01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð út af þessari þáltill. Hér er hreyft mjög merkilegu máli og gagnlegu og ekki að fullkomlega ástæðulausu, því að eins og hæstv. landbrh. tók skýrt fram í ræðu sinni hefur þetta gengið hægar en æskilegt hefði verið. Til þess liggja margar ástæður, en fjármagnsskortur náttúrlega sú ástæðan sem mest hefur tafið.

Hugmyndir um þær graskögglaverksmiðjur, sem þessi þáltill. hnígur einkum að, þ.e.a.s. í Hólminum og í Saltvík, eru orðnar nokkuð gamlar. Mér er sérstaklega kunnug hugmyndin að verksmiðjunni í Hólminum og hún er orðin talsvert margra ára. Fyrir nokkuð löngu var hafist þarna myndarlega handa, grafnir skurðir og brotið land að nokkru, en síðan hefur þessa verksmiðjubyggingu því miður dagað uppi. Og það er fullkomin ástæða til þess að gera nú myndarlegt átak til »ess að koma skrið á málið. Þar er eins og í Saltvík nærtækur hiti sem vafalaust er rétt að reyna að nýta — raforku hugsanlega líka að einhverju leyti.

En ég stóð hér upp aðallega til þess að þakka yfirlýsingu hæstv. landbrh. að hann ætli nú að fara að setja n. í málið og það þá kannske frekar þrjár en eina. Þessar n. hafa vafalaust nóg verk að vinna, og ég hygg að sé skynsamleg byrjun á málinu hjá hæstv. ráðh. að fara þessa leið. Í Varmahlíð þarf að bora eftir jarðhita, Það hafa verið gerðar þar lítils háttar tilraunaboranir og þær hafa gefið mjög góðar vonir, en meginverkið er óunnið. Og það er m.a. vegna þess að það er enginn framkvæmdaaðili sem getur tekið þetta verk að sér, þessa borun þarna. Það vantar sem sagt húsbændur fyrir þessa verksmiðju. Það vantar ráð til þess að fjáramagna þessa jarðhitaleit, einhvern aðila sem gæti fjármagnað hana og staðið fyrir henni.

Ég vil leyfa mér að skýra frá því hér að áhuga heimamanna vantar ekki til þessa máls, en hins vegar eru fjárráð búnaðarsambandanna sem slíkra ekki á þann veg að þau geti tekið að sér verulega kostnaðarsamar framkvæmdir eða lagt fram fé, þótt ekki væri nema í bili, heldur verður að leita annarra leiða. Og það er einmitt meginatriðið að samræma þá krafta, sem þarna eru fyrir hendi, og fella þá í farveg að skynsamlegu marki. Nú veit ég ekki hvort þýðir að setja sér ákveðin tímamörk, hvort árið 1979 er nákvæmlega rétta árið. Ég vildi óska að bað gæti orðið fyrr. E.t.v. verður það ekki fyrr en eitthvað siðar En meginatriðið er að koma hreyfingu á málið og vinna að því af endurnýjuðum þrótti. Fyrrv. alþm., séra Gunnar Gíslason í Glaumbæ, sveitarhöfðingi í Skagafirði, varpaði fram skynsamlegri og skemmtilegri hugmynd í blaðagrein í vetur um fjármögnun þessarar verksmiðju, og ég vænti þess að sú framkvæmdanefnd, sem vonandi verður skipuð, kynni sér hana.