24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Það er greinilegt að hæstv. sjútvrh. er í mjög illu skapi og á erfitt með að ræða þessi mál, enda von þegar allt snýst svo á móti honum að jafnvel steinbíturinn á Vestfjörðum gerir uppreisn gegn honum og kemur til með að ganga í veiðarfærin á öfugum tíma við það sem hann hefur ætlast til. Ég hafði einmitt sagt, að ég efaðist ekkert um að það væri rétt, sem hæstv. ráðh. hefði sagt, að í þá reglugerð sem hann vitnaði til og ég hefði átt að gefa út hefði verið þetta ákvæði sem hana nefndi um steinbítsverð. Ég efast ekkert um það. Þetta sagði ég, svo að ég var ekki að rengja það sem hann sagði, síður en svo. Ég tók þetta fram. Það heyrði hæstv. ráðh. auðvitað ekki í öllum sínum ofsa. En ég sagði sem rétt er, að um það mál hefði aldrei verið rætt við mig sérstaklega, um ákvæði varðandi steinbítsveiðar á Vestfjörðum. Sú nefnd, sem hann vitnaði til, var sett til þess að setja reglur um möskvastærð og um stærð á fiski sem veiddur er. Ég kannast við að um það mál hafi verið rætt við mig. Ég hef hins vegar í fullum trúnaði við þá n., sem skipuð var mönnum úr mörgum hagsmunahópum, staðfest till. hennar og í þessum till. er þetta að finna. Ég vildi láta koma fram að það er ástæðulaust að ætla að kenna mér sérstaklega um þetta, því að það hefur aldrei verið rætt við mig sérstaklega. Enda kom það greinilega í ljós, eins og ég benti á, að hæstv. ráðh. hafði fjallað um þetta atriði og gert á því breytingar. Það er aðalatriðið, sem ég benti hér á, að ákvörðun fiskverðs að þessu sinni fer fram með mjög óvenjulegum hætti og kemur eftir á og er vitanlega ekki saman að líkja við það sem áður hefur átt sér stað. Af þeim ástæðum kemur þetta illa við menn. Og fyrst hæstv. ráðh. er á sama máli og sjómennirnir fyrir vestan, að það ætti að hafa hér annan hátt á, þá á hann að beita sér fyrir leiðréttingu í þessum efnum. Ég trúi því ekki að hann geti ekki fengið þá leiðréttingu fram hjá Verðlagsráði. Mér finnst það vera harla langsótt, þegar hann fer svo að hæla sér fyrir það að hann hafi hækkað línufisksbætur úr 40 aurum upp í 60 aura, um 20 aura á kg. Ætli hann viti hvað kg. er verðlagt núna og hvað 20 aurar eru lítill hluti. Það er æðilangsótt að fara að hæla sér af því að hafa hækkað línufisksverð um 20 aura.