16.02.1976
Neðri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál, sem hér er nú á dagskrá, er hér um býsna stórt og þýðingarmikið mál að ræða, þar sem er gert ráð fyrir því að gera nýjan viðbótarsamning við ÍSAL varðandi stækkun á álverksmiðjunni í Straumsvík og þá um leið nýjan samning varðandi raforkuverð og skattgjald verksmiðjunnar og fleiri atriði sem hér koma inn í.

Frá því hefur verið skýrt í þessum umr., að upphaf málsins sé það, að haustið 1973 hafi þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, hafið viðræður við Alusuisse um að fá fram endurskoðun á gildandi samningum um raforkuverð til álversins og um önnur atriði sem íslendingar höfðu þá sérstakan áhuga á, en þó fyrst og fremst um raforkuverðið. Ástæðurnar til þessa voru þær, sem öllum er vel kunnugt um, að mikil óánægja var hér ríkjandi um það raforkuverð sem samið hafði verið um til álversins og menn töldu, alveg sérstaklega eins og orkumálum var þá komið, að þá væri varla viðunandi að búa við þann samning óbreyttan sem gerður var á sínum tíma. Þessar viðræður Magnúsar Kjartanssonar báru ekki árangur, en þeim var síðan haldið áfram af núv. hæstv. iðnrh., Gunnari Thoroddsen, í septembermánuði 1974 og síðan áfram af svonefndri viðræðunefnd um orkufrekan iðnað.

Það hefur komið fram í máli hæstv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens og kemur enda fram í grg. með málinu, að megintilefnið af þeirra hálfu til þessara viðræðna hafi verið að reyna að koma fram breyt. á gildandi raforkusamningi og einnig að fá fram breyt. á skattgjaldssamningi fyrirtækisins og þá einnig til að leysa deilur sem upp voru komnar varðandi skattgjaldið og fleiri atriði. Einnig var svo ætlunin að ræða um hugsanlega stækkun á verksmiðjunni, en áhugi um það efni hafði komið fram frá eigendum verksmiðjunnar.

Það fer því ekkert á milli mála, að aðaltilgangurinn af hálfu íslendinga var að reyna að fá fram umbætur á gildandi raforkuverðssamningi og skattgjaldssamningi. Og auðvitað voru menn að knýja á í þessum efnum vegna þess að hér var ríkjandi mikil óánægja um þessa samninga. Því er það í sjálfu sér í rauninni broslegt og alveg út í hött hjá hv. 6, þm. Reykv., sem talaði næstur á undan mér, að lesa upp allt það sem skrifað var og sagt um þessa samninga á þeim tíma sem þeir voru upphaflega gerðir, því að ég hygg að allir séu nú orðnir sammála um að það, sem þá var sagt, hafi ekki staðist í reynd og nú verði að byggja allar umr. um þetta mál á allt öðrum tölum og allt öðrum forsendum en þá var byggt á.

Á þeim tíma stóðu allmiklar deilur um það, hvort raforkuverðið, sem þá var samið um, næði því marki að vera framleiðslukostnaðarverð úr hinni nýju orkustöð sem var verið að byggja. Þeir, sem að samningnum stóðu, héldu því fram að miðað við áætlanir mætti telja að raforkuverðið, sem um var samið, jafngilti framleiðslukostnaðarverði, en aðrir héldu hins vegar fram að verðið næði ekki því að standa undir beinum framleiðslukostnaði. Það er er auðvitað enginn vafi á því og um það þarf ekki að deila, að þegar var verið að reikna út þetta framleiðslukostnaðarverð á sínum tíma voru ekki teknar með í stofnkostnað hinnar nýju virkjunar geysiháar fjárhæðir sem síðar reyndust vera óhjákvæmilegar í sambandi við miðlunarmannvirki. Hefðu þær tölur verið teknar inn, þá hefðu meira að segja tölur forsvarsmanna samningsins við ÍSAL á sínum tíma einnig sýnt að hér var samið um raforkuverð sem var alllangt undir framleiðslukostnaðarverði — ef tillit hefði verið tekið til þeirra miðlunarmannvirkja sem allir vissu að þurfti að gera og síðar hafa verið gerð.

En þetta, sem sagt gamla deilan um hvað hafi verið framleiðslukostnaðarverð um það leyti sem samið var við Alusuisse um þetta raforkuverð til þessa langa tíma, það er í rauninni ekki aðalatriði málsins, heldur það, að reynslan hefur sýnt okkur að önnur samningsákvæði einnig varðandi raforkuverðið og fyrst og fremst varðandi raforkuverðið, því að það er það sem skiptir mestu máli, voru með þeim hætti að samningarnir verða, eins og nú er komið málum, að teljast okkur mjög óhagkvæmir. Það var ekki í samningunum, gert ráð fyrir endurskoðun á orkuverðinu sem neinu nam og vegna þess var um fast verð að ræða til mjög langs tíma, og verðið er tvímælalaust komið í það að vera langt frá því sem nú telst vera framleiðslukostnaðarverð og við verðum nú að leggja til grundvallar í sambandi við orkusölu okkar. Ætlunin með þessari endurskoðun var sem sagt að reyna að fá hér á nokkrar umbætur, fá leiðréttingar á þessu orkuverði og einnig á skattgjaldinu.

En í ljós hefur einnig komið að ákvæði samningsins varðandi skattgjaldsgreiðslur fyrirtækisins reyndust í framkvæmd allmikið á annan veg en menn höfðu gert ráð fyrir, og ég held að enginn geti um það deilt nú, að ákvæðin varðandi skattgjald fyrirtækisins voru lítt viðunandi fyrir okkur íslendinga, enda hefur reynslan sannað það mjög áþreifanlega. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., hefur svo farið á þeim 6 árum, sem fyrirtækið hefur starfað, að segja má að það hafi nánast búið við algjört skattfrelsi. Hér hefur verið upplýst að frá því að verksmiðjan tók til starfa og fram til 1. nóv. s. l., 1975, hafi heildarskattgreiðslur fyrirtækisins numið 617 millj. kr. samkv. framleiðslugjaldsreglunum — 617 millj. kr. En hins vegar kemur í ljós að fyrirtækið á inni á svonefndum skattgjaldsinneignarreikningi, — ekki þessar 617 millj. sem það hefur borgað, heldur enn hærri upphæð eða 748 millj. Þetta stafar sumpart af því, að sú inneign, sem hefur myndast samkv. ákvæðum samningsins, hefur verið að hækka í krónum talið vegna gengisbreytinga. En alveg er ljóst mál að fyrirtækið hefur nánast búið við það samkv. þessum reglum, vegna þess að það hefur fært upp reikninga sína með allverulegu tapi, sérstaklega sum árin, að það hefur raunverulega sloppið við allar skattgjaldsgreiðslur. Um þetta verður ekki deilt. Það var einmitt af þessum ástæðum sem upp var kominn allmikill ágreiningurr á milli íslenskra stjórnvalda og ráðamanna álversins og íslensk stjórnvöld gerðu kröfu um að sérstök athugun yrði látin fara fram á þessum málum, og af því beindist líka áhugi manna við endurskoðun samninganna að því að fá þessum ákvæðum breytt varðandi skattgjaldsgreiðslur. Þetta er sem sagt vert fyrir menn að hugleiða, að skattgjaldið skuli hafa verið með þessum hætti, að heildarskattur fyrirtækisins er mun minni í krónum talinn á öllu þessu tímabili en skattinneignin er að loknum þessum 6 árum.

Þetta er auðvitað ekkert svipað því sem önnur fyrirtæki hér á landi búa við eða hafa mátt búa við, þar sem þau verða jafnvel alveg án tillits til efnahagslegrar afkomu að borga sín gjöld í ýmsu formi, eins og menn þekkja.

Það samkomulag, sem nú hefur verið gert og hér er óskað eftir staðfestingu á, er ekki síst varðandi meginviðskiptin við þetta fyrirtæki sem snerta raforkusöluna. Að því er látið liggja, að endurskoðun hafi þó borið þann árangur að fengist hafi fram nokkru hagstæðara verð við raforkusölu til þessa fyrirtækis en áður var. Það get ég ekki séð að sé og tel rétt að hyggja nokkru nánar að því. Þá verður fyrst að hafa það í huga, að eins og það samkomulag liggur fyrir sem hér er nú til umr., þá er búið að gera ráð fyrir stækkun á álverinu, þannig að það geti framleitt um 10 700 tonnum meira á ári af áli, og þurfi þá að fá viðbótarorku sem nemur 20 mw. á móti í kringum 140 mw. sem fyrirtækið hefur

samningstímabilið út. Þá þarf auðvitað fyrst að hugleiða það, hvað sú raforka er raunverulega seld á sem nú er verið að semja um alveg að nýju og við höfum auðvitað alla aðstöðu til þess að krefja það verð fyrir sem verður að teljast sanngjarnt verð, fullt verð, framleiðslukostnaður nú í dag.

Í grg. með þessu frv. er sagt, að telja megi að það verð, sem hér sé samið um til viðbótarverksmiðjunnar, til stækkunarinnar, sé nokkuð sambærilegt við það sem samið hafi verið áður um orku til járnblendiverksmiðjunnar sem ætlað var að reisa. En gert var ráð fyrir því, eins og hér hefur komið fram, að sú verksmiðja greiddi um 10 mill fyrir kwst. af forgangsorku og um 0.5 mill fyrir svonefnda afgangsorku. Og að lokum mun það hafa verið svo, að gert var ráð fyrir að meðaltalsverð á forgangsorku og afgangsorku til járnblendiverksmiðjunnar yrði 5,7 mill.

Mér sýnist augljóst að það verð, sem hér er um að ræða til stækkunarinnar við álverið, nái því ekki að vera eins hátt verð og samið var um til Járnblendiverksmiðjunnar. Ef það er einnig haft í huga, að ákvæði varðandi afhendingu á raforku til stækkunarinnar við álverið eru með þeim hætti sem hér hefur verið dregið fram í þessum umr., þá er augljóst mál að þau ákvæði eru svo ströng í þessum nýja samningi, að það jafngildir því að nánast sé eingöngu um forgangsorku að ræða. Og þá væri samkv. þeirri grg., sem hér er miðað við, verið að ræða um að selja þessi 20 mw. fyrir meðaltalsverð sem væri í kringum 5–5.7 mill. En um það verður ekki deilt, að það er langt undir því framleiðslukostnaðarverði sem nú er miðað við í sambandi við framleiðslu á raforku.

Í grg. þessa frv. segir m. a. um þetta orkuverð á þessa leið, með leyfi forseta, orðrétt: „Landsvirkjun hefur reiknað út meðalverð viðbótarsölunnar árin 1978 og 1979 miðað við álverðið 45 cent á pund og er það 4.43 mill kwst.“ Nú er það fyrst við þetta að athuga, að álverðið er í dag ekki nein 45 cent á pund, heldur er það gefið upp 39 cent á pund. Það nær því alls ekki að vera 4.43 mill á kwst. En í þessari grein, sem ég vitnaði til, stendur enn fremur: „Ef gengið er út frá, að afgangsorkuverð til ÍSALs skv. þessari viðbót yrði hið sama og ákveðið er til járnblendiverksmiðjunnar sömu ár, verður forgangsorkuverð á viðbótarorkusölunni 10,3 mill/ kwst., sem er hliðstætt eða jafnvel betra en til járnblendiverksmiðjunnar.“

Miðað við þetta, þegar menn eru búnir að gefa sér allt aðrar forsendur en þær sem við búum við, þá gæti það kannske náð því sem samið var um við járnblendiverksmiðjuna. En þó er þess að gæta, að í sambandi við afhendingu á þessari afgangsorku er um miklu strangari ákvæði að ræða en áttu að gilda til járnblendiverksmiðjunnar og því er hér augljóslega að mínum dómi um lakari samning að ræða en þar var gert ráð fyrir.

Þá er rétt að víkja nokkrum orðum að því, hvert er raunverulegt framleiðslukostnaðarverð sem við verðum nú að ganga út frá í sambandi við okkar orkusölu. Það er að vísu ekki auðvelt að koma þar með alveg óumdeilanlegar tölur, en til viðmiðunar um það, hvað við verðum að telja nú vera framleiðslukostnaðarverð á raforku, vil ég vitna til útreiknings sem gerður var af Landsvirkjun í sambandi við orkusölusamning til járnblendiverksmiðjunnar, en á bls. 50 í frv. um járnblendiverksmiðju, sem var lagt fyrir hv. Alþ., segir um þetta framleiðslukostnaðarverð orðrétt það sem hér skal greina:

„Þá hefur verkfræðideild reiknað út svokallað kostnaðarverð á raforku frá Sigöldu og Hrauneyjafossi. Sé reiknað með 40 ára, annuitet og 9.1% reiknivöxtum og jafnframt gert ráð fyrir því, að rekstrarkostnaðurinn sé 0.5% og vextir á byggingartíma 12% af stofnkostnaði, kemur út verðið 9.4 mill/kwst. á forgangsorkunni. Í samningsdrögunum, eins og þau liggja fyrir, þýðir þetta kostnaðarverð sem jafngildir 4.95 mill/ kwst., ef gert er ráð fyrir að kostnaðarverð afgangsorkunnar sé 0.5 mill/kwst.“

Það er því ekkert um að villast að á þessum tíma, en síðan þessar áætlanir voru gerðar er nú allmikið á annað ár, töldu sérfræðingar Landsvirkjunar að ef lagt væri til grundvallar framleiðslukostnaðarverð frá tveimur nýjustu virkjununum, sem þá lágu áætlanir fyrir um, þ. e. a. s. frá Sigöldu, sem þá var byggð að verulegu leyti, og síðan áætlanir um Hrauneyjafossvirkjun sem væri óhjákvæmileg virkjun til þess að hægt væri að selja þessa viðbótarorku, þá var reiknað út að miðað við 40 ára rekstrartíma og miðað við allmiklu lægri vexti en nú eru fáanlegir á lengri lánum, sem sagt allmiklu hagstæðari skilyrði en nokkur mundi reikna með í dag, var verið að reikna með framleiðslukostnaðarverði sem lægi eitthvað rétt undir 10 mill, enda er þetta í fullu samræmi við það sem nú er almennt sagt, að okkar hagstæðustu virkjanir geti gefið raforku sem miðað við framleiðslukostnaðarverð sé í kringum 1.70—l.80 kr. á kwst. eða í kringum 10–11 mill. Ég hygg að það yrði erfitt að fá nokkurn af sérfræðingum, sem gert hafa áætlanir um kostnað og rekstur orkuvera okkar, til þess að áætla það í dag, að framleiðslukostnaðarverð á raforku frá okkar hagstæðustu virkjunum væri ekki eitthvað talsvert yfir 10 mill, eitthvað talsvert yfir 1.70 kr. á kwst. En hér er sem sagt um það að ræða, að það er verið að gera hér samning sem miðar við að ráðstafa um 20 mw. í stækkun álversins fyrir rétt u. þ. b. helming af þessu framleiðslukostnaðarverði.

Um þessar tölur er í rauninni ekki hægt að deila með nokkru móti því að þær liggja alveg skjalfestar fyrir. Og þegar við stöndum þannig að vígi í sambandi við okkar raforkumál, að við teljum alveg óhjákvæmilegt að ráðast í eina virkjunina af annarri vegna þess að okkur skortir orku, þá er ekki hægt að halda því fram, að við þurfum að ráðstafa hér 20 mw. til þess endilega að geta komið út orkunni, af því að við getum ekkert fengið fyrir hana annars. Hér er um það að ræða, að við erum að ráðstafa til annars aðila orku sem við hefðum sjálf getað notfært okkur alveg óumdeilanlega eða notað á þann hátt að fresta nýrri fjárfestingu af okkar hálfu í sambandi við ný orkuver.

Miðað við það, sem sagt er hér í grg., þykir mér því einsýnt að verið sé að gera viðbótarsamning við Alusuisse um orkusölusamning upp á 20 mw. á ári sem afgreiða á með sérstökum hætti á hálfvirði miðað við það framleiðslukostnaðarverð sem nú liggur fyrir hjá okkur varðandi þá orkuframleiðslu sem rætt er um í dag. En í sambandi við endurskoðunina á raforkusamningnum við ÍSAL gerist það, að um leið og gengið er til þess að samþ. viðbótarorkusölu til stækkunarinnar, þá er þessari orku, sem verið er að semja um, bætt við fyrri orkusölusamning til gömlu verksmiðjunnar og öll orkan síðan seld út á einu verði.

Það lítur því þannig út við fyrstu sýn að hér sé um samning að ræða sem geri ráð fyrir nokkurri hækkun á raforkusölunni til ÍSALS frá eldri samningi. En þegar betur er að gáð er hér ekki um neina hækkun að ræða, heldur er það raunverulega gamla verðið að viðbættu því verði sem samið er um fyrir viðbótarorkuna, öllu slengt saman og þannig er fengið út eitt nýtt meðaltalsverð.

Að vísu er gerð sú breyting, að skv. eldri samningi átti raforkuverð, sem hafði gilt fyrstu 6 árin eða til 1. okt. nú á árinu 1975, það raforkuverð átti að lækka úr 3 mill í 2.5 mill. En það hafði alltaf verið gert ráð fyrir þessu að sjálfsögðu, því að upphaflega var í rauninni samið um raforkuverð til álversins sem nam 2.5 mill fyrir tímann, en þá var líka gert ráð fyrir því að hið svonefnda framleiðslugjald, skattgjald verkmiðjunnar, yrði nokkru hærra fyrstu árin. Svo var þessu breytt þannig, að raforkuverðið var hækkað upp í 3 mill, framleiðslugjaldið á sínum tíma aftur lækkað úr 20 dollurum í 12.5 dollara, en gert ráð fyrir því að þetta færðist 1. okt. s. l. í það form sem upphaflega hafði verið samið um. Það var sem sagt gert ráð fyrir því í gamla samningnum að framleiðslugjaldið hækkaði 1. okt., en raforkuverðið lækkaði.

Það nýja verð, sem hér er samið um á allri orkunni, eins og kemur fram í grg. frv., er að frá 1. okt. 1975 til ársloka á heildarraforkuverðið að vera 3 mill, eins og það hafði verið s. l. 6 ár, en það átti skv. eldri samningi að falla ofan í 2.5. Þarna er því um lítils háttar hækkun að ræða frá því sem samningurinn gerði ráð fyrir. Síðan segir í grg. að á næstu mánuðum skuli raforkuverðið verða 3.5 mill, síðan á næstu 12 mánuðum þar á eftir 4 mill og svo á næstu 6 mánuðum þar á eftir 4–4.5 mill eftir verði á áli. Þá er farið að taka upp þá reglu, að verðið á raforkunni skuli að nokkru leyti miðað við verð á áli, og þá er það sem þessir ágætu reiknimeistarar, eins og fyrri daginn, fara að gefa sér þær forsendur að álverð hækki um 2.5 cent á hverju ári. En það er vitanlega ekkert hægt að segja um það. Það er aðeins áætlun út í bláinn sem ekki er hægt að byggja neitt raunhæft á.

Ég tel því, að það sé nokkuð augljóst öllum þeim, sem leggja það á sig að líta nokkuð í þessa samninga um raforkuverðið til álversins skv. eldri samningi og það raforkuverð, sem nú er lagt til grundvallar í nýja samningnum, að hér er í rauninni verið að semja um óbreytt raforkuverð frá því sem áður var og nýtt verð fyrir viðbótarorkuna og það verð er ekki nema hálft framleiðslukostnaðarverð miðað við framleiðslukostnað í dag. Það er því ekki hægt að segja að þessi endurskoðun, sem efnt var til við ÍSAL, hafi leitt til mikils árangurs í sambandi við raforkuverð. Hér er enn verið að gera ráð fyrir því að selja þessu fyrirtæki raforku langt undir framleiðslukostnaðarverði. Gamla verðið á raunverulega að haldast og nýja verðið er ekki betra en þetta.

Þessi endurskoðun átti að ná til fleira en raforkusölunnar. Hún náði einnig til skattgjaldsins, framleiðslugjaldsins. Mér sýnist, eins og ég hef tekið fram áður í umr. um málið, að þar sé samið á hagkvæmari grundvelli fyrir okkur en áður var, það séu meiri líkur til þess að fyrirtækið borgi þó nokkurt gjald, þó að það sé ekkert sambærilegt við það sem íslensk fyrirtæki verða almennt að borga í skattgjald. Ég tel því þá endurskoðun vera nokkuð til bóta. Hins vegar sýnist mér að þar hafi verið einkennilega að málum staðið, því að það hefur verið samið um það að við skyldum teljast skulda alla þá fjárhæð sem hafi verið reiknuð sem skattinneignargjald fyrirtækisins á þessum 6 árum. Því á nú að breyta í lán með vöxtum og auðvitað afborgunum á ákveðnu tímabili. Það á sem sagt að semja um það, að það hafi verið réttmætt að ganga út frá því að þetta fyrirtæki ætti ekki að borga neitt teljandi skattgjald fyrir rekstur sinn á liðnum árum Nú er það svo, að skv. gildandi lögum átti þetta skattgjald að renna til ýmissa aðila og þeir voru auðvitað búnir að fá sinn hluta úr þessu gjaldi sem greitt var. Einn þessara aðila var Hafnarfjarðarbær. Hann var búinn að byggja allmikið á þessum tekjum sem hann fékk einn allra staða í landinu. Nú kemur hins vegar í ljós að hann hlýtur skv. eðli málsins, þó að hér hafi ekki verið gerð nein grein fyrir því hvernig með þessa upphæð skuli raunverulega fara, þá hlýtur Hafnarfjarðarbær að skulda þarna marga tugi millj. kr., því að hann hefur raunverulega verið að taka við peningum á undanförnum árum, ekki sem hreinum skatti, ekki sem hreinum tekjum handa Hafnarfjarðarbæ, heldur hefur hann verið að taka við þessu þannig að hann ætti siðar meir að endurgreiða það. Ég tel að það hafi verið full ástæða til þess að gera grein fyrir því hér við afgreiðslu málsins hvernig þessari upphæð, um 750 millj. kr., verður deilt á þá aðila sem hafa notið þessa skattgjalds að undanförnu. Hvað skuldar hver aðili af þessari fjárhæð? Hvað skuldar Byggðasjóður mikið? Hvað skuldar Hafnarfjarðarbær mikið og þeir aðrir sem þarna hafa fengið hluta af? Ég hef ekki kynnt mér það. En ég hef þó veitt því athygli, að bæjarstjórnin í Hafnarfirði hefur mótmælt því með harðri samþykkt, að hún skyldi ekki fá neina aðild að þessari endurskoðunarsamningagerð, og telur að það hafi verið staðið þannig að málinu að þetta hafi verið þeim mjög óhagstætt. Ég álít að það eigi að gera hér grein fyrir því við afgreiðslu málsins, hvernig þessu er í raun og veru varið, og það sé ekki boðlegt að láta það renna hér í gegn án þess að verði skýrt til hlítar.

Það er skoðun mín, enda kemur það auðvitað skýrt fram í fyrri umr., þegar samið var upphaflega við Alusuisse um þetta álver, að engum manni hafi komið til hugar að þetta framleiðslugjald ætti ekki að skila nokkurn veginn þeim fjármunum sem hafa verið greidd í skattformi. Því er það, að ég tel að við þessa endurskoðun hefðu fulltrúar Íslands að sjálfsögðu átt að gera kröfu um að láta þessa útreiknuðu inneign Álfélagsins falla beinlínis niður, því að fyrirtækið hefði síður en svo borgað meira en innlend fyrirtæki verða yfirleitt að gera þó að þessi skattgreiðsla upp á rúmar 600 millj. kr. hefði verið raunveruleg skattgreiðsla, en ekki bara greiðsla inn á einhvern innstæðureikning.

Ég álít því, að það hafi verið staðið mjög illa að þessari endurskoðun, ekki einasta varðandi raforkusöluna, þar sem mest hefur gengið úrskeiðis að mínum dómi, heldur sérlega illa varðandi endurskoðunina á framleiðslugjaldinu að þessu leyti til, hvernig átti að fara með þann ágreining sem upp var kominn um framleiðslugjaldið, sem greitt hafði verið, og hina útreiknuðu inneign á skattgjaldsreikningi fyrirtækisins. Þetta er mikill galli, þó að hið nýja form, sem nú er gengið út frá varðandi greiðslu á skattgjaldi, sé allmiklu betra en það eldra, sem hefur reynst eins illa og ég hef verið að lýsa.

Mér sýnist því, að það hafi komið harla lítið út úr þessari endurskoðun okkar manna á eldri samningum. Við höfum enga leiðréttingu fengið á raforkuverðinu — enga, heldur höfum við lofast til þess að selja þeim meiri raforku á undirverði. Við verðum að viðurkenna það með nýjum samningi, að það verði að teljast rétt að þeir hefðu ekki átt að borga hér neitt skattgjald á liðnum 6 árum eða nálega ekkert. Og síðan verðum við við óskum þessa fyrirtækis um að fá það sem það var að keppa eftir, heimild til stækkunar og samning um nýja viðbótarorku og verð á henni.

Það, sem gerði okkar stöðu sterka í þessari endurskoðun, var einmitt það, að hið erlenda álfélag hafði áhuga á því að fá verksmiðjuna stækkaða. Þar vorum við ekki á neinn hátt bundnir af eldri samningi. Við gátum sett okkar skilyrði fyrir nýrri stækkunarheimild. Við gátum sett skilyrði í sambandi við raforkusölu og raforkuverð. Við gátum sett skilyrði um skattgreiðslur. Og við hefðum einnig getað sett fram skilyrði af okkar hálfu um önnur þau atriði sem við höfðum af reynslunni lært að höfðu verið okkur óhagstæð. Þar undir kom t, d. ágreiningur, sem verið hefur meiri og minni, varðandi mengunarvarnir þessa fyrirtækis. Það hafði verið rætt um það svo að segja frá upphafi hvað fyrirtækið ætti að gera til þess að koma í veg fyrir hættulega mengun á umhverfi sínu, og fyrirtækið er búið að fá æ ofan í æ undanþágu eða frest í þessum efnum af því að alltaf er verið að athuga um ný og ný tæki, nýtt og nýtt fyrirkomulag, og sem sagt, að 6 árum liðnum hefur ekkert verið gert áþreifanlegt í málinu. Þar hefur aðeins verið um loforð að ræða. Það gaf auðvitað auga leið, að við áttum nú við þessa endurskoðun að segja við hið erlenda fyrirtæki að það kæmi ekki til mála að samþ. neina stækkun á verksmiðjunni eða neinn nýjan orkusölusamning fyrr en fyrirtækið væri búið að leysa þetta stórvandamál þannig að það gæti þar ekkert vikið sér undan. Þetta er álit sem fram hefur komið hjá þeim mönnum íslenskum sem um þessi mál hafa aðallega fjallað, Náttúruverndarráði og öðrum, en eins og þessi endurskoðun nú liggur fyrir er augljóst að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sloppið enn undan öllum kvöðum í þessum efnum. Þeir halda að vísu áfram að lofa. Þeir lofa á nýjan leik því sem þeir voru búnir að lofa áður. En enn er engin trygging fengin fyrir því að þarna sé neitt gert í þessum efnum.

Að sjálfsögðu hefði einnig átt að taka upp í sambandi við stækkunaróskir eigenda verksmiðjunnar önnur atriði sem mjög voru umdeild á sínum tíma varðandi samninginn við Alusuisse, eins og ákvæðin um gerðardóm þar sem fyrirtækið vildi ekki lúta íslenskum lögum varðandi framkvæmd á samningnum. Það er auðvitað ekkert um að villast, við þurfum ekki um það að deila, að í samningnum eru ákvæði um að ágreiningur um skilning á samningnum á að úrskurðast af sérstökum gerðardómi. Þar átti ekki íslenskt dómstig að koma til með eðlilegum hætti, heldur voru þarna sérákvæði. Um það er ekkert að villast. (Gripið fram í.) Já, en það segir líka í öðrum greinum samningsins, að þessi gerðardómur skuli koma til, og það hefur verið í hann vitnað og við þurfum ekki að vera að deila neitt um það, því að þetta er alveg ljóst, enda mikið umdeilt á sínum tíma hvort þetta ákvæði ætti að vera, þar sem gert er ráð fyrir gerðardómi sem fer alveg út fyrir íslenskan lagaramma til þess að úrskurða um skilning á deilum varðandi samninginn. Ég álít fyrir mitt leyti að það hefði einnig átt að taka upp ákvæði um það, þó að ég játi að það hafi verið minni líkur til þess að hægt hefði verið að fá fram breyt. á ýmsum grundvallaratriðum gamla samningsins. En hin atriðin, sem ég hef minnst á, eru alveg augljós, að þar áttum við að halda fast á okkar máli þegar hinn erlendi álhringur þurfti á nýjum samningi að halda til þess að koma fram þeirri stækkun sem hann vildi. En þetta hefur tekist á þennan hátt.

Ég vil að öðru leyti segja um þau rök, ef rök skyldi kalla, sem oft hefur verið gripið til í sambandi við samninga við stórfyrirtækt, eins og t. d. álverið, að það verði að líta á samninga við slík fyrirtæki um raforkuverð út frá því sjónarmiði að sala til þeirra geri okkur kleift að koma upp orkuverum sem við jafnvel gætum ekki með öðrum hætti fjármagnað, og einnig hefur verið vitnað til þess, að sala á orku til slíkra aðila veitti okkur aðstöðu til þess að framleiða hér raforku og selja hana ódýrara verði til landsmanna sjálfra, — að þessi rök þau geti átt við á nokkurn hátt í því tilfelli sem hér er um að ræða. Hér er um það að ræða að selja af þeirri orku sem við höfum og við höfum meira en næg not fyrir. Hér er því verið hreinlega að selja af orku með þeim hætti að við þurfum sjálf að ráðast þeim mun fyrr í nýja framkvæmd. Það er rétt, að þegar ráðist var í Búrfellsvirkjun á sínum tíma var þessari röksemd beitt mikið og ekki að öllu leyti að ástæðulausu, að við gætum ekki ráðist í svona stóra og dýra virkjun nema með því að hafa stóran og öruggan kaupanda að raforku. Og þá var það svo, að það var a. m. k. túlkað hér fyrir okkur að við gætum ekki fengið þau nauðsynlegu stofnlán til orkuversins, sem við þurftum á að halda, nema við gætum lagt fram einhvern slíkan samning um mikla orkusölu eins og þá var gert. En þegar ráðist var í Sigölduvirkjun kom þetta ekki til greina. Því var lýst þá yfir af hinum erlenda lánveitanda, að hann setti engar kröfur um það í sambandi við lán til Íslands, að við hefðum slíkan orkusölusamning. Það var lagt algjörlega á vald okkar að ákveða hvernig við seldum orkuna, hverjum við seldum hana eða hvernig við notuðum hana. Og varðandi þessi 20 mw., sem hér er um að ræða, gefur auga leið að ekkert af þessum röksemdum á við þau. En hér er bara um það að ræða: Eigum við að ráðstafa af þeirri takmörkuðu orku, sem við nú ráðum yfir, þetta mikilli orku á því verði sem hér er verið að semja um. Ég er sannfærður um að það verður ekki langt að bíða þess að innlend fyrirtæki og það fleiri en eitt fara að gerast hávær í kröfum sínum um að eiga kost á því að kaupa orku á svipaðan hátt og t. d. þarna er samið um við álverið. Þetta er þegar komið fram frá t. d. formanni Félags ísl. iðnrekenda, í samtökum ísl. iðnrekenda. Þetta er komið fram frá forstöðumanni Sambands ísl. samvinnufélaga. Og hví skyldu þessir aðilar ekki gera kröfu um að fá keypta orku upp á 20 mw. á alveg hliðstæðan hátt og þetta fyrirtæki fær? Hér er sem sagt ekki um það að ræða. Það er það miklu lakara en þetta var í fyrra tilfellinu.

Ég veit að við getum enn eflaust þráttað um það, ég og hv. 6. þm. Reykv. og aðrir, hvort samningurinn, sem gerður var við Alusuisse á sínum tíma, þegar ráðist var í Búrfellsvirkjun, hafi raunverulega gert ráð fyrir það háu rafmagnsverði sem nam framleiðslukostnaðarverði. Ég býst við því, að það hafi á þeim tíma ekki munað miklu, en er á þeirri skoðun enn sem ég var á þá, að verðið hafi þó tvímælalaust verið undir framleiðslukostnaðarverði. Hv. 6. þm. Reykv. og ýmsir fleiri, sem að þessu máli stóðu, geta auðvitað enn haldið því fram að verðið þá hafi miðað við útreikninga staðist framleiðslukostnaðarverð. En leggjum til hliðar þá deilu. En hvernig í himninum ætla þeir að halda því fram um þessa samninga, sem er verið að gera ráð fyrir 20 mw. orkusölu til ÍSALs nú, að þar sé samið um framleiðslukostnaðarverð? Hvernig ætla þeir að halda því fram? Ef þeir ætla að halda því fram, þá ætla þeir beinlínis að hrekja það sem ég hef lesið upp, álit verkfræðinga Landsvirkjunar um það og reyndar Orkustofnunar. Það er hægt að taka mörg dæmi frá henni líka, hvað sé að hennar dómi talið vera framleiðslukostnaðarverð frá okkar hagstæðustu virkjunum miðað við núverandi verðlag.

Það er því niðurstaða mín af því, sem ég hef verið að segja, að sá viðbótarsamningur, sem hér er verið að gera, er enn verri í sjálfu sér en gamli samningurinn var. 20 mw. samningurinn nú er enn óhagstæðari miðað við allar kringumstæður. Endurskoðun hefur því ekki borið mikinn árangur. Hins vegar hefur Alusuisse náð sínu marki, fengið fram stækkunina, fengið fram nýjan raforkusölusamning, mjög hagstæðan, en leiðréttingarnar á gamla verðinu höfum við ekki fengið, ekki a. m. k. að neinu teljandi ráði, ef nokkuð er.

Mér sýnist því að þessi endurskoðun hafi tekist heldur illa, og ég álít því að það, sem réttast væri að gera af okkar hálfu væri að segja við þá ágætu menn, sem stóðu eins og fyrri daginn í samningum við hina erlendu aðila sem eiga álverið í Straumsvík, að þeim hafi tekist illa til við þessa endurskoðun og Alþ. vilji því ekki staðfesta þennan samning og það sé best að taka málið upp á nýjan leik.

Það er annars alveg stórmerkilegt að mínum dómi hvernig fer yfirleitt hjá okkar samninganefndarmönnum. Þegar þeir fara að semja við erlenda aðila um stóriðjumannvirkin, þá er eins og að þeir tapi sér með öllu. Þá gilda ekki aldeilis reglurnar sem eru látnar gilda gagnvart heimamönnum, því að satt að segja sýnist mér að þegar þeir eru að ákveða verð hér, þá kunni þeir að verðleggja nokkurn veginn, en eitthvað tekst þeim alltaf illa til þegar þeir fara að semja við hina erlendu aðila. Þá er í rauninni hvorki miðað við það, hvað hlutirnir kosta okkur, né heldur hitt, að það sé lagt til grundvallar hvað sé sanngjarnt og eðlilegt verð á orku eins og nú er komið málum.

Ég held að við eigum að gera okkur grein fyrir því, að gamli orkusölusamningurinn var svo óhagstæður að við þurftum að taka á okkur verðhækkanir á rafmagni, landsmenn almennt, æ ofan í æ frá Landsvirkjun vegna þess að samningurinn við álverið var í rauninni þetta óhagstæður. Menn taka líka eftir því í grg., sem fylgir þessu frv., að nú er beinlínis á það minnst, að með því að selja rafmagn samkv. þessum nýja samningi og gera ráð fyrir þessari tilfærslu á raforkuverði frá eldri samningi, sem er að langsamlega mestu leyti tilfærsla, þá er beinlínis sagt að þá megi kannske sleppa við að samþykkja almenna raforkuverðshækkun á landsmenn. Hvernig skyldi standa á því, að það hefur staðið til einhver almenn raforkuverðshækkun frá Landsvirkjun? Ástæðan er hreinlega sú, að kjörin, sem Landsvirkjun bjó við samkv. eldri samningi, voru orðin svo óhagstæð að hún þurfti ekki einu sinni, heldur margsinnis að velta útgjöldum sínum út í raforkuverðið til almennings.

Ég skal svo ekki lengja þetta frekar að sinni, en niðurstaða mín er þessi, að ég er andvígur og við Alþb.- menn erum andvígir þessum nýja samningi. Við teljum að hér sé um óhagkvæma endurskoðun að ræða og því eigi ekki að staðfesta þann samning sem þarna hafi verið gerður, heldur eigi að fella hann og taka þá upp endurskoðunina á nýjan leik og miða við þær staðreyndir sem liggja orðið fyrir um orkuverð.