20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

22. mál, viðgerðar- og viðhaldsaðstaða flugvéla á Keflavíkurflugvelli

Guðmundur G. Þórarinsson:

Virðulegi forseti. Mig langar til að leggja örfá orð í belg í framhaldi af þeirri till. sem Jón Skaftason alþm. hefur flutt hér.

Hér er hreyft ákaflega þörfu og mikilvægu máli. Þetta mál er mjög mikilvægt fjárhagslega fyrir íslendinga, og það mætti liða sundur sjálfsagt í marga þætti hversu æskilegt væri að færa þessa aðstöðu, viðhaldsaðstöðu og viðgerðaraðstöðu, inn í landið. Það er ekki bara það að við færum með þessu mikla atvinnu inn í landið og höldum hér sérþekkingu á sviði flugvirkjunar, heldur er um að ræða, eins og þm. gat um, gífurlega mikinn gjaldeyrissparnað. Jafnframt hlýtur það að vera öllum ljóst að íslendingar, sem búa á eyju norður í Atlantshafi, eiga ákaflega mikið undir flugsamgöngum, og má nær því segja að hér mundi reynast erfitt að halda uppi menningarlífi ef við hefðum ekki flugsamgöngur við aðrar þjóðir. Það hlýtur því að liggja í augum uppi hversu mikilvægt það er að íslendingar geti sjálfir að sem allra mestu leyti farið með viðhald flugflotans, en þurfi ekki að leita með það til erlendra þjóða.

Ástandið er raunar þannig í dag að aðstaða flugvirkja við vinnu og aðstaðan til viðgerðar og viðhalds á flugvélum íslenska flugflotans er lakari en mér liggur við að segja nokkur aðstaða sem fyrirfinnst á bílaverkstæði hér í borginni. Aðstaðan var tiltölulega góð á Reykjavíkurflugvelli fyrir brunann á skýli 5. En eftir þann bruna hefur skapast algjört neyðarástand í viðgerðarmálum flugvéla hér. Raunar er staðan þannig, að skýlin á Reykjavíkurflugvelli eru gömul, þau eru öll óupphituð og óeinangruð og þeim er illa við haldið. Þessi mál hafa verið í því horfi að ríkið hefur átt skýlin og á skýlin, en leigir þau til flugfélaga.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég kemst næst, er leiga skýlanna frámunalega lág. Leigugjald dugir tæpast fyrir fasteignagjöldum, hvað þá heldur eðlilegu viðhaldi á skýlunum. Í framhaldi brunans, sem á Reykjavíkurflugvelli varð, hefur mikið verið rætt um byggingu nýs skýlis, og allir eru sammála um nauðsyn þess að því máli sé flýtt eins mikið og unnt er. Hins vegar hafa skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli tafið það nokkuð. Í 15 ár hafa menn rætt það, hvernig skipulag Reykjavíkurflugvallar skuli verða, og raunar velta menn fyrir sér mjög framtíð flugvallarins. Nú liggur þó fyrir að í framhaldi af endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur, sem nú stendur yfir, muni takast að festa skipalag fyrir Reykjavíkurflugvöll á skipulagstímabilinu fram til 1990 og í framhaldi af því verði síðan unnt að staðsetja nýja skýlisbyggingu og koma a. m. k. viðhaldsaðstöðu flugvéla á Reykjavíkurflugvelli í viðunandi horf.

Ég hygg að þm. sé öllum kunnugt um það hvernig viðhaldsaðstaða og viðgerðaraðstaða íslenska flugflotans er í Keflavik. Þar hafa íslendingar á leigu hluta af einu skýli, sennilega lélegasta skýlinu á vellinum, og aðstaða þeirra er afmörkuð með máluðum línum, þar sem öryggisflugvélar og þyrlur varnarliðsins eru hinum megin við línurnar. Það er nánast þannig að íslendingar séu þarna gestir við þessa aðstöðu og aðstaðan er algjörlega ófullnægjandi. Þegar vinna þarf við flugvélar nákvæmnisvinnu við mótora og annað slíkt, þá er þarna að heita má sama hitastig inni í skýlinu og utan þess.

Ég held að það sé öllum ljóst, þegar rætt er um framtíðaraðstöðu fyrir viðhald og viðgerðir flugflotans hér, að viðgerðaraðstaða verður að vera einhver á Reykjavíkurflugvelli. Reykjavíkurflugvöllur er aðalinnanlandsflugvöllurinn, og við sjáum ekki fram á það um fyrirsjáanlega framtíð að því verði breytt, þó að uppi séu raddir um að sambýli borgarinnar og flugvallarins gerist æ erfiðara. Það er því alveg ljóst að fyrir innanlandsflug íslendinga verður að koma upp viðunandi viðgerðaraðstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Hjá því verður ekki komist. En síðan snýr málið að viðgerðaraðstöðu fyrir millilandaflug íslendinga, og allir eru sammála um það, hygg ég, að slík aðstaða ætti eðli sínu samkvæmt að vera í Keflavík.

Menn ræða mikið um hagkvæmni þess að færa þessa þjónustu inn í landið. Ég vil sérstaklega geta þess, og ég hygg að það muni það allir hér, að þegar Flugleiðum var veitt ríkisábyrgð á sínum tíma fyrir lánum, þá var mikið rætt um það og raunar ákveðið að sérstaklega skyldi könnuð hagkvæmni þess að færa viðhald flugflotans í sem mestum mæli inn í landið. Það var raunar, að ég hygg, að mestu fyrir frumkvæði hv. þm. Jóns Skaftasonar að það mál komst í sviðsljósið. En menn verða að hafa það í huga þegar menn ræða það hvort slíkt sé hagkvæmt. Þar kemur geysilega margt til greina. Þær forsendur, sem lagðar eru til grundvallar, skipta höfuðmáli um niðurstöðuna. Hvaða flugflota eru menn að ræða um? Eru menn að ræða eingöngu um Flugleiðaflotann, eru menn að ræða um allan íslenska flugflotann, eru menn jafnvel að ræða um viðhald á vélum hersins með eða hvaða forsendur eru það sem menn ganga út frá, og hver á að eiga slíka viðhaldsaðstöðu? Það skiptir meginmáli. Slíkt þarf könnunar við, og það er enginn vafi að það er glettilega flókið. Ég hygg að athugun á þessu sé hafin eftir að Jón Skaftason alþm. flutti þetta mál inn í Alþ. á síðasta ári, og ég hygg samt að það sé mjög þarft að hann endurflytur það hér og hreyfir þessu aftur til að ýta við málinu. Ég vil sem sagt sérstaklega vekja athygli þm. á því að viðhaldsaðstaðan er í algjöru ófremdarástandi, eins og hún er núna, og hér er um að ræða viðamikið mál, þjóðhagslega mikilvægt mál og nauðsynlegt að hraða þeirri athugun sem hv. þm. fer fram á.