27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 519 vil ég gefa eftirfarandi svör sem ég hef fengið frá Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Ráðstöfunarfé Stofnlánadeildarinnar er eftirfarandi samkvæmt áætlun frá deildinni: Frá Framkvæmdasjóði 954 millj. kr. Eigið ráðstöfunarfé, þar innifalin framlög o.fl., áætlað 250 millj. kr. Eigið framráðstöfunarfé brúttó er eftirfarandi: Gjöld af búvöru sömu og ríkisframlag, 525 millj. kr. Afborganir og vextir af lánum 556 millj. Skyldusparnaður 35 millj. Sérstakt lán frá Lífeyrissjóði bænda 68 millj. Afgangur frá fyrra ári 55 millj. Samtals 1239 millj. kr. Frá dregst: Afborganir og vextir af lánum 850 millj. Kostnaður við rekstur deildarinnar 55 millj. Kostnaður við Byggingarstofnun landbúnaðarins 26 millj. Eftirlaun til aldraðra bænda 37 millj. Nettómismunur 271 millj.

Um þetta þarf ég lítt við að bæta, en mun halda áfram að svara fsp.

Um ráðstöfun lánsfjárins er þetta að segja: Lán til allra framkvæmda bænda, sem eru í gangi, eru 380 millj. Lán til nýbyggingar íbúðarhúsa að fullu 170 millj. Lán til ræktunar, mjaltakerfis og tankvæðingar að fullu 100 millj. Dráttarvélalán eftir sömu reglum og á s.l. ári, ekki lánað út á þriðju vél sé um tvær vélar að ræða fyrir 15 ára eða yngri, 140 millj. Lán til vinnslustöðva sem framkvæmdir eru þegar hafnar við, en ekki nýjar framkvæmdir, 230 millj. Lán vegna lánsloforða, sem voru gefin á árinu 1974 og fyrr og hafa verið endurnýjuð, 180 millj. Smáverkefni 30 millj. Samtals 1230 millj. kr.

Nýjar umsóknir, sem gert er ráð fyrir að synjað verði, eru um 550 millj. Annars háttar umsóknir 270. Alls 820 millj. Synjað vegna ríkisframkvæmda er gert ráð fyrir 40 millj. kr.

Út af þessu vil ég segja það, að eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram verður að sjálfsögðu sem fyrr um takmarkaða fjárhæð að ræða til lánveitinga og ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir fái lán sem um sækja. Verður þá notuð aðferðin, sem notuð var í fyrra og þegar er notuð, að þeir ganga fyrir sem eiga umsóknir frá fyrri árum, og reynt verður að vita um það hvort þeir ætla að fara í framkvæmdir eða ekki, og svo verða hinar nauðsynlegustu framkvæmdir látnar sitja í fyrirrúmi ef fjármuni skortir.

Á s.l. ári voru veittar úr Stofnlánadeild landbúnaðabúnaðarins milli 13 og 14 hundruð millj. kr., sem er það mesta sem verið hefur. Hér er gert ráð fyrir heldur lægri tölu og geri ég ekki ráð fyrir að við það verði hægt að bæta, því að fjármagnsútvegun skortir til þess að svo megi verða. Hins vegar er nú verið að skipa n. til þess að endurskoða Stofnlánadeildarlögin sérstaklega með tilliti til þess að reyna að afla deildinni meira fé, eigin fjármuna, heldur en verið hefur, því að lánsfé er orðið allt of mikið ráðandi í útlánum hennar og er farið að ganga á tekjur deildarinnar sjálfrar.

Um það að seint sé svarað, ég held að ég fari þar rétt með að það sé búið að senda út svörin nú, en veit ekki annað en það hafi staðið til að svara því á fundi sem bankaráðið hélt nú fyrir stuttu, og hygg ég að það sé ekki neitt seinna en venja er. Og ég minnist þess frá mínum fyrstu þingmannsárum, að þá var það nú svo að ákvarðanir fékk maður ekki alveg fyrr en á haustin um þetta, en á síðari árum hefur þetta færst meira í það horf að gera áætlanir um þetta fyrirfram, enda nauðsynlegt vegna þess hvað fjárhæðirnar eru orðnar stórar.

Það, sem ríkisstj. hefur gert til þess að auðvelda ungu fólki að hefja búskap, er það sem hv. þm. kom að, að auka lán frá veðdeild Búnaðarbankans og var það komið upp í millj. kr. Hins vegar verður að segja það eins og er að þar horfir þunglega nú, því að breytingar þær, sem gerðar voru með samningum stéttarfélaga um lífeyrissjóði nú á s.l. vetri, munu gera það að verkum að Lífeyrissjóður bænda getur ekki lánað veðdeildinni eins og gert var ráð fyrir, og er það vandamál hvernig úr verður bætt. Og enn fremur hafa verið tekinn upp bústofnslán. En það skal undir það tekið að hvort tveggja þetta nægir allt of skammt til þess að mæta fjárþörfum við stofnun búskapar því að það eru orðnar miklar fjárhæðir sem þar þarf til. Um ákvarðanir, hvernig því skuli mætt, um það liggja ekki fyrir áætlanir, þó að sé verið að reyna að vinna að þeim málum. En eins og kunnugt er, þá eru fjárhagsmál okkar nú erfið og kemur það að að sjálfsögðu niður á þessum þætti sem öðrum, en réttmæti þess, að úr verði unnið, dreg ég ekki í efa, nema síður sé.