04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

47. mál, undirbúningur að næstu stórvirkjun

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég gæti raunar haft ákaflega svipaðan inngang að máli mínu og hv. síðasti ræðumaður lauk sínu máli á. Till. á þskj. 69 og þessi till. fjalla háðar um svipað efni. Till. á þskj. 49 er lögð fram fyrst og fremst til þess, að Alþ. fái tækifæri til þess að láta í ljós skoðun sína og marka þá stefnu, sem fylgt verði við næstu stórvirkjun.

Við flm, teljum í fyrsta lagi, að það sé vægast sagt ákaflega vafasamt að hrúga öllum stórvirkjunum landsmanna á eitt svæði, sem þar að auki er eldfjallasvæði. Þar gætu slíkar virkjanir þurrkast út nálægt því á einni nóttu. Við teljum jafnframt, að ekki hafi til þessa, sérstaklega síðustu árin, verið unnið jafn markvisst og skyldi að því að undirbúa virkjunarstaði í öðrum hlutum landsins.

Virkjun stórvatna okkar hefur lengi verið draumur Íslendinga, og má segja, að slíkar virkjanir hafi hafist að nokkru leyti með virkjun Sogsins fyrir stríðið. Ekki fer þó að bera á því, að okkur muni takast að virkja hin stærri fallvötn, fyrr en eftir styrjöldina, þegar menn eru farnir að líta hýru auga til vatnsfalla eins og Þjórsár og Dettifoss, og raunar er það ekki fyrr en undir 1960, að farið er að rannsaka þessi meiri háttar fallvötn markvisst með það í huga, að þar geti orðið virkjun fljótlega. Þannig hófust rannsóknir á Þjórsá og Dettifossi um svipað leyti, nokkru fyrir 1960. Niðurstaðan varð sú, að báðir virkjunarstaðirnir væru hagkvæmir, en Búrfell ekki síður a. m. k., og mun það hafa ráðið nokkru um það, að Búrfell var valið, en þó öllu fremur hitt, að Búrfellsvirkjun liggur nær stórum markaði. Þessi niðurstaða var fullkomlega eðlileg. Það var að sjálfsögðu eðlilegra að virkja svo stórt, þar sem þörfin var mest. Virkjun Búrfells hófst því á seinni hluta áratugsins 1960–1970, og var framleiðsla þar hafin í lok ársins 1969.

Við þessa ákvörðun verður hins vegar all örlagarík stefnubreyting í rannsóknum okkar á þessum sviðum. Hætt er við athuganir á Dettifossi, Landsvirkjun er sett á fót, og Landsvirkjun er veitt sú ábyrgð m. a. að undirbúa virkjunarstaði á sínu svæði. Landsvirkjun hefur gert það af miklum dugnaði. Þar eru fleiri staðir nú þegar tilbúnir til virkjunar. Unnið hefur verið markvisst að því, að svo sé, og því ber að fagna. Þar hefur Sigalda verið tilbúin til virkjunar alllengi, Hrauneyjarfoss er tilbúinn til virkjunar, Sultartanga mætti einnig virkja með tiltölulega litlum fyrirvara, og rannsóknum á efri hluta Þjórsár, er alllangt komið. Þar mun því alls ekki standa á virkjunarstöðum, a. m. k. næsta áratuginn og þótt lengra væri litið.

Samfara stofnun Landsvirkjunar var gerð breyting á Raforkumálaskrifstofunni. Orkustofnun var sett á fót og Rafmagnsveitur ríkisins skildar frá. Orkustofnun varð þannig hrein rannsóknarstofnun og hefur fyrst og fremst það verkefni að undirbúa virkjanir um landið vítt og breitt, afla nauðsynlegra upplýsinga og vera ríkisvaldinu til ráðuneytis í virkjunarmálum. Sérfræðingar Orkustofnunar hafa síðan unnið hið ágætasta starf, en því miður, verð ég að segja, hafa þær rannsóknir ekki verið svo markvissar sem rannsóknir Landsvirkjunar. Þetta kemur m. a. fram í áætlunum um forrannsóknir, sem Orkustofnun gaf út 1969 og fjalla um forrannsóknir á vatnsorku Íslands frá 1970–1974. Þar eru veittar mjög athyglisverðar upplýsingar um flesta virkjunarstaði, og þar eru lagðar fram áætlanir um hugsanlegt virkjunarfyrirkomulag á hinum ýmsu stöðum. En þetta eru, eins og nafn skýrslunnar ber með sér, forrannsóknir, en ekki ranasóknir, sem unnt er að byggja á hönnun virkjunarstaðar. Afleiðingin hefur orðið sú, að utan Þjórsársvæðisins, m.a, á Norðurlandi, þar sem virkjunarstaðir eru flestir, er enginn staður það vel rannsakaður, að unnt sé að ákveða þar virkjun á næstu árum.

Aftur á móti blasir nú við virkjun Sigöldu. Sú virkjun er þegar hafin, og er gert ráð fyrir því, að Sigalda hefji framleiðslu um 1976, líklega á miðju ári. Ljóst er jafnframt, að orka frá Sigöldu mun ekki endast þjóðinni lengur en 4–5 ár, þ. e. a. s. fram til 1980 eða í mesta lagi 1981. Því er augljóst, að næsta virkjun þarf að hefjast í kringum 1978 og undirbúningur fyrir útboð slíkrar virkjunar í kringum 1976. Mönnum má því vera ljóst, að ekki er mikill tími til stefnu. Hin staðreyndin er hins vegar, að aðrar stórvirkjanir eru ekki reiðubúnar, nema ef vera skyldi Krafla. Nýlega hafa alþm. fengið í hendur frumáætlun um þá virkjun.

Þegar virkjun Búrfells var ákveðin og sú stóriðja reist álbræðslan, sem tengd er Búrfellsvirkjun, kepptust menn við að lofa því, að næsta stórvirkjun yrði á Norðurlandi. Við þetta loforð hefur ekki verið staðið, fyrst og fremst vegna þess, að mönnum hefur láðst að beina rannsóknum á orku landsins inn á þá markvissu braut, sem nauðsynleg var, til þess að þetta mætti verða, eins og ég hef þegar rakið.

Nú sýnist mér nauðsynlegt að halda á annan veg á málum í framhaldi af virkjun Sigöldu.

Með þessari þáltill. er lögð áherzla á, að valinn verði einn virkjunarstaður utan Þjórsársvæðisins, t. d. á Norðurlandi, og áhersla lögð á að fullrannsaka virkjunaraðstöðu þar, þannig að hanna megi og bjóða út virkjun eins fljótt og frekast er unnt. Eins og komið hefur fram í orðum mínum, er ólíklegt, að þetta sé unnt fyrir 1976 eða 1977, eins og nauðsynlegt væri, ef virkja á annars staðar en Hrauneyjarfoss, nema e. t. v. í sambandi við Kröflu.

Við Kröflu er talað um virkjun af ýmsum stærðum, allt frá 8 MW og upp í 55. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að 55 MW virkjun við Kröflu sé að ýmsu leyti vafasöm. Það mun ekki vera til í heiminum nema e. t. v. einn svo stór rafall, sem knúinn er af jarðgufu, en við þær aðstæður er ýmislegs að gæta. Jarðgufan er breytileg, tæringareiginleikar hennar mismunandi, og margt fleira mætti til telja. Ég tel því, að ráðlegra muni reynast að virkja Kröflu í smærri stigum, t. d. með tveimur rafölum af hálfri hámarksstærð. En þetta er að sjálfsögðu atriði, sem sérfræðingar hljóta að skoða betur. En því nefni ég þetta, að mér sýnist, að Krafla geti varla orðið undirstaða undir stóriðju, sem stundum er nefnd í þessu sambandi, nema annað komi til.

Raunar er slíkt í undirbúningi. Rætt er um línu norður, og eftir því sem fram hefur komið í blöðum mun vera ákveðið, að lína verði lögð um byggð norður og þessi tvö orkusvæði, Suðurlandið og Norðurlandið, þannig tengd. Þetta er ákaflega mikilvægt skref og grundvöllur að frekari framkvæmdum á Norðurlandi. Þessi lína gæti verið komin í gagnið 1975, og því ber að fagna. Burðargeta slíkrar línu verður hins vegar aldrei mjög mikil, nema farið verði út í langtum stærri línu en nú mun vera ráðgerð. Rætt er um 50 megawatta línu. Til þess að stóriðju verði komið upp fyrir norðan, er því nauðsynlegt að gera enn frekara átak, annað hvort að virkja t. d. Dettifoss eða Blöndu eða annan stað norðanlands sem álitlegur reynist, eða virkja Hrauneyjarfoss og leggja aðra línu til Norðurlandsins, sem lægi þá líklega yfir hálendið og hefði meiri burðargetu en byggðalínan. Þarna eru því ýmsir möguleikar, sem athuga þarf, áður en næstu virkjanir eru ákveðnar.

Niðurstaða mín af þessum bollaleggingum verður því sú að eðlilegast sé að leggja áherslu á virkjun Kröflu, fyrst og fremst vegna þess, að önnur virkjun utan Þjórsársvæðisins er ekki tilbúin. Það er áreiðanlega á mörkum, að Kröfluvirkjun verði tilbúin 1978, eins og talað er um. Jafnframt ber að stefna að fullnaðarrannsókn eins vatnsafls á Norðurlandi, t. d. Dettifoss, Blöndu eða Jökulsár í Skagafirði. Ég held satt að segja, að það skipti litlu máli, hver þessara staða er valinn. Þetta eru allt saman álitlegir staðir og verða eflaust allir einhvern tíma virkjaðir, þannig að það skiptir tiltölulega litlu máli, í hvaða röð þeir eru valdir. Markmiðið með þessari till., sem hér er lögð fram, er, eins og ég sagði í upphafi míns máls, fyrst og fremst að leggja áherslu á, að nú verði staðið við það loforð, sem oft hefur verið gefið, að næsta virkjun verði utan Þjórsársvæðisins, líklega einna helzt á Norðurlandi. Þetta er gert m. a. með það í huga, að óráðlegt sé að staðsetja allar okkar stórvirkjanir á Þjórsársvæðinu. Þetta er einnig gert með það í huga, að slík virkjun gæti orðið til þess, að stóriðju, sem sannarlega mundi styrkja verulega atvinnulíf á Norðurlandi, megi staðsetja þar, ef heimamenn óska þess. Einnig er ætlunin með þessari till, að leggja áherslu á, að til þess að svo megi verða, þurfi að verða breyting á í rannsóknaráætlunum Orkustofnunar. Nauðsynlegt er að velja einn ákveðinn virkjunarstað og vinna markvisst að því, að sú virkjun verði tilbúin til framkvæmda eins fljótt og frekast er unnt.