29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

231. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Frsm. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 63 frá 16. apríl 1971, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum.

Einn þáttur í lausn hinnar almennu kjaradeilu í febr. s.l. var samkomulag Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna um málefni lífeyrissjóða. Í samkomulagi þessu er m.a. gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir á samningssviði þessara samtaka ásamt nokkrum öðrum lífeyrissjóðum taki að sér að veita lífeyrisþegum sínum, sem rétt eiga samkv. l. nr. 63 frá 1971, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, sérstaka uppbót árin 1976 og 1977, þannig að lífeyrisgreiðslur þessar verði betur verðtryggðar en hingað til. Forsenda þessa samkomulags er sú breyting á nefndum lögum sem í frv. þessu felst.

Heilbr.- og trn. leggur shlj. til að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.