20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

39. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Sú skrýtla er höfð eftir Jónasi Jónssyni frá Hriflu að hann þekkti engan heimskan mann í Húnavatnssýslu, þeir séu allir öllum öðrum gáfaðri. En í haust kom upp vísa sem hljóðaði svo:

Ég í Húnaþingi þekki

þrjátíu eða hér um bil

sem Hriflu-Jónas hafði ekki

hugmynd um að væru til.

Nú segi ég ekki þessi orð vegna þess að ég skoði þm. Pál Pétursson og vin minn Pálma Jónsson heimska menn. En ég segi þetta að gamni mínu, af því að Páll var að víkja að ætterni mínu og uppruna, að það má lengi toga það á víxl hvor er skynsamari í afstöðu sinni til mála, þingeyingurinn eða húnvetningurinn. En rétt þykir mér að það komi fram, vegna þess að Páll sagðist vera löngu kominn yfir það að vera ekki nógu gamall til að kjósa mig í gamla daga, að hann má gjarnan koma því til foreldra sinna að ég er þeim þakklátur enn í dag og vonast til að ég komist aldrei yfir þakklæti fyrir þau kynni sem ég hafði af þeim þegar ég var þar í framboði. Annars sé ég ekki að ég þurfi mjög mikið að svara ræðum þm. Pálma og Páls því að það gerði Sighvatur Björgvinsson skörulega áðan. Hitt þykir mér öllu leiðinlegra, að heyra menn, sem virðast vera mér sammála í höfuðatriðum, aðallega vera að nudda gegn þessu máli af afbrýðisemi yfir því að Alþfl. hafi orðið á undan Alþb. að flytja svo ágætt mál. Ég vil þakka hv. þm. Helga F. Seljan fyrir þau ummæli hans að í höfuðdráttum sé hann meðfylgandi því sem í þessari þáltill. felst, — sem ég líka tel höfuðmarkmiðið og ástæðuna fyrir að till. er flutt, að þjóðin öll eigi að eiga virkjunarrétt fallvatnanna og jarðhitann og að engum eigi að líðast að taka stórfé af því að selja fólki eða við skulum segja kaupstöðum fyrir of fjár land sem kaupstaðirnir þurfa vegna síns vaxtarrýmis. Ég fagna því að ég þykist heyra að þessir ágætu þm., Helgi Seljan og Stefán Jónsson, eru inni á þessu máli sem ég tel vera höfuðmarkmið í þáltill.

En svo að ég víki að orðum síðasta ræðumanns, þá vil ég minna hann á að hann fór ofurlítið skakkt með hvernig málshátturinn hljóðar. Hann hljóðar svona: „Að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi“, þ. e. a. s. hugsunarháttur málsháttarins er þessi: Það er reynt að hefna með ofbeldi þess sem ekki var hægt að koma fram með réttlæti á Alþ., þar sem lög og reglur eiga að gilda. Ég vil segja líka í þessu sambandi að mér finnst það einkennilegur hugsunarháttur hjá hvaða manni sem er að hann sé á móti till. vegna þess að hann gruni að á bak við flutninginn sé eitthvað sem hann felli sig ekki við. Er hann ekki með till. vegna þess hvað í till. felst? Ef hann hugsar rétt á það ekkí að þvælast fyrir honum hvað hann gruni hvað kannske felist á bak við till. Ef ég væri aldrei með neinu sem Stefán Jónsson flytti hér á Alþ., vegna þess að mig grunaði að hann væri með einhverja bakþanka sem ég felldi mig ekki við, hvert lentum við þá, alþm., með fylgi okkar við mál ef við hugsuðum svona? Þetta finnst mér — ja, mér liggur við að segja svo barnalegur, einfeldningslegur hugsunarháttur að ég gat ómögulega setið mig úr færi að koma hér upp og finna að slíkum hugsunarhætti.