29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Karvels Pálmasonar. Ég tel sjónvarpið einmitt réttan aðila til að koma þarna til móts við landsbyggðarfólk.

En ég vil minna á annað í þessu sambandi sem ég tel ekki þýðingarminna í raun. Ég hafði þegar í fyrra skrifað Jóni Þórarinssyni dagskrárstjóra listadeildar sjónvarpsins þar sem ég fór fram á það við hann að sjónvarpið annaðist kynningu á merkum listviðburðum úti á landsbyggðinni og hafði þá einkanlega leiklistina í huga. Dagskrárstjóri tók þessu mjög vel, en það hefur lítt orðið úr efndum og er ýmsu þar um að kenna að ég hygg, ekki aðeins vanefndum sjóvarpsins heldur einnig hlédrægni heimaaðila sem hafa ekki verið nógu duglegir að ota sínum tota og koma sínum sýningum á framfæri eða hluta úr þeim. En ég tel að þarna sé mjög mikilvægt verkefni fyrir sjónvarpið, að kynna einmitt það besta sem er að gerast í t. d. leiklist úti um landsbyggðina. Ég þekki það vel hug hæstv. ráðh. til þessarar starfsemi viða um land að ég treysti honum manna best til þess að ýta þar rösklega á eftir svo að þetta verði sem fyrst að raunveruleika.