03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

291. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það var aðeins vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals, að ég vil geta þess, þar sem ég er í þessari almannatryggingaendurskoðunarnefnd og þar sem form. hennar, sem á sæti í þessari d., er ekki viðstaddur, að við höfum rætt allmikið um þetta mál, að sjúklingar utan af landi gætu fengið aðstoð við greiðslu á flutningskostnaði til sérfræðings. Var talin mikil óvissa, hvernig ætti að framkvæma þetta, eins og getið hefur verið um hér. Möguleikar er hér á misnotkun, eins og er nú oftar. En ég man ekki betur en að þetta mál hafi verið sent til athugunar og það eigi að reyna að komast að því, í fyrsta lagi, hvað mikill kostnaður hafi verið við þetta undanfarið, því að sjúkrasamlögin greiða oft hluta af þessum kostnaði, og í öðru lagi, hvað líklegt er, að hér gæti verið um að ræða, og enn fremur að leita álits héraðslækna og fleiri um það, hvernig best væri að framkvæma þetta. Almannatryggingalögin eru í raun og veru í stöðugri endurskoðun, og enda þótt það hafi ekki fleiri atriði en þessi, sem hér liggja fyrir, verði tekin inn í þetta frv., er það síður en svo, að endurskoðun þeirra sé lokið. Það má því ætla, að haldið verði áfram að rannsaka þetta mál, sem hér var getið, og vonandi leysist það innan tíðar.

Það er rétt, sem sagt var hér varðandi 4. gr., að tekjuviðmiðunin er 700 þús. kr., þannig að allir þeir, sem eiga eitt barn eða fleiri og hafa tekjur 700 þús. kr. eða minna, fá greiddar fullar fjölskyldubætur. Ég skal viðurkenna, að þetta er kannske ekki nógu skemmtilega orðað í gr., en við því verður ekki gert. En ætlunin er þessi, og þetta er þannig, þegar maður skoðar málið nánar, að það er fyrst og fremst tekjuviðmiðunin, sem þarna er um að ræða.