04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. orð hans um frv. og hans ágætu undirtektir. Varðandi brtt. hans þá vil ég taka undir það, að ákvæði reglugerðarinnar frá því í febr. 1974, sem hann nefndi, tel ég einnig að þurfi endurskoðunar við. Ég tel að þau ákvæði séu of ákveðin og það sé réttileg ábending hjá hv. þm. að það eigi að veita heimamönnum meira svigrúm til að vinna að ýmsum þessum verkefnum heldur en gert er ráð fyrir í þessari reglugerð.

Ég tel eðlilegt að hv. félmn., sem fær málið til meðferðar, ræði brtt. og þetta ákvæði reglugerðarinnar, fjalli um það og meti það hvort ekki sé æskilegt að gera hér breyt. á og hvort þá væri rétt að setja inn ákvæði um það í frv. eða gera ráð fyrir að reglugerðinni yrði breytt. Að venju mundi brtt. hv. þm. koma til atkv. við 2. umr. málsins ef ekki hefur tekist að finna samkomulag um aðra lausn málsins. Það er nauðsynlegt að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi, og vildi ég taka það sérstaklega fram hér og beina því til hv. félmn. um leið og ég tel æskilegt að hún athugi ábendingar hv. 3. þm. Norðurl. v.