11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, minntist á það að Krafla hefði ekki verið nefnd í þessum umr. Því fer fjarri að Krafla hafi gleymst, því að mikil áhersla hefur af hálfu núv. ríkisstj. verið lögð á að hraða sem mest þeim undirbúningi og framkvæmdum, með þeim árangri líka að í stað þess að gert var ráð fyrir því á s. d. hausti að það tæki 4–5 ár að fá framleiðslu í Kröflu eru nú horfur á því að framleiðsla geli hafist fyrir lok árs 1976. Ber vissulega að fagna því og ástæða til að þakka stjórn Kröflu, þar sem hv. 1. þm. Norðurl. e. er varaformaður, fyrir vel unnin störf að því máli.

En ástæðan til þess að ég nefndi ekki Kröflu í svari mínu var einfaldlega sú að fsp. eru um vatnsvirkjunarrannsóknir og vatnsvirkjunarmöguleika á Norðurlandi.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um það, hvernig stæði á því að það gengi svona miklu betur hjá Landsvirkjun um rannsóknir og hönnun mannvirkja. Hv. 4. þm. Austf. kom einnig inn á það mál, að svo virtist sem Landsvirkjun hefði næstum ótakmarkað fjármagn. Nú er það vafalaust atriði, sem hefur haft hér veruleg áhrif á, að Landsvirkjun mun hafa haft rýmri hendur um fjármagn til rannsókna og undirbúnings. En það kemur einnig annað til, það er skipulag þessara mála. Þar kem ég að atriði sem nú er í athugun hjá iðnrn. og ég held að allir hljóti að vera sammála um að þarf að gera gagngerðar breytingar á. Það er varðandi skipulag á yfirstjórn raforkumálanna. Orkustofnun, sem hefur umnið margt mikið og merkilegt starf og hefur á að skipa hinum færustu sérfræðingum, hefur fyrst og fremst það verkefni að rannsaka orkumöguleika á Íslandi. Spurningin er t. d. á Norðurlandi: Hvaða aðili er það sem ber ábyrgðina um að hafa frumkvæði og skyldu til þess að sjá norðlendingum fyrir raforku? Á Laxárvirkjunarsvæðinu má segja að það sé Laxárvirkjun. En eins og kunnugt er hafa framkvæmdir hennar og hugmyndir í þeim efnum verið stöðvaðar bæði við Laxá og einnig þegar Laxárvirkjun vildi fyrir um það bil tveimur árum stækka og auka stöðina í Bjarnarflagi, þá fékk hún ekki leyfi til þess hjá þáv. ríkisstj. eða iðnrh. Það er rétt að geta þess einnig, að þriðji aðilinn hefur komið hér nokkuð við sögu þar sem eru Rafmagnsveitur ríkisins. Þær hafa t. d. haft með höndum vissan hluta af rannsóknum, alveg sérstaklega vil ég nefna Jökulsá í Skagafirði.

Þegar við lítum á skipulag rafmagnsmálanna eða orkumálanna kemur auðvitað einnig upp í hugann sú skýring og það svar við fsp. hv. þm. að hjá Landsvirkjun fer þetta allt saman. Landsvirkjun hefur með höndum rannsóknir, undirbúning, áætlanagerð og á henni hvílir sú skylda að sjá íbúum og atvinnulífi á þessu landssvæði fyrir nægri orku. Þessi atriði bæði koma hér auðvitað til greina sem skýringar: Annars vegar er fjármagnið og hins vegar það skipulag sem gilt hefur í þessum efnum og verður auðvitað að ráða bót á.

Nú er þegar farið að líða töluvert á árið 1975 og menn hafa séð harla lítið af framkvæmdum og eru orðnir býsna þreyttir í þessu sérstaka máli. Ég geri mér ljóst að hér er um að ræða í rauninni málefni tveggja ríkisstj., og ég harma það sérstaklega að hér skuli ekki vera staddur fyrrv. orkumrh., Magnús Kjartansson, sem vafalaust hefði óskað eftir að taka þátt í þessum umr. og ég hefði gjarnan óskað að hefði svarað ýmsu af því sem hér hefur komið fram í þeim málum sem hann bar ábyrgð á í ráðherratíð sinni.

Af því að þessi mál tengjast því sem var á dagskrá áðan, þá vona ég að mér leyfist að ræða það. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að rannsóknir allar í sambandi við orkumál yfirleitt eru m. a. háðar því að einhver aðili sé til til að fjalla um slíkar rannsóknir, bera á þeim ábyrgð og stjórna þeim. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því og nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh.: Í upphafi þessa árs gerði bæjarstjórn Akureyrar samþykkt, og það voru reyndar shlj, samþykktir frá fleiri aðilum, þar sem var sérstaklega lagt til að þessi sveitarfélög og iðnrn. kæmu sér saman um að koma á stofn Norðurlandsvirkjun, það yrði aðili sambærilegur Landsvirkjun, þannig að það ætti ekki að þurfa að vísa til þess að enginn aðili væri fyrir hendi til að fjalla a. m. k. um rannsóknir, hvort sem um er að ræða orkuver eða lagningu byggðalinu. Ég vil ítreka það að einnig í þessu máli hefur orðið alveg mjög óhæfilegur seinagangur og óhæfilegur dráttur og ég vonast til þess að hraðari gangur komist á þessi mál sem önnur í þessu sérstaka, mikilvæga máli.