við gildandi lög um tekjustofna sveitarfélaga. Þó að aðeins sé litið á þetta atriði, þá er það náttúrlega rangt að taka töluna þannig, því að ef kona hefur greitt 30 þús. kr. útsvar árið áður, þá fær hún það dregið frá sínum 100 þús. kr., sem eftir verða. Hún mundi því aðeins greiða 30% af 70 þús. kr. eða 21 þús. kr., miðað við tekjustofnalögin eins og þau eru í dag, þannig að aðeins þetta er ekki rétt með farið. Það er ekki tekið tillit til þess, sem allir vita, að útsvör eru frádráttarbær og kona, sem hefði greitt árið áður 30 þús. kr., hefði fengið það frádregið sínum 100 þús. kr. tekjum, sem komu til skattlagningar við útsvarsálagningu, og þess vegna ekki greitt nema 21 þús. kr. af þessum 100 þús. kr. Hitt er annað atriði, sem ég nefndi, að blekkja mætti með því að segja ekki nema hálfan sannleikann. Ef tekin eru samanlagt skattar og útsvar giftra kvenna, sem afla sér tekna utan heimilis, þá er þar um verulega hækkun að ræða. Og í þessu tilfelli hefði hún miðað við gildandi lög átt að greiða 48 900 kr. samanlagt í útsvar og skatta af þessum 100 þús. kr. eða 57 þús. kr., ef hún hefði ekki greitt útsvar árið áður, svo að ef hún greiddi full 30% af 100 þús. kr., þá hefði hún átt að greiða 57 þús., annars 48 900 kr., ef hún hefði greitt útsvar árið áður. En miðað við það frv., sem við erum hér að ræða, þá á hún fyrst að greiða 20 þús. kr. eða 22 þús. kr., ef hækkunarheimildin er notuð, og auk þess, eins og hann sagði réttilega, þar sem þarna er orðið um samanlagðar hátekjur að ræða, 600 þús., þá ætti eiginmaðurinn hennar vegna að greiða 44% af þessum 100 þús. kr. eða 44 þús. í skatt. Samanlagt gerir þetta 64 eða 66 þús. kr. og aðstaða þessara aðila, giftra kvenna, sem afla tekna utan heimilis, versnar því þarna verulega, og þarna er um það stóra upphæð að ræða, að ég er sannfærður um, að þetta dregur úr áhuga giftra kvenna á að afla sér tekna utan heimilis, þegar þær sjá, að þannig er þeirra starf metið, sem allir vita, að er þjóðfélagsnauðsyn í dag. Það er ekki einasta í fiskiðnaðinum, það er í ýmsum fleiri tilfellum. Það er orðin þjóðfélagsnauðsyn, að giftar konur afli sér tekna og taki þátt í atvinnulífinu. En með því að ganga á þeirra rétt, sem verið hefur, þá er ég sannfærður um, að það mun draga úr áhuga á að gera þetta eftirleiðis.