14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það eru tvær mjög alvarlegar ástæður fyrir því, að Alþ. Íslendinga ber að afgreiða þetta frv. sem lög. Fyrri ástæðan er sú, að það líður varla sú vika, að fiskifræðingar okkar og aðrir, sem til þekkja, gefi ekki þjóðinni og ráðamönnum hennar alvarlegar aðvaranir um ástand fiskistofnana í kringum landið. Hin ástæðan er sú, að við eigum í vök að verjast í landhelgismálinu og málstaður okkar er hvað veikastur, þegar kemur að friðun. Það er breitt út um allan heim, það heyrist hvar sem farið er, að Íslendingum sé ekki treystandi til þess að vernda fiskstofna, þeir séu gráðugir fiskimenn, sem hafi ekki manndóm í sér til neinnar verndunar. Það er því nauðsynlegt og hefur raunar verið, síðan við færðum út landhelgina, að við setjum okkur fiskistefnu, bæði til þess að auka vernd okkar eigin fiskstofna og til þess að sýna umheiminum, að okkur er alvara í sambandi við útvíkkun landhelginnar að reyna að friða fiskstofnana og tryggja þá innan þessarar landhelgi.

Ég tel, að ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. sjútvrh. hafi gersamlega brugðizt hlutverki sínu í þessum meginþætti landhelgismálsins. Það var skylda ríkisstj. að undirbúa nýja fiskveiðilöggjöf að þessu leyti og hafa hana til, um leið og landhelgin var færð út. :Mér þykir það vera meira en lítið, sem gerist hér, eftir að þmnefnd hefur létt byrðinni af hæstv. ráðh., tekið af honum hlutverk hans og samið tiltölulega gott frv., sem þó gengur eins skammt og hægt er að ganga í verndunarátt, — frv., sem hæstv. ráðh. fékkst ekki til að flytja, — að hann skuli svo gangast fyrir því, að málinu verði vísað frá.

Við höfum margir fallizt á að afgreiða svona mál á einni viku eða svo, þó að það sé óforsvaranlegt um stórmál á Alþ., vegna þess að þetta mál er eitt af grundvallarmálefnum íslenzku þjóðarinnar, — mál, sem við erum alltaf að hugsa um allt árið um kring, og ef þm. vita nokkuð í sinn haus, þá hljóta þeir að bera eitthvert skyn á það sem þetta frv. fjallar um. Ef smávegis deilur eða hreppapólitík á að hræða okkur frá því að afgreiða þetta mál, þá er það ósigur í landhelgismálinu, þá erum við að gefa andstæðingum okkar höggstað á okkur, og það er óskemmtilegt, að sjálfur hæstv. sjútvrh. skuli hafa forustu um þetta. Ég vil því lýsa algerri andstöðu við þá stefnu, sem hann lýsti í ræðu sinni áðan, og heita á alþm. að sameinast um þetta frv. Ég veit, að það er erfitt fyrir svo að segja öll kjördæmin, en frv. gengur í rétta átt, það gengur í friðunarátt, að minni hyggju helzt til skammt, en ekki of langt. Við verðum einhvern tíma að reyna að hefja okkur upp yfir hreppapólitíkina og sýna, að við séum menn til að stjórna þessu landi og getum mótað stefnu, sem hjálpar okkur til þess að vinna landhelgismálið, en ekki að hafa uppi stefnu undanhalds í þessum efnum.