05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

318. mál, utanríkismál

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Það skal vera upphaf máls míns að tjá hæstv. utanrrh. þakkir fyrir að hann skuli hafa lagt fyrir Alþ. ítarlega skýrslu um utanríkismál og efnir nú til umr. um hana að liðnum rúmum fresti frá því að skýrslan var lögð fram. Umr. um utanríkismál eru að mínum dómi nauðsynlegur þáttur í þingstörfunum ár hvert og aldrei brýnni en einmitt nú, þegar svo standa sakir að við íslendingar eigum í útistöðum við annað ríki og lífshagsmunamál þjóðarinnar eru að vissu leyti til ákvörðunar á alþjóðavettvangi.

Í þeirri skýrslu, sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram, er einkum fjallað um þá þætti utanríkismála sem felast í beinum samskiptum Íslands við önnur ríki og þátttöku Íslands í alþjóðastofnunum. Ég fyrir mitt leyti sakna þess einkum að ekki skuli þar rækilegar fjallað um þróunina á alþjóðavettvangi í stórum dráttum, því að þótt segja megi að einstakir atburðir eða einstakar tilhneigingar í samskiptum ríkja hafi ekki í svip sérstaka þýðingu fyrir Ísland, varði ekki okkur íslendinga beinlínís á líðandi stund, þá er það segin saga að þróunin í alþjóðamálum mótar, þegar til lengdar lætur, það alþjóðlega umhverfi sem við þurfum að taka mið af og átta okkur á ef við eigum að geta séð okkur sæmilega farborða í viðsjárverðum heimi. Ég verð að segja að mér finnst kaflinn um þróun alþjóðamála helst til rýr í roðinu og þar geti einstakir hlutir orkað tvímælis, sem máske er ekki nema von þegar í örstuttu máli er tæpt á viðamiklum viðfangsefnum, En ég vil ítreka það, að það eru, þegar dýpra er grafið, grundvallarbreytingar á síðustu áratugum á skilyrðum alþjóðlegra samskipta sem hafa gert okkur íslendingum fært að halda okkar hlut í alþjóðlegum samskiptum eins og raun ber vitni. Ég tel því að þótt það varði okkur kannske ekki beinlínis í framvindu líðandi stundar, þá hefði verið rétt af hæstv. utanrrh. að setja fram í sem stærstum dráttum afstöðu hæstv. ríkisstj. til tíðinda eins og þeirra stóratburða sem gerðust í Suðaustur-Asíu á síðasta ári, sömuleiðis að gera grein fyrir þeim megindráttum sem þegar má sjá í marghliða valdatafli sem á sér stað milli stórveldanna þriggja, Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Kína, og gætir í öllum álfum þótt með mismunandi hætti sé. Sömuleiðis sakna ég þess að ekki skuli fjallað að einhverju marki um þær miklu sviptingar sem eiga sér stað í efnahagsmálum heimsins. Mér finnst mjög skjóta skökku við að láta þær liggja á milli hluta, því að tvímælalaust höfum við íslendingar fengið ómjúklega að kenna á samdrættinum sem orðið hefur á undanförnum missirum í heimsviðskiptum og alþjóðlega verðbólgan hefur ekki látið okkur ósnortna.

Það hefur orðið okkar hlutskipti nú um nokkurt skeið að heyja harða og langdregna viðureign við Bretland sem til skamms tíma var talið ráða lögum og lofum, ef ekki á heimshöfunum öllum, þá sér í lagi á Norður-Atlantshafi. Einmitt í dag hafa borist fregnir sem að mínum dómi bera þess vott að við erum smátt og smátt að þokast nær fullnaðarsigri í þriðju lotu landhelgisátakanna við breta. Þær aðstæður, sem gert hafa okkur fært að heyja þessa baráttu með þeim árangri, sem hingað til hefur náðst, og valda því, að við eygjum nú lokamarkið eða teljum okkur a.m.k. flestir eygja það, felast í breytingum sem gerst hafa, stundum hægt og stundum hratt, á valdahlutföllum, oft á fjarlægum heimshornum, og í breyttum sambýlisháttum ríkja, jafnt fjær okkur og nær. Því vil ég enn ítreka það, að ég tel að rétt væri, þegar slíkar skýrslur eru fluttar sem hæstv. utanrrh. hefur nú lagt fram, að þá sé í sem stærstum dráttum gerð grein fyrir því hvernig ríkisstj. Íslands á hverjum tíma lítur á framvindu heimsmálanna, án þess auðvitað að hægt sé að ætlast til að rakið sé út í æsar hvert og eitt mál sem ofarlega kann að vera á baugi. Í samræmi við þetta er það álit mitt að hlutföll í skýrslu hæstv. ráðh. séu ekki með öllu eðlileg milli kaflans um alþjóðamál og þróun þeirra annars vegar og mjög nákvæmrar grg., sem þar er birt um meðferð og úrslit mála á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hins vegar. Margt af því, sem þar er um fjallað, tel ég léttvægara en önnur mál sem látin eru órædd.

Vissulega hefur þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna verulega þýðingu fyrir Ísland. Ég vil í því sambandi nefna sér í lagi tvö mál. Annað er Háskóli Sameinuðu þjóðanna og hugsanleg þátttaka Íslands í starfi hans. Ég vil leggja áherslu á að hæstv, ríkisstj. láti einskis ófreistað til að fylgja eftir og fylgja fram þeim áþreifingum sem farið hafa fram um að deild úr Háskóla Sameinuðu þjóðanna geti starfað hér á landi. Eins og mál horfa nú við þykir langvænlegast, að það sé deild sem fjallar um hagnýtingu jarðhita. Það hefur ekki aðeins virðingarauka í för með sér fyrir Ísland og íslensk vísindi og íslenska tækni ef alvara verður úr því að slík deild Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfi hér á landi. Ég er einnig sannfærður um að það mun hafa nú þegar og þó enn frekar þegar frá liður mikla efnahagslega þýðingu, því að þar með eru sköpuð ákjósanleg skilyrði til þess að íslensk þekking á náttúrulögmálum, íslensk verkkunnátta við hagnýtingu jarðhita geti orðið til þess að afla íslenskum aðilum verkefna í fjarlægum löndum við framkvæmdir sem sýnilegt er að munu vaxa af feiknahraða á næstu árum og áratugum, eftir því sem þær þjóðir, sem yfir jarðhita ráða, gerast ákveðnari og hafa meiri þörf fyrir að hagnýta sér þessa tiltölulegu ódýru og nærtæku orkulind.

Hitt atriðið, sem sérstaklega varðar Sameinuðu þjóðirnar, eru þeir styrkir og framlög sem Ísland hefur þegið frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Ég get verið stuttorður um það atriði því að þeir tveir hv. alþm., sem á undan mér töluðu, gerðu það báðir að umtalsefni. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir þá skoðun, sem fram kom í þeirra máli, að ekki sé sæmandi að Ísland hagnýti sér þessa þróunaraðstoð með þeim hætti, sem gert hefur verið um nokkur ár, og þar þurfi sem skjótast að verða breyting á sóma lands og þjóðar vegna.

Hvað samstarf Norðurlanda varðar vil ég aðeins drepa á það, að ég tel að íslensk stjórnvöld þurfi að hyggja vel að því að halda uppí nægilegri kynningu á því margþætta og gagnlega starfi sem fram fer á þeim mörgu sviðum sem Norðurlandasamvinna nær nú til. Þess gætir töluvert enn, þrátt fyrir það að menn ættu að vita betur, að fólk telur þessa samvinnu hálfgert hégómamál. En ég held að öllum, sem kynnst hafa þeim málum, beri saman um að það er öðru nær. Því skiptir máli að almenningur fái vitneskju um það sem þar er gert á fjölmörgum sviðum, ekki aðeins þeir sem í samvinnunni standa á hverjum tíma.

Ég vil lýsa ánægju minni með þá ráðstöfun, sem hæstv. utanrrh. skýrir frá, að fela starfsmanni utanrrn. að halda uppi sambandi við fjarlæg lönd sem við höfum stjórnmálasamband við, en ekki eru tök á að stofna sendiráð í. Ég tel tvímælalaust að seta slíks farandsendiherra í Reykjavík sé mjög heppileg lausn á erfiðu viðfangsefni. Ekki þarf annað en líta til Asíu til að sjá að nær óleysanlegt er að láta mann t.d. með aðsetur í Kína annast jafnframt sambandið við Japan og Indland eða mann með aðsetur í Tokíó halda uppi sambandinu við Kína. Slíkt mundi leiða til margháttaðra erfiðleika og jafnvel leiðinda. Þar að auki tel ég einsætt að þetta fyrirkomulag, að farandsendiherrann í Reykjavík, haldi uppí sambandi eftir því sem þörf gerist við mörg lönd í fjarlægum álfum, spari bæði tíma og fé miðað við það sem verið hefur, að sendiherrar í hinum og þessum Evrópulöndum hafa skipt sambandinu við fjarlægu löndin á milli sín með þeim afleiðingum að menn t.d. hafa verið á löngum og erfiðum ferðalögum um sömu heimsálfuna, einn að heimsækja þau ríki, sem hann á að halda uppi sambandi við, kannske í Austur-Afríku, annar í Vestur-Afríku.

Ég vil láta í ljós að ég tel að þó hefði mátt ganga lengra í því sem í skýrslu hæstv, utanrrh. segir að ætlunin sé, að farandsendiherra þessi hafi samband við ríkin í Asíu og Afríku. En samkv. þeirri upptalningu, sem kemur fram í skýrslunni, er gert ráð fyrir að enn hafi sendiherra, sem einhvern tíma verður kannske aftur í London, sambandið við Nígeríu, sendiherrann í Moskvu sambandið við Mongólíu og sendiherra í Genf sem stendur sambandið við allmörg Afríkuríki, einkum í austurhluta álfunnar. Ég tel að þetta skref hefði átt að stíga til fulls og sinna þessum fjarlægu ríkjum alfarið héðan frá Reykjavík.

Aldrei hefur það komið skýrar fram að mínum dómi heldur en á Hafréttarráðstefnunni, sem enn stendur, hversu þýðingarmikið það er að starfslið utanríkisþjónustu okkar sé sem best starfi sínu vaxið. Dæmið, sem þar liggur í augum uppi um hvers Ísland hefur reynst megnugt á alþjóðavettvangi þegar það hefur rækt mál sem það varðar miklu og það hefur látíð til sín taka af allri þeirri kunnáttu og öllu því afli sem við ráðum yfir, sýnir hverjum árangri er hægt að ná ef mál eru rétt undirbúin og þeim fylgt eftir á skynsamlegan hátt. Lotunni á Hafréttarráðstefnunni, sem nú er að ljúka, virðist ætla að slota á þann veg að frumvarpsákvæðin, sem þar komi fram, tryggi hagsmuni Íslands á viðunandi hátt. Og fullvíst þykir að afstýrt sé þeim málatilbúnaði sem helst hefði getað valdið íslenskum hagsmunum skaða. Það er tvímælalaust að þakka rækilegu og góðu starfi að hafréttarmálunum frá upphafi, ef svo fer sem virðist að Hafréttarráðstefnan ljúki svo störfum að íslenskir hagsmunir séu þar skjalfestir í væntanlegum alþjóðasamningi á þann hátt sem við höfum stefnt að frá upphafi.

Nátengd meðferð hafréttarmálanna er svo landhelgisdeilan sem við stöndum í við breta sér í lagi. Þar hefur komið til einstæðs atburðar í samskiptum Íslands við önnur ríki, slit hafa orðið á stjórnmálasambandi við Bretland. Hvað sem breska stjórnin og breskir togaramenn tvístiga, held ég að engum íslendingi blandist hugur um að þeirra málstaður er tapaður, og það vita reyndar bretar sjálfir. Vandræði þeirra nú felast í því að þeir eru að leita eftir einhverri undankomuleið úr þeirri smánarstöðu sem þeir hafa bakað sér sjálfir. Það er því áríðandi að við íslendingar förum að búa okkur undir að fylgja eftir sigri sem ég tel að sé í sjónmáli. Þar eins og reyndar í öllum öðrum köflum þessarar viðureignar á að spyrja að leikslokum, en ekki vopnaviðskiptum. Mest rúm tekur þar í mínum huga hversu fer um viðskiptasamband Íslands við ríkin á meginlandi Evrópu og reyndar Bretland og Írland nú orðið líka, sem standa saman að Efnahagshandalaginu.

Bókun 6 er dauður bókstafur hvað sjávarafurðir okkar snertir, Samningurinn við þjóðverja, sem okkur var sagt að mundi leysa það mál, hefur ekki reynst þess megnugur enn. Ríkisstj. hefur ákveðið að biða átekta og neyta ekki þess réttar, sem hún hefur til þess að fresta framkvæmd samningsins um veiðar þjóðverja í fiskveiðilögsögunni, og kveðst hafa spurt þjóðverja hvað þeir séu að gera til þess að koma bókun 6 í framkvæmd. Ég tel það með ólíkindum að hæstv. ríkisstj. sé svo ófróð að hún hafi ekki fylgst með þessu máli frá upphafi og hafi einhverja vitneskju um hvað þjóðverjar hafa aðhafst og hverjar horfur eru á að þeir nái árangri. Ég vil mega mælast til þess að hæstv. utanrrh. miðli þingi og þjóð slíkri vitneskju sem hann kann yfir að ráða.

Eitt af þeim málum, sem upp hafa komið á alþjóðavettvangi nú alveg á síðustu mánuðum og mikla athygli hefur vakið beggja vegna Atlantshafs, þótt lítið hafi farið fyrir því í umr. hér á landi, er svokallað Sonnenfeldtmál. Sonnenfeldt þessi gengur næst Henry Kissinger að áhrifum og völdum í utanrrn. Bandaríkjanna. Fyrir nokkru flutti hann grg. um viðhorf Bandaríkjastjórnar til mála í Evrópu á fundi bandarískra sendiherra í Evrópulöndum sem haldinn var í London. Þótt fundurinn væri lokaður komst brátt í blöð í Bandaríkjunum og síðan í Evrópu skýrsla um það sem Sonnenfeldt lét sér þar um munn fara. Þar kom í rauninni fram staðfesting á því, sem lengi hefur verið almannarómur, en reynt hefur verið að dylja, að þótt Bandaríkin og Sovétríkin látist gjarnan vera miklir andstæðingar á yfirborðinu, þá fer fram milli þeirra meira og minna leynt samspil þar sem hvort styður annað bak við tjöldin að halda tökum á þeim hluta Evrópu sem varð þeirra áhrifasvæði við skiptingu álfunnar í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Sonnenfeldt komst svo að orði, að það væri tvímælalaust hagsmunum Bandaríkjanna fyrir bestu að á kæmist það sem hann kallaði lífrænt samband milli Sovétríkjanna og þeirra Austur-Evrópuríkja sem nauðug eru á áhrifasvæði þeirra. Í máli hans lá að sjálfsögðu að þessi skipan mála tryggði á hinn bóginn best ítök Bandaríkjanna vestan markalínunnar um Evrópu þvera. Þessi gagnkvæmi stuðningur undir niðrí milli stórveldanna kemur líka í ljós þegar gáð er að því hvernig ráðamenn þeirra hvors um sig láta gagnvart því ríki Evrópu þar sem mest pólitísk óvissa ríkir sem stendur, þ.e.a.s. Ítalíu. Þar hafa Kissinger í Washington og Susloff í Moskvu látið frá sér fara yfirlýsingar sem hvorar tveggja miða tvímælalaust að því að hindra það að vinstri flokkar á ítalíu, og þá sérstaklega kommúnistar, geti náð valdaaðstöðu í landinu með þeirri stefnu sem þeir reka, þ.e.a.s. að verða svo áhrifamikill flokkur á þingi að Kristilegir demókratar hljóti að taka tillít til þeirra eða ganga til samstarfs við þá.

Kissinger segir að ótækt sé að fá kommúnista til áhrifa í NATO-ríki, og Susloff lætur á sér skilja að það sé verr en ekki að flokkar, sem ekki lúta forskriftum frá Moskvu, þótt kommúnistaflokkar heiti, hefjist til valda og áhrifa í Evrópuríkjum. Þetta er svo sem ekki ný bóla. Mörg dæmi slík hafa gerst fyrr og síðar. En þetta dæmi er alveg sérstaklega athyglisvert og skýrt og sýnir að Evrópuríki, hvort sem smá eru eða stór, þurfa sjálf að sjá fótum sínum forráð, en varast eins og heitan eldinn að fela risaveldunum forsjá sína. Og við íslendingar þurfum einnig að taka mið af því sem gerist í þessu máli og öðrum slíkum.

Reynsla okkar af NATO og af hersetu bandaríkjamanna hér á landi er orðin það löng og við mismunandi skilyrði og allra síðast við þau skilyrði að bandalagsríki okkar og Bandaríkjanna einnig hefur beitt valdi í skiptum við íslendinga. Af þessari þróun og þessari framvindu mála hljótum við að draga ályktanir þegar mótuð er stefna okkar í utanríkismálum um ókomna tíma. Við hljótum einnig að læra af þeim skjölum sem nýbirt eru um skipti Bandaríkjanna og Íslands á árinu 1949. Þar kemur skýrt fram að íslendingarnir, sem þá fóru til Washington, hafa fyrst og fremst verið að leita réttlætingar á afstöðu sem fyrir fram var mótuð. Hins vegar er ljóst af bandarísku gögnunum, sér í lagi þeim sem ætluð eru til heimanotkunar í Washington, að markmið bandaríkjamanna, þaulhugsað, vel undirbúið og framfylgt kappsamlega, var að gera íslendinga og Ísland háð Bandaríkjunum fjárhagslega á ýmsan hátt til þess að ná sem varanlegastri hernaðaraðstöðu á Íslandi. Það er að mínum dómi engum blöðum um það að fletta að þetta var kjarni málsins er þeir atburðir gerðust sem lýst er í þessum skjölum.

Nú hefur reynslan enn staðfest að það eru bandarískir hagsmunir, en ekki íslenskir, sem ráða því að bandarísk herstöð er hér í landinu. Bandaríkjastjórn getur ekki einu sinni séð af einni hraðsnekkju til þess að efla vanbúinn íslenskan landhelgisgæsluflota. Staðreyndirnar, sem nú liggja fyrir, hljóta að verða umhugsunarefni og umræðuefni, og eðlilegt er að Alþ. sé þar helsti umræðuvettvangur. En í skýrslu hæstv. utanrrh. er ekki fjallað einu orði um þessi mál. Þar er aðeins rætt um yfirstandandi framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli.

Ég held að öllum, sem þetta mál skoða án fyrir fram mótaðrar afstöðu, hljóti að koma saman um að lexían, sem við íslendingar eigum að læra af þessari reynslu, sé sú, að við eigum að treysta á sjálfa okkur og eigin forræði. Það er gagnslaus grilla að okkur sé nóg að hlaupa til bandaríkjamanna og biðja þá ásjár ef eitthvað bjátar á hjá okkur í samskiptum við aðra, bara af því að bandaríkjamenn sjá sér hag í því að hafa herstöð á Keflavíkurflugvelli. Málgögn Sjálfstfl. ólu á því í átökunum eftir útfærsluna í 50 mílur að einungis afstaða þáv. ríkisstj. til Bandaríkjanna og til herstöðvarinnar og til NATO væri þess valdandi að við þyrftum að troða illsakir við breta, bandamenn okkar. Þessi áróður kom nú í koll ríkisstj. sem Sjálfstfl. veitir forustu. Það var mikið tímanna tákn þegar sumir áköfustu herstöðvasinnar á Suðurnesjum voru svo vonsviknir af framkomu átrúnaðargoða sinna á heiðinni að þeir gerðust forsprakkar í aðgerðum gegn herstöðvunum og létu sem þeir væru albúnir að urða bandarísku hermennina eða drita þá inni að fornum sið, svo sem fornmenn gerðu þegar þeir vildu sýna öðrum sem megnasta fyrirlitningu.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég sérstaklega þakka utanrmn. og sér í lagi formanni hennar að mér hefur verið veitt tækifæri til að sitja fundi n. og fylgjast með störfum hennar þótt þingfylgi skorti okkur samtakamenn til að hljóta þar sæti. Mér er einnig ljúft að geta borið um að hæstv, utanrrh. hefur tvímælalaust sýnt að honum er hugleikið að hafa náið samráð við utanrmn. og greiða störf hennar.