16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

122. mál, hönnun bygginga á vegum ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði um lögin um byggingu 1000 leiguíbúða. Það er alveg rétt hjá honum að í þeirri löggjöf er aðeins um heimildarákvæði að ræða í sambandi við byggingu, en í lögunum um Breiðholtsframkvæmdirnar var um skylduákvæði að ræða. Það skylduákvæði var þó framkvæmt á þann veg að langsamlega mikill meiri partur af framkvæmdafénu var tekinn út úr hinu almenna kerfi Byggingarsjóðs ríkisins í stað þess að lögin kváðu á um að það ætti að afla sérstaks fjár til þess, þannig að það var svikið.

Það, sem mestu máli skiptir í sambandi við lögin um byggingu á 1000 leiguíbúðum, var að þau voru sett af stjórn sem ætlaði að framkvæma heimildarákvæðið. En það er greinilegt að sú stjórn, sem nú situr, hæstv. núv. ríkisstj., hefur ekki og ætlar sér ekki að framkvæma það. Þar treysti ég á stuðning hv. þm. Páls Péturssonar um að koma hæstv. núv. ríkisstj. í skilning um að það er ætlast til þess af henni að hún framkvæmi þetta ákvæði, þó að um heimildarákvæði sé að ræða, því að það ætlaði sú ríkisstj. sem setti þau lög.