06.11.1975
Neðri deild: 14. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

12. mál, orkulög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara mjög mörgum orðum um þetta frv. nú við 1. umr., enda hefur svo margt verið sagt á undanförnum þingum um málið þar sem það hefur verið flutt þrisvar eða fjórum sinnum áður. Aldrei hefur þó á rann reynt á það hvort meiri hl. er hér á hv. Alþ. fyrir þessu frv., þótt það hafi bæði verið flutt sem stjfrv. á vinstristjórnarárunum og síðar sem þmfrv. Í umr. á síðasta þingi fullyrti hins vegar hv. þm. Magnús Kjartansson að meiri hluti væri í þinginu. Ég held að þar hafi verið um vafasama fullyrðingu að ræða, þó ekki sé meira sagt. Það kann vel að vera að um tíma hafi meiri hl. hv. þm. hneigst til fylgis við frv., en það er ástæða til að ætla að eftir því sem menn kynna sér málið betur og sjái í gegnum hinn mikla áróður og rangfærslur sem hafðar hafa verið frammi af einstökum fylgjendum þessa máls, þá sjái þeir í fyrsta lagi að engin nauðsyn er á að samþ. frv., og það sem meira máli skiptir, ef svo yrði gert, þá færi Alþ. út á mjög varhugaverða braut. Ég skal koma að því nánar síðar.

Eins og allir vita er meginefni þessa frv. það sem segir í 2. málsgr. 1. gr.:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum og uppleystra efna og gastegunda sem háhitavatni og gufu fylgja, þó með takmörkunum sem í lögum þessum greinir.“

Háhitasvæði telst skv. frv. ef innan tiltekins svæðis finnst 200 gráðu hiti ofan 100 m dýpis. Ríkið eigi þar sem sagt allan rétt til umráða og hagnýtingar, og í grg. segir um þetta atriði:

„Með lögum þessum eru eignarrétti einstaklinga sett tiltekin almenn takmörk, án þess að bætur komi fyrir o. s. frv.

Rökstuðningur fyrir þessu ákvæði er nokkuð þokukenndur, svo að ekki sé meira sagt. Í grg. er löngu máli varið til að telja upp og rekja afstöðu löggjafans til eignarréttar yfir jarðhita, bæði hér á landi og í Danmörku. Einnig er minnst á frv. Bjarna Benediktssonar frá 1945 þar sem lagt var til að fá skyldi leyfi ráðh. ef bora ætti lengra niður en 10 m eftir heitu vatni. Svo er sagt í grg., að með frv. þessu sé ekki gengið „svo langt í almennri takmörkun á eignarrétti á jarðhita sem í frv. dr. Bjarna Benediktssonar.“

Svona röksemdafærsla er vægast sagt furðuleg. Frv. dr. Bjarna er flutt þegar tæknin við jarðboranir er á algjöru frumstigi hér á landi, og það sem meira er, frv. dr. Bjarna gerði ekki ráð fyrir að menn væru sviptir eignum sínum bótalaust, eins og þetta frv. ætlast til. Svo leyfa flm. sér að segja að frv. þetta gangi skemmra í almennum takmörkunum á eignarétti hitaorkunnar teljist ekki til þeirra nota af landi sem heyri til venjulegrar hagnýtingar á eignar

Þá eru þau rök einnig notuð að nýting hárétti yfir fasteignum og einstökum landeigendum muni verða fjárhagslega ofviða að rannsaka eða virkja slíkan jarðhita. Það er að sjálfsögðu rétt að hér er ekki um venjulega hagnýtingu á eignarréttindum að ræða í þess orðs fyllstu merkingu, einfaldlega vegna þess að slík eignarréttindi eru ekki í höndum margra einstaklinga, en einkum vegna þess að af tæknilegum ástæðum hefur það ekki verið venjulegt til þessa eða daglegt brauð að jarðhiti háhitasvæðanna hafi verið nýttur, hvorki af einstaklingum né hinu opinbera. Svo má gjarnan spyrja: Hvenær er svo komið að um venjulega hagnýtingu á eignarrétti yfir tilteknum fasteignum er að ræða? Menn hafa getað átt fasteignir svo að áratugum skiptir án þess að hafa nýtt þær, einfaldlega vegna þess að það var þeim ekki tæknilega mögulegt eða ekki hagkvæmt eða þá að ekki var markaður fyrir þau gæði sem um var að ræða. Þrátt fyrir það hafa slík réttindi lotið reglum eignarréttarins og yfirfærst frá manni til manns gegnum aldirnar. Hvað er langt síðan farið var að sá í sandana og hafa þannig af þeim mikinn arð í stað þess að áður höfðu menn aðeins af þeim skaða? Hvað er langt síðan bændur fóru að ræsa fram votlendið og fá þannig aukinn arð af því landi sínu? Hvað með nýtingu sand- og malarnáma um allt land? Hvað skyldu margar námur vera ónýttar enn í dag, en koma til með að verða nýttar síðar? Svona mætti sjálfsagt lengi spyrja.

Það, sem kalla má venjulega hagnýtingu tiltekinna eignarréttinda, er því nokkuð teygjanlegt, og það að einstaklingar hafa ekki getað nýtt rétt sinn til þessa skapar ríkinu engan rétt til að leysa slík eignarréttindi til sín án bóta. Þá er það ósannað mál að einstaklingum væri fjárhagslega um megn að rannsaka og virkja jarðhita á háhitasvæðum. Hvað kostar rannsókn og virkjun á slíkum svæðum? Hafa hv. flm. einhverja ákveðna gjaldskrá yfir þennan kostnað? Ég fullyrði að ef menn fengju að vera í friði fyrir ríkinu með sín réttindi, þá gætu þeir fjárhagslega séð ráðist í slíkar virkjanir. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að ríkið hafi á sínum vegum vísindamennina sem kanni aðstæður á hverju líklegu svæði, en þeir, sem ætla að virkja, greiði fyrir þá þjónustu sem þannig er veitt. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt? Einstaklingar eða samtök þeirra, félög, ráðast í fjárfestingar, sem nema hundruðum millj. kr., eins og t. d. í útgerð, svo að ég nefni dæmi. Ég veit hins vegar vel að það eru uppi raddir, a. m. k. meðal félaga sumra hv. flm., að þjóðnýta útgerðina sem og fleira í þessu þjóðfélagi. En vegna þessa alls, telja hv. flm. að nauðsynlegt sé að tryggja með lögum að jarðhiti á háhitasvæðum verði nýttur á þjóðhagslega hagkvæman hátt, eins og þeir nefna það. Það hafa engin rök verið færð fram í máli þessu sem gera þessa lagasetningu nauðsynlega til þess að virkjað verði á þjóðhagslega hagkvæman hátt. Það er í grundvallaratriðum rangt að ekki geti verið um þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd verks að ræða nema ríkið sé með nefið niðri í hvers manns kirnu. Þess vegna er þetta ákvæði frv. óþarft.

Ég er andvígur því að ríkið slái með löggjöf sem þessari eign sinni á tiltekin réttindi manna. Hér skiptir ekki máli hvort um er að ræða tiltekin náttúrugæði. Það gengur ekki að Alþ. rjúki til og svipti menn eignum sínum bótalaust, aðeins ef lyktar af því að einstaklingar kunni að fá einhvern arð af landi sinn, arð sem þeir gátu ekki áður notið. Gósentímar eignarréttarins eru að vísu löngu liðnir, virðing fyrir einstaklingsbundnum réttindum fer þverrandi og auðvelt er að tala til hins fjölmenna hóps í þjóðfélaginu, sem ekki ræður yfir öðru landi en því, sem hús hans stendur á, og smáskika umhverfis það. Það er til þessa hóps sem hv. flm. þessa frv. tala í von um kjörfylgi. Þeir hafa ekki sannað að samþykkt frv. sé þjóðfélagsleg eða lagaleg nauðsyn, enda er ekki um slíkt að ræða.

Það hefur verið látið að því liggja að tafir hafi orðið á virkjunarframkvæmdum í Svartsengi vegna þess að réttindi þar eru í eigu einstaklinga. Hv. 1. flm. talaði um þetta áðan og sagði að eitt mál væri þegar orðið stórmál og það ylli íbúa viðkomandi svæðis tjóni sem næmi tugum ef ekki hundruðum millj. kr., þeir hefðu sem sagt orðið fyrir þessu tjóni vegna þess að Svartsengi er í eigu einstaklinga. Ég kemst ekki hjá því að leiðrétta nokkuð af því sem hv. flm. sagði. Þó að ég telji ekki aðalatriði þessa frv. snúast um Svartsengi, þá er það vissulega mál sem er í gangi og varðar þetta.

Flm. rakti sögu Hitaveitu Suðurnesja réttilega og ég hef engu þar raunverulega við að bæta. Haustið 1974 lágu fyrir niðurstöður áætlana, eins og fram kom, og frv, um Hitaveitu Suðurnesja var samþ. hér á síðasta haustþingi og lögin gengu í gildi um síðustu áramót. En hv. 1. flm. eyddi löngu máli í að skýra út að þegar kom fram á árið 1975 fór róðurinn að þyngjast fyrir Hitaveitunni, eins og hann orðaði það, og hann sagði einnig að tafir hefðu nú orðið á framkvæmd verksins í nærri heilt ár. Hér er mjög hallað réttu máli og ég bið hv. flm. að taka eftir því, ég fullyrði að það hafi alls engar tafir orðið á framkvæmdum við Hitaveitu Suðurnesja, alls engar tafir til þessa, vegna þess að Svartsengi sé í eigu einstaklinga. Ég er hér með í höndunum ljósrit af bréfi frá Orkustofnun til Hitaveitu Suðurnesja. Þétta bréf er dags. 31. okt. s. d. og það hefst á þessum orðum:

„Hér er mynd af örvalínuriti sem sýnir till. Orkustofnunar um hvernig staðið skuli að framkvæmdum við byggingu varmaskiptistöðvar í Svartsengi fyrir hitaveitu í Grindavík.“

Þetta bréf er sem sagt dags. 31. okt. Það er enn verið að fást við ýmis tæknileg atriði sem varða Hitaveitu Suðurnesja, og það er fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum sem þetta verk er ekki komið lengra en raun ber vitni. Ég vil þó að það komi skýrt fram að framkvæmdir eru þegar hafnar á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Þær hófust raunverulega með útboði dreifikerfisins fyrir Grindavík, en dreifikerfið var boðið út 3. sept. s. l.

Þá var rætt hér nokkuð um þau verðmæti sem eigendur Svartsengis teldu sig eiga þarna og hv. 1. flm. sagði, hann fullyrti að vísu ekkert, en sagði að það hefði heyrst og meira segja komið á prenti í merku blaði á Suðurnesjum að þeir hefðu talið sig geta gert kröfur þarna upp á 800 millj. kr. Þegar hv. þm. Gils Guðmundsson var að segja þetta, þá minnti það mig dálítið á málflutning hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar fyrir skömmu þegar hann var að tala um launakjör kommissaranna hjá Framkvæmdastofnuninni. Það er alveg nákvæmlega sama sem liggur þarna til grundvallar. Það er látið að því liggja, að landeigendur hafi krafist 800 millj, ég hef reyndar heyrt allt upp í milljarð nefndan, og svo er sagt að þessu hafi ekki verið mótmælt svo að mark sé takandi á. Þannig kemst hv. þm. að orði.

Það má rétt vera að stjórn Hitaveitu Suðurnesja hafi ekki staðið í því að leiðrétta allan þann misskilning, sem hefur verið borinn á borð, og rangfærslur, sem hafa verið bornar á borð fyrir fólk í sambandi við samningana við eigendur Svartsengis. En ég held þó að ég megi fallyrða að fréttatilkynning var gefin út í sumar þegar samkomulag varð milli eigenda Svartsengis og stjórnar Hitaveitu Suðurnesja. Það samkomulag var gert 22. júlí, þá var gefin út fréttatilkynning skömmu seinna þar sem kom alveg skýrt fram hverjar kröfurnar hefðu verið. Ég er því miður ekki með þær tölur hér með mér, en ég man að það mátti reikna út kröfur landeigenda þannig að þær komu út með ca. 240 millj. kr. Á það tilboð landeigenda féllst stjórn Hitaveitunnar ekki. Hins vegar var fullkomið samkomulag um öll atriði og þ. á m. að leggja málið í gerð. Það var samið um allt nema verðið. Það var samið um að fá þrjá tiltekna menn til þess að kveða á um verðið, og þessi gerðardómur er nú að störfum, hefur verið að safna gögnum og það er gert ráð fyrir því að hann ljúki sínu starfi nú í þessum mánuði. Meira hef ég ekki um þetta atriði að segja, en ég vona að þetta sé þó tekið sem leiðrétting sem mark sé takandi á.

Þá hafa menn haldið því fram að lagasetning sé nauðsynleg til þess að ekki þurfi að greiða landeigendum fyrir hitaréttindin. Ef það stæðist að hægt væri að svipta menn eignum sínum án bóta, þá væri þetta vissulega gott og blessað fyrir sveitarfélögin og ríkið sem nú eru að virkja jarðhitann eða eiga eftir að gera það. En þetta bara stenst ekki. Eignaupptaka sem þessi stríðir gegn ákvæði 67. gr. stjórnarskráarinnar. Það liggur fyrir álit lagadeildar Háskóla Íslands þar sem segir að frv. feli að vísu ekki í sér stjórnarskrárbrot, en sá varnagli er í áliti deildarinnar sem gerir þá fullyrðingu að engu að ekki þurfi að greiða bætur fyrir þau réttindi sem af mönnum yrðu tekin ef þetta frv. verður að lögum. Ég vitna í álit lagadeildar með leyfi hæstv. forseta:

„Þarna“ — þ. e. í frv. — „er byggt á því að fyrrgreindar skerðingar á jarðhitaréttindum hafi ekki í för með sér skyldu til greiðslu eignanámsbóta. Þrátt fyrir það, er ástæða til að ætla að frv. verði skýrt þannig, ef að lögum verður, að eignarskerðingar þessar skuli koma til framkvæmda við gildistöku laganna, en hins vegar beri að greiða aðilum bætur sem sviptir hafa verið réttindum sínum til að hagnýta jarðhita með borunum ef um verðmæt réttindi er að ræða.“

Og enn segir í áliti lagadeildar:

„Skv. núgildandi lögum á landeigandi að jafnaði rétt til hagnýtingar jarðhita og jarðefna sem eru undir yfirborði lands hans, sbr. 9. gr. orkulaga, nr. 58/1967, og 1. og 4. gr. námulaga, nr. 24/1973. Vafi leikur hins vegar á hve langt hagnýtingar- og umráðaréttur landeigenda nái í jörðu niður. Þar sem ákvæði frv. áskilja hins vegar ríkinu jarðhita undir yfirborði jarðar á háhitasvæðum, án tillits til þess hve djúpt hann liggur í jörðu, verður að ætla að frv. hafi í för með sér, ef að lögum verður, að eigendur jarðhita á þessum svæðum verði sviptir heimild sinni skv. núgildandi lögum til að hagnýta jarðhita undir yfirborði jarðar með borunum. Eins og eignarskerðingum þessum er háttað verður að lita svo á að skylt sé skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar að láta eignarnámsbætur koma fyrir þær ef á annað borð er um jarðhitaréttindi að ræða sem hafa fjárhagslegt verðmæti við gildistöku laganna.“

Skv. þessu, sem ég hef nú lesið úr áliti lagadeildar, held ég að menn ættu að fara varlega í fullyrðingum sínum um að ákvæði þessa frv. stæðust. Bætur þarf áreiðanlega að greiða til landeigenda fyrir réttindi sem af þeim yrðu tekin ef þetta frv. verður að lögum. Og þá er einni spurningu ósvarað. Hún er sú, hvort hagkvæmara sé fyrir sveitarfélög, sem hyggjast virkja jarðhitann á háhitasvæði, að semja beint við einstaklinga, sem réttindi kunna að eiga, eða fá leyfi ríkisins til vinnslu og greiða ríkinu bað gjald fyrir sem það setur upp. Í mínum huga er enginn efi hvort hagkvæmara er. Hagkvæmara er fyrir sveitarfélögin að kaupa réttindin í eitt skipti fyrir öll heldur en að þurfa að greiða ríkinu um aldur og ævi gjald fyrir orkuna, — gjald sem ríkið eitt ákveður. Skv. frv., 2. gr. þess, skulu sveitarfélögin þó vera undanþegin leyfisgjaldi fyrir vinnsluna á eigin landi. Ja, hvílík rausn! segi ég. En í aths. við 2. gr. frv. kemur ótvírætt í ljós hver er hugsun hv. flm. Afskipti ríkisins og aftur afskipti ríkisins af öllum hugsanlegum þáttum eru þeirra ær og kýr. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa hér smákafla úr aths. um 2. gr.:

„Meginstefna þessa ákvæðis er að Alþ. ákveði með löggjöf hvernig skipa skal hagnýtingu einstakra háhitasvæða. Í slíkri löggjöf yrðu væntanlega ákvæði um mörk vinnslusvæðis, hvaða aðili hafi leyfi til að bora eftir háhita og vinna hann, tímalengd sérleyfis til vinnslu, að frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum skuli leggja fyrir ráðherra til samþykktar, hvenær vinnslu skuli hefja í síðasta lagi, að leyfi falli niður ef vinnsla er stöðvuð um tiltekið tímabil, að bannað sé að framselja vinnsluleyfi án samþykkis ráðherra, um greiðslur fyrir vinnsluna, að leyfishafi greiði landeiganda bætur samkv. 15. og 16. gr. laganna, hvernig ráðstafa skuli vinnslumannvirkjum að vinnslutíma loknum, um ráðstafanir gegn hættu sem af vinnslunni kann að stafa og gegn spjöllum á umhverfi svo og önnur skilyrði sem ástæða er til að setja hverju sinni. Enn fremur ákvæði um gjald það sem leyfishafi skal greiða“ o.s.frv., o.s.frv.

Þarna kemur skýrt í ljós hvað um er að ræða. Hvað sýnist mönnum um þetta? Það er ekkert nema boð og bönn. Það er það sem að er stefnt. Vinnsluaðili, sem í flestum tilfellum hlýtur að vera sveitarfélag eða sveitarfélög saman, má ekkert gera nema hafa hina alvitru hönd ríkisins sífellt yfir sér.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín miklu fleiri. Mér er alveg ljóst að nánari reglur vantar í okkar löggjöf um nýtingu jarðhitans. En ég fullyrði að þetta frv. leysir ekki þann vanda sem kann að vera fyrir hendi. Það, sem gera þarf, er að setja reglur um á hvern hátt það land verði metið, þar sem jarðhiti er, og tekið verði tillit til í slíku mati hverjar rannsóknir hafi þar farið fram, — rannsóknir sem kostaðar hafa þá verið af öðrum en landeiganda. Það er engin ástæða fyrir ríkið að kaupa upp öll jarðhitaréttindi á landinu. Einstaklingar geta átt þau áfram og sveitarfélög eiga að geta keypt slík réttindi þegar þau þurfa á að halda vegna virkjunar. Ef hv. þm., sem fær þetta frv. til athugunar, tekur þessi sjónarmið til greina og breytir frv. í samræmi við það, þá má vera að ástæða sé til að samþykkja frv. með þeim breytingum.