28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

81. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðar sem sækja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég kom hér aðeins í ræðustól til þess að lýsa yfir fyllsta stuðningi mínum við þessa till., sem er hvort tveggja í senn tímabær mjög og tekur á miklu vandamáli, sem er reyndar alls ekki nýtt. Segja má, að varðandi vanda þess mikla fjölda skólafólks, sem sækir hingað nám, hafi hið opinbera á undanförnum árum brugðizt mjög hlutverki sínu að aðstoða þetta fólk, þótt, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, töluverð breyting hafi orðið þar á allra síðustu árin. Í n. þeirri, sem ég átti sæti í í fyrra og fjallaði um stuðning við skólafólk af landsbyggðinni og átti að semja ný lög um þessi atriði, þá kom það einmitt í ljós við öflun upplýsinga, hve gífurlegur mismunur var þarna á aðstöðu skólanemendanna og hve margir þeirra höfðu neyðzt til þess, að því er virtist, að búa við alls óviðunandi kjör, sérstaklega varðandi húsaleigu og einnig fæðiskostnað.

Hér var á dögunum rifðjuð upp heldur ljót saga um viðskipti opinberra aðila við eitt hótel hér í bæ. Það væri sannarlega ástæða til þess, að það mál yrði að fullu upplýst, þannig að skýrt kæmi í ljós, hvort þarna sé um hreinar vanefndir hótelsins að ræða eða ekki.

Menntmrh. hefur, að því er ég bezt veit, eitthvað kannað þessi mál og veitt fáeinum nemendum nú í haust sérstaka aðstoð varðandi þeirra vanda. Það væri mjög gott, ef þessi till. gæti orðið til þess að ýta þar frekar á, og ég lýsi yfir fyllsta stuðningi mínum við hana.