11.02.1976
Neðri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Með frv. þessu er lagt til, eins og hér hefur fram komið, að tekið verði upp sérstakt nýtt gjald, innflutningsgjald á gas- og brennsluolíum, og verði það miðað við fast gjald af þungaeiningum. Ég er andvígur þessu frv. Ég tel að þetta sé ekki rétt aðferð. Það er skoðun mín að það eigi beinlínis að nota heimild í gildandi lögum um að fella niður söluskatt á olíu til fiskiskipa. Það var ætlunin að gera það þegar ákvörðun var tekin um að fella niður söluskattinn af olíu til húskyndingar, þó að sá háttur væri á hafður um stuttan tíma að notuð var til greiðslu á söluskatti af þessari olíu sérstök innistæða sem hafði myndast í Verðjöfnunarsjóði í sambandi við verðlagningu á olíu. Þótti eftir atvikum ekki óeðlilegt að þeirri innistæðu, sem þar hafði myndast, væri varið í þessu skyni um tíma til þess að greiða raunverulega sem samsvaraði söluskattinum. En auðvitað leið sá tími tiltölulega fljótt, og fyrst ekki var staðið við það. sem ætlað var, að fella niður söluskattinn af olíu til fiskiskipa, þá var orðið um það að ræða að þetta var orðið almennt verðlagsmál og olíufélögin komust upp með að verðleggja alla olíu í landinu á þann hátt að þau fengju fé til þess að geta greitt ríkissjóði söluskattinn. M. ö. o.: almenn verðlagning á olíu átti sér þá orðið stað með þeim hætti að olíufélögin voru búin að gera ráð fyrir viðbótarfjárhæð sér til handa sem næmi nokkurn veginn söluskattsgreiðslunni á þeirri ollu sem þarna var um að ræða eða til fiskiskipanna.

Það er skoðun mín að það eigi að standa þannig að þessum málum að nota heimild í gildandi lögum sem fjmrh. hefur til þess að fella niður söluskattinn á olíu til fiskiskipa eins og söluskatturinn er þegar niður felldur af olíu til húskyndingar og þessa leið eigi að fara. Að sjálfsögðu þýðir þetta eitthvað tekjutap fyrir ríkissjóð, það er rétt, en það er ekki rétt að víkja sér undan því að jafna þennan hluta á þennan hátt. Ég álít líka að það þurfi að taka upp alveg að nýju þær verðreglur sem í gildi hafa verið hjá olíufélögunum um verðlagningu á olíu, en mér sýnist að miklar líkur séu til þess að olíufélögin fái að halda svipaðri verðlagningu og verið hefur þrátt fyrir það skattgjald sem hér kæmi.

Hitt get ég tekið undir með hæstv. ráðh., að það er e. t. v. eðlilegt að þetta frv. fylgi í afgreiðslu öðrum frv. sem eru eðli málsins nokkuð skyld. Ég tel ekkert athugavert við það. En þetta er mín afstaða til málsins, að ég tel að þetta frv. sé óþarft, það eigi ekki að bæta við þessu gjaldi heldur eigi að fara hina leiðina, að afnema söluskattinn á þessari olíu eins og alltaf var ætlunin að gera.