25.02.1976
Neðri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þær umr. sem hófust hér í dag, svo til strax í upphafi þingfundar, snerust upp í það að verða almennar umr. um landhelgismálið. Áttu þar hlut að máli ekki hvað síst sumir hæstv. ráðh. að málið tók þá stefnu.

Ég spurðist fyrir um það hér fyrr í dag hvort það væri með samþykki hæstv. ríkisstj.utanrrh. norðmanna hefði nú tekið upp málamiðlunarstarf í deilunni milli íslendinga og breta í sambandi við landhelgismálið. Mér þykir það talsverðu skipta hvort hæstv. ríkisstj. hefur gefið samþykki sitt fyrir því að þessi tiltekni ráðh. tæki upp slík störf eða ekki. Ég vit því ítreka þessa spurningu mína til annaðhvort hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh., sem var hér í dag þegar spurningin var fram borin, og ég vænti þess að við henni fáist svör, því að ég held að það eigi ekki að þurfa að vera neitt launungarmál hvort hæstv. ríkisstj. hefur gefið samþykki sitt til þess eða ekki. Það ætti að geta legið ljóst fyrir.

Eins og ég sagði áðan hafa þessar umr. tekið þá stefnu að verða almennar umr um landhelgismálið. Hæstv. sjútvrh. flutti hér ítarlega og nokkuð langa ræðu um málið í heild, ítrekaði þar sinar fyrri skoðanir um það, að hann teldi að samninga ætti að gera. En þegar hæstv. ráðh. var kominn þar í ræðu sinni að lýsa því að nú stæðu mál þannig að samningar væru svo fjarri sem hægt væri að hugsa sér, þá gekk hæstv. dómsmrh. í salinn og virtist greinilega ánægður yfir þessum orðum hæstv. sjútvrh., að hann teldi að nú væru samningar hvað fjærst því að nást sem verið hefði.

Hæstv. sjútvrh. og fleiri hæstv. ráðh. og þm. sumir hverjir hafa talað svo að það væru svo til eingöngu alþb.-menn eða hv. þm. Alþb. hér á Alþ., sem litu svo á að nú ætti að láta á það reyna hvert gagn okkur íslendingum væri í því að vera innan vébanda hinnar vestrænu samvinnu. Þetta er auðvitað mesti misskilningur. Það vita allir að hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, er harðsnúinn andstæðingur Atlantshafsbandalagsins. Það er öllum ljóst En það eru ekki bara alþb.-menn sem eru þeirrar skoðunar að það þurfi að láta á það reyna hvert gagn er í því fyrir okkur íslendinga að vera innan Atlantshafsbandalagsins og vera aðilar að NATO. Þetta kom m.a. fram hjá hv. þm. Ellert B. Schram. (Gripið fram í.) Ég skal koma að því síðar bíddu bara rólegur. Þetta kom m.a. fram hjá þessum hv. þm. Það er því greinilegt að það eru meira að segja sumir hverjir hv. stjórnarþm. farnir að hugsa á þennan veg. Og það er enginn vafi á því að ef fram heldur í þessu máli sem horfir, þá mun bretum innan ekki langs tíma takast að fá mikinn meiri hl. íslensku þjóðarinnar upp á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu, upp á móti samstarfi vestrænna þjóða, að íslendingar taki þátt í slíku. Þess vegna vil ég láta það koma skýrt fram að ég tala hér sem nokkuð vinveittur vestrænni samvinnu og ég vil ekki á nokkurn hátt láta túlka það svo að það séu einvörðungu alþb: menn sem telja það sjálfsagða kröfu okkar íslendinga að það verði látið á það reyna að það komi í ljós hvaða gagn við höfum af slíkri samvinnu. Það er enginn vafi á því að þeim fer ört fjölgandi, íslendingum sem hafa verið vinveittir því, jákvæðir í því að íslendingar tækju þátt í slíkri samvinnu, — þeim fer ört fjölgandi sem verða í vafa um það ef svo heldur áfram sem gengið hefur til í sambandi við afstöðu breta og NATO vegna landhelgismálsins.

Bæði hæstv. sjútvrh. og einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson komu hér inn á í þessum umr., ef við íslendingar tækjum þá ákvörðun að segja okkur úr NATO, hvort því fylgdi þá ekki — sjálfkrafa skildist mér — ákvörðun um að segja okkur úr Sameinuðu þjóðunum. Ég held að þetta sé mesti misskilningur. Ég held að það sé ekki hægt að leggja það að jöfnu, Atlantshafsbandalagið og veru okkar þar eða veru okkar innan Sameinuðu þjóðanna, í þessum skilningi. Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, hefur skuldbundið sig til að taka að sér varnir landsins með sérstökum samningi við íslensk stjórnvöld. Þeim ber því skýlaus skylda til þess að sjá um varnir landsins vegna aðildar okkar að NATO og með samningi sínum við íslensk stjórnvöld. Mér er ekki kunnugt um að neinu slíku sé til að dreifa í sambandi við aðild íslendinga í Sameinuðu þjóðunum, þannig að frá mínum bæjardyrum séð a.m.k. er ekki neinu líku saman að jafna varðandi þessi tvö tilvík. Það hefur komið fram hér í dag og oft áður að samkv. sáttmála Atlantshafsbandalagsins skoðast árás á eitt aðildarríki þess sem árás á þau öll, og það höfum við Íslendingar orðið að þola af aðildarríki.

Ég sagði áðan að hv. þm. Ellert B. Schram væri greinilega farinn að hugsa sig um hvort það bæri ekki að athuga betur okkar gang í þessum efnum ef svona héldi áfram. Þessi hv. þm. sagði í fyrri hluta ræðu sinnar að að sínu mati kæmu nú engir samningar til greina við breta af okkar hálfu. Síðan dró hv. þm. svolítið í land, kannske hefur hann talað af sér, því að hann sagði að það væri hugsanlegt að taka til athugunar ef einhverjir aðrir kæmust að samkomulagi sem við gætum svo tekið afstöðu til um samninga við breta. Mér er ekki alveg ljóst hvað þessi hv. þm. var að fara, hvort hann meinti það í rann og veru að við sjálfir ættum ekki að koma nálægt neinni samningsgerð við breta, en gætum síðan hugsað okkur að taka afstöðu til samkomulags sem einhverjir aðrir hefðu gert — væntanlega fyrir okkar hönd þá eða svo skildi ég það. Þetta er að mínu viti mikil hugsanavilla, ef þetta er meiningin. Ef menn eru á annað borð hlynntir samningum, þá eiga þeir auðvitað að sjá til þess að það séu íslendingar sjálfir sem standi í því að gera þá, standi að þeim, en ekki að fá aðra til þess. En kannske fest úr þessu skorið frekar hér á eftir.

En ég vil sem sagt — og það var aðalerindið — ítreka þessa spurningu til hæstv. utanrrh., því að hann situr hér og heyrir, um það hvort ríkisstj. hafi veitt samþykki sitt fyrir því að utanrrh. norðmanna væri málamiðlunaraðili í deilum milli íslendinga og breta.