04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Í dagblöðum s. l. laugardag birtist eftirfarandi frétt frá Húsnæðismálastofnun ríkisins:

„Á fundi húsnæðismálastjórnar föstudaginn 30. nóv. var tekin ákvörðun um lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins á næstu vikum og mánuðum, er nema munu um 420 millj. kr. Er hér um byggingarlán að ræða, er koma munu til greiðslu í þremur áföngum frá 15. des. n. k. til og með 10. febr. n. k. Afgreiðslan á byggingarlánaumsóknum í ofangreindum lánveitingum verður með neðangreindum hætti:

1. Allar umsóknir, sem bárust stofnuninni fyrir 1. febr. 1973, höfðu verið úrskurðaðar fullgildar og lánshæfar hinn 15. nóv. s. l. og fokheldisvottorð höfðu borist út á,“ eins og þar segir, „fyrir þann tíma, verða í lánveitingu, er kemur til greiðslu eftir 15. des. n. k.

2. Framhaldslánsumsóknir þeirra umsækjenda, er fengu frumlán sín borguð út eftir 7. maí s. l., verða í lánveitingu, er kemur til greiðslu eftir 10. jan. 1974.

3. Allar þær umsóknir um byggingarlán, sem bárust stofnuninni eftir 1. febr. 1973, höfðu verið úrskurðaðar fullgildar og lánshæfar hinn 15. nóv. s. l. og fokheldisvottorð höfðu borist út á fyrir þann tíma, verða með í lánveitingu, er kemur til greiðslu eftir 20. febr. 1974.“

Svo mörg eru þau orð og trúlega hefur mörgum húsbyggjanda brugðið illilega í brún við frétt þessa, þeim mun illilegar, sem þeir höfðu fullkomna ástæðu til að halda, að úrlausn lánamála þeirra yrði með allt öðrum hætti en raun er hér á orðin.

Ef litið er á hinar þrjár upptalningar í fréttatilkynningu húsnæðismálastjórnar, má segja um 1. liðinn, að engum komi hann á óvart, að þeir, sem höfðu sótt um lán fyrir 1. febr. s. l., fengju úrlausn eftir 15. des. n. k.

Um 2. liðinn, þar sem tilkynnt er, að þeir umsækjendur, sem fengu frumlán sín eftir 7. maí s. l., fái framhaldslánveitingu eftir 9. jan. 1974, er það að segja, að hæstv. félmrh. sagði í svari sínu við fsp. minni um þessi mál hinn 6. nóv. s. l., að það væri sterk von sín, að þau lán mundu geta orðið afgreidd um eða a. m. k. ekki síðar en rétt í upphafi næsta árs. Það má segja, að hæstv. ráðh. hafi tekið þar rétt mátulega í árinni. En hitt má öllum ljóst vera, sem þekkja lánareglur viðskiptabanka og annarra sjóða, hversu gífurlegt óhagræði öllum viðkomandi er að því að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar fyrir áramót.

Þá er komið að 3. lið fréttatilkynningarinnar, en þar kastar fyrst tólfunum. Þar segir, að allar umsóknir, sem bárust eftir 1. febr. s. l. og urðu fullgildar fyrir 1. nóv. s. l., skuli fá afgreiðslu eftir 10. febr. n. k. Um þennan þátt málsins sagði hæstv. félmrh. á hinu háa Alþ. hinn 6. nóv. s. l. svo orðrétt:

„Og það er þegar ljóst, af þeim aðgerðum, sem hafa verið gerðar í málefnum Byggingarsjóðs, að unnt er að veita þessi lán fyrir áramót.“

Frá því að hæstv. ráðh. gefur þessa ótvíræðu yfirlýsingu hér á hinu háa Alþ. liður tæpur mánuður, þangað til hæstv. ríkisstj. tekur ákvörðun um allt annað. Þessi nýja ákvörðun mun bitna á samtals 371 umsækjanda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, seinkun húsbygginga og stórauknum kostnaði. Mér dettur ekki annað í hug en hæstv. félmrh. hafi sjálfur haft hug á að standa við yfirlýsingar sínar. Hann hefur áreiðanlega í þessu efni verið ofurliði borinn af fjármálavaldinu.

Að sjálfsögðu ber hæstv. ríkisstj. öll ábyrgðina. En Alþ. á kröfu á að fá skýringar og upplýsingar um af hvaða toga þessi fádæmi eru spunnin. Í allri óráðsíunni var ekki hægt að sjá af eins og 120–130 millj. kr. til þess að leysa stórkostlegan vanda nær 400 húsbyggjenda í landinu. Ég spyr: Eru ekki einhver ráð, sem grípa má til þegar í stað, svo að rétta megi hlut þessa fólks? Ég skora á hæstv. ríkisstj. að finna þessi ráð, annað er óhæfa.