05.11.1973
Efri deild: 12. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, og ekki síst vil ég þakka honum að hafa lýst því yfir, að fjöldatakmörkun væri algert neyðarúrræði, og sé ég þá ekki annað en að hann hafi aðstöðu til að fyrirbyggja, að slíkt neyðarástand skapist. Það kom fram í ræðu hans, að niðurskurður hefði verið gerður á stöðuveitingum og fjárframlögum til læknadeildar Háskólans. Og það kom einnig fram, að sjálft menntamrn. hafi lagt til frekari fjárveitingar og frekari stöðuveitingar en orðið var við. Með tilliti til þess ástands, sem ríkir nú í þessum málum hér, og með tilliti til þess, hve áhugi er ríkur fyrir því, að heilbrigðisþjónustunni verði sköpuð betri skilyrði út um landið, vonast ég til þess, að sameiginlega verði fundið ráð til þess að bæta úr því og að deildin fái þær nauðsynjar, sem hún þarf á að halda. En því er ekki að neita, að þegar nemendafjöldinn tvöfaldast skyndilega, skapast gífurleg vandamál, og að sjálfsögðu verður að grípa til bráðabirgðaráðstafana. En ég held, að það hljóti að vera möguleiki á að nýta betur sjúkrahúsin í Reykjavík til kennsluaðstöðu heldur en gert hefur verið hingað til a. m. k. Jafnvel þótt leyfi hafi fengist til þess að stúdentarnir kæmu til náms á þessum sjúkrahúsum, þá er það ekki nóg, það þarf einnig að ráða kennara til þess að kenna þeim og skapa þeim húsakost og tæki til þess að njóta námsins. Þetta er það, sem ekki hefur verið gert í nógu ríkulegum mæli, og vona ég, að úr því verði bætt.

Um geðdeildina og hennar aðstöðu vil ég segja þetta :

Ég lít svo á, að geðdeildin þurfi ekki að verða á nokkurn hátt til þess að tefja byggingarframkvæmdir læknadeildar. Geðdeildin er byggð á vegum ríkisspítalanna, hún er byggð með fjárframlögum úr ríkissjóði.

Háskólahappdrættið hefur nú milli 60 og 70 millj. kr. nettótekjur árlega, og mér finnst, að það sé mál til komið, að forráðamenn þess fari að ranka við sér og fari að leggja fé til læknadeildar. Að vísu viðurkenni ég, að vafalaust er nauðsynlegt, að gerð verði frekari bráðabirgðaúrræði til þess að leysa húsnæðisvandamál læknadeildarinnar, en bráðabirgðaúrræði eru líka neyðarúrræði, og það, sem mér finnst mest virði af öllu, fyrir utan það að kveða niður drauginn um takmarkanir, er í fyrsta lagi, að nú verði gerð gangskör að því að hanna upp á nýtt læknadeildarhúsið og hefja byggingu þess og þar verði það ekki síst háskólahappdrættið, sem leggur fram féð.