24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil taka það fram í upphafi að ég fagna því mjög og byggi það á reynslu minni innan og utan rn. og afskiptum af húsnæðismálum á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá að þær takmarkanir, sem settar hafa verið í lög um þetta efni, hafa reynst mjög örðugar í framkvæmd og ávallt varla verið þornað blekið á lögunum þegar þær voru orðnar úreltar vegna vaxandi dýrtíðar og ástands í efnahagsmálum. Ég held því að sú leið, sem hér er farið inn á, að áætla ársþörfina fyrir fram geri allt starf að þessum málum auðveldara og betra og ætti um leið að geta verið sanngjarnara í augum fólks.

Varðandi 2. gr., þá hef ég dálitlar áhyggjur af að íbúðir, sem byggðar eru fyrir almannafé, geti komist í svokallað brask, þ.e.a.s. gangi kaupum og sölum. Þetta eru sérstakar íbúðir byggðar fyrir sérstakar þarfir manna og ég óttast að eftir að þær losna úr höndum viðkomandi bæjarfélaga geti þær farið í almennt íbúðarbrask en það var ekki ætlunin þegar þær voru byggðar. En þetta, eins og ég sagði áðan, fær allt frekari rannsókn í n. og sjálfsagt að ræða það við núverandi húsnæðismálastjórn og hvaða hátt hún telur bestan á framkvæmd málsins.

Ég endurtek þá yfirlýsingu mína að ég fagna mjög framkomu málsins og tel að þarna opnist möguleikar til mikilla umbóta í húsnæðismálum. Að sjálfsögðu er það rétt, sem á hefur verið bent í umr. nú þegar, að það hefur alltaf skort fé og sú staðreynd blasir við enn. Það voru aðeins örfá ár á síðasta áratug sem hægt var að fullnægja þörfinni skv. gildandi lögum, þó að allir vissu að það var ekki fullnæging þarfar þess fólks sem lánin fékk, heldur var einungis hægt að fullnægja hámarkslánum um nokkurra ára skeið. Ég ítreka sem sagt ánægju mína með frv. í heild, en tel að þurfi að skoða dálítið betur ákvæði 2. gr.