11.12.1975
Neðri deild: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Þegar samningar um álverið voru gerðir 1966 stóðu íslendingar á tímamótum um stefnumörkun í tveimur stórmálum, annars vegar hvert skyldi stefna um virkjanir hér á landi og hins vegar hverjar leiðir skyldi fara til þess að reyna að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf okkar íslendinga. Varðandi virkjanir og orkumál þá var á þessum tíma að mestu lokið virkjun Sogsins, sem var stórvirki á sínum tíma. Niðurstaðan varð sú að ráðast í virkjun Þjórsár við Búrfell og um leið að semja við svissneska álfélagið um byggingu álvers. Þarna voru sameinuð þessi sjónarmið: annars vegar að ráðast í stórvirkjun sem hefði verið lítt möguleg ef ekki væri um leið um stóriðju að ræða sem keypti verulegan hluta orkunnar og hins vegar stórt atvinnufyrirtæki sem bæði mundi útvega fjölda manns vinnu og afla okkur mikils gjaldeyris.

Á þessum grundvelli voru þessir samningar gerðir, og það er óhætt að slá því föstu að með þessum hætti var hægt að tryggja almenningi ódýrara rafmagn heldur en ella hefði verið hægt, ef ráðist hefði verið í smærri virkjanir.

Nú þegar liðin eru tæp 10 ár frá undirskrift þessa samnings er rétt að renna augum yfir þýðingu hans og áhrif fyrir íslenskt þjóðfélag.

Á þessu tímabili hafa hreinar gjaldeyristekjur af álverinu orðið samtals 68 millj. Bandaríkjadala. Jafnvirði þeirra í íslenskum kr. er 6000 millj. kr. á gengi hvers tíma. Þar af eru hreinar gjaldeyristekjur vegna rekstrar rúmlega 51 millj. dala. Tekjur skiptast í þrjá meginflokka: framleiðslugjald, raforkusala og vinnulaun og aðkeypt þjónusta.

Um 650 manns starfa nú að staðaldri hjá Íslenska álfélaginu. Þar af eru aðeins þrír erlendir ríkisborgarar.

Sölu raforku á árunum 1969, þegar verksmiðjan hóf starfsemi, til 1974 nam tæplega 14 millj. Bandaríkjadala eða 1265 millj. ísl. kr. Á þessum sömu árum hefur hún greitt um 500 millj. kr. í framleiðslugjald.

Á síðustu árum hafa orðið mikil umskipti á orkumörkuðum heimsins, fyrst og fremst vegna hinnar miklu verðhækkunar á olíu er hófst haustið 1973. Þegar samningurinn um álverið var gerður var hins vegar nokkuð stöðugt verðlag á orku og áli og gert ráð fyrir því að það stöðuga verðlag héldist í meginatriðum og samningurinn við það miðaður, m. a. varðandi ákvörðun um rafmagnsverðið. Eftir hin snöggu umskipti varðandi orkuverð þótti eðlilegt að teknar væru upp viðræður við svissneska álfélagið sem miðuðu að því að fá breytingu fyrst og fremst á rafmagnsverðinu. Það var haustið 1973 sem þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, átti viðræður við fulltrúa álfélagsins um breytingar á samningsákvæðum um rafmagnsverð, en þær viðræður leiddu ekki til árangurs.

Rétt eftir stjórnarskiptin á s. l. hausti — eða í sept. 1974 — hóf ég viðræður við fulltrúa svissneska álfélagsins og ÍSALS um þessi mál. Þeim var haldið áfram í okt. og síðan var næsti fundur haldinn í jan. Viðræðunefndinni um orkufrekan iðnað var falið að fylgja þessu máli eftir í nánu samráði við iðnrn. og ríkisstj. Hefur hún gert það ötullega. Í viðræðunefndinni um orkufrekan iðnað eru þeir dr. Jóhannes Nordal, formaður, Ingi R. Helgason hrl., Ingólfur Jónsson alþm., Ragnar Ólafsson hrl., Sigþór Jóhannesson verkfræðingur og Steingrímur Hermannsson alþm., en n. til aðstoðar hafa verið einkum Garðar Ingvarsson hagfræðingur og Hjörtur Torfason hrl.

Niðurstaðan af þessum viðræðum, sem nú hafa staðið nær óslitið í rúmt ár, eru þær sem liggja fyrir í því frv. sem hér hefur verið lagt fyrir Alþ. Með því er farið fram á að Alþ. staðfesti samkomulag um breytingar sem felast í þeim samningum er fylgja þessu frv. Margar af þeim breytingum eru formsatriði sem einna mest leiðir af ákvæðunum um stækkun álver síns sem ég mun koma að síðar. En ef dregin eru saman meginatriði málsins, þá var að því stefnt með þessum samningsviðræðum að fá hærra rafmagnsverð en samið hafði verið um áður, að auka heildartekjur íslendinga af álverinu og gera þær öruggari, að leysa ýmis ágreiningsmál sem upp höfðu komið, sérstaklega í sambandi við framleiðslugjaldið, og reyna að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á ágreiningsefnum. Þá er að því stefnt að gera þessi mál einfaldari í framkvæmd en þau höfðu reynst og taka til athugunar stækkun á álverinu, þ. e. a. s. stækkun á öðrum kerskálanum, þannig að hann yrði svipaður og hinn fyrsti.

Ég skal fyrst víkja að rafmagnsverðinu. Í núgildandi samningi er svo ákveðið að verð fyrir hverja kwst. rafmagns skuli vera 3 mill, en mill er eins og kunnugt er þúsundasti hluti af Bandaríkjadal. Þetta verð skyldi gilda frá byrjun og til 1. okt. 1975, en þá skyldi verðið breytast úr 3 mill niður í 2.5 mill og standa þannig fram til 1. okt. 1984. Eftir það skyldi verðið vera áfram 2.5 mill, en þó að viðbættri hækkun sem kynni að leiða af breytingum á rekstrarkostnaði Búrfellsvirkjunar og skyldra varavirkja. Um þessi verðákvæði var samið til 25 ára.

Þegar viðræður voru teknar upp við svissneska álfélagið um breytingar á raforkuverðinu, þá lá það fyrir og var á það bent af viðsemjanda að samningurinn væri bindandi og þeim bæri engin skylda til að breyta þar frá, þó að orkuverð á heimsmarkaði hefði breyst, fremur en þeir hefðu átt rétt á lækkun rafmagnsverðs frá því, sem samningurinn sagði til um, ef orkuverð hefði lækkað. Þrátt fyrir þetta hefur tekist að fá samkomulag um verulega hækkun á orkuverðinu í sambandi við ýmis önnur atriði, eins og breytingar á fyrirkomulagi skattgjaldsins og stækkun álversins.

Í þessum samningsdrögum er gert ráð fyrir að nýtt orkuverð gildi frá 1. okt. 1975, þ. e. frá þeim degi þegar það átti samkv. samningnum að lækka úr 3 mill. í 2.5. Samningurinn felur það í sér að sú lækkun komi ekki til framkvæmda, heldur skuli rafmagnsverðið 3 mill gilda til loka ársins 1975. Við næstu áramót skal það hækka í 3.5 mill um 6 mánaða skeið, en frá 1. júlí næsta ár, 1976, á það að hækka upp í 4 mill. Orkuverðið er þá orðið frá 1. júlí 1976 60% hærra en það mundi vera samkv. gildandi samningi, úr 2.5 mill upp í 4 mill. Síðan mundi það frá 1. jan. 1978 fylgja álverði eftir sérstökum reglum, þannig að fyrir hvert cent, sem eitt pund af áli hækkar skuli orkuverðið hækka í vissu hlutfalli, um vissa hundraðstölu. Hér er því um að ræða verulega hækkun á orkuverðinu sem kemur þegar til framkvæmda og fer síðan hækkandi stig af stigi á næstu árum. Annað, sem er mjög mikilsvert, er, að síðan er rafmagnsverðið tengt álverði, þannig að þegar álverð hækkar fylgir orkuverðið þar með til hækkunar í ákveðnu hlutfalli. Reynslan hefur orðið sú á undanförnum áratugum, — þegar ekki er tekinn samanburður milli tveggja til þriggja ára, heldur litið yfir lengra tímabil, — að verð á áli hefur að meðaltali hækkað um 2.5–5% á ári. Eru settar upp töflur, sem fylgja þessu frv., til að sýna hvernig bæði orkuverð og skattur koma út miðað við mismunandi hækkun álverðs á þeim tíma sem eftir er af samningstímabilinu.

Þá er gert ráð fyrir því í samkomulaginu, að ÍSAL stækki verksmiðjuna þannig að það fullgeri hinn svokallaða annan kerskála, sem þýðir það að framleiðslan mundi aukast á ári um 10 700 tonn, en til þess þarf rafafl 20 mw. Þessi 20 mw. skiptast þannig að 8 mw. yrðu forgangsorka, en 12 mw. afgangsorka. Þetta tilboð til ÍSALS gildir til ársloka 1979, en ÍSAL verður að tilkynna Landsvirkjun með árs fyrirvara ef fyrirtækið hyggst nota þennan rétt sinn til kaupa á þessari orku. Sú tilkynning yrði því að berast fyrir árslok 1978, en það er rétt að taka það fram, að gert er ráð fyrir að þessi heimild verði notuð og í þessa stækkun álversins ráðist.

Varðandi þessi tvö atriði, breytingu á rafmagnsverðinu og stækkun verksmiðjunnar, er rétt að rekja hér fáein atriði úr umsögn Landsvirkjunar, sem einnig eru prentuð sem fskj. með frv. Þar segir svo m. a., með leyfi forseta:

„Verð á raforku til ÍSAL hækkar mjög verulega frá núverandi samningi. Þannig er gert ráð fyrir að núverandi verð, 2.5 mills, hækki þegar í stað í 3 mills og strax í byrjun næsta árs upp í 3.5 mills, sem jafnframt verður lágmarksverð á raforku það sem eftir er samningstímans. Síðan á miðju ári 1976 hækkar verðið upp í 4 mills og nemur þá hækkunin frá núverandi samningi 60%.“

Síðan segir í þessari umsögn Landsvirkjunar: „Líklegt þykir að heimsmarkaðsverð á áli hækki á bilinu 2.5–5% á ári yfir samningstímabilið og er því mjög mikilvægt að fá þetta ákvæði inn í samninginn, þar sem öll líkindi eru á því að það leiði af sér verulegar hækkanir á raforkuverðinu í framtíðinni. Þetta er mikil bót á núverandi samningi sem ekki hefur teljandi verðhækkunarákvæði á raforku.“

Landsvirkjun telur einnig að þessi samningur muni leiða til þess að hún þyrfti ekki nú í byrjun næsta árs að fara fram á hækkun á orkuverði til almennings sem Landsvirkjun hefur talið óhjákvæmilegt að gera ella, en mundi falla frá og telja óþarft ef tekjuauki kæmi frá álverinu samkv. þessum samningi.

Varðandi stækkun álversins segir Landsvirkjunarstjórn:

„Samningsuppkastið gerir ráð fyrir lengingu seinni kerskála ÍSAL til jafns við þann fyrri. Þessi lenging gerir það að verkum að Landsvirkjun getur selt sem svarar 20 mw. af afli í viðbót við þau 140 mw. sem núverandi samningur gerir ráð fyrir. Af þessum 20 mw. verður hægt að selja 60% af samsvarandi orku sem afgangsorku með sömu skilmálum og í samningnum við járnblendiverksmiðjuna. Þessi aukna orkusala er Landsvirkjun mjög hagstæð. Forgangsorkuverð í ofangreindri viðbótarsölu samsvarar rúmum 10 mills á kwst., sem er hliðstætt eða betra en það verð sem samdist um til járnblendiverksmiðjunnar.“

Að lokum segir svo í umsögn Landsvirkjunar: „Þessi aukna orkusala skerðir ekki öryggi orkuafhendingar til almenningsveitna.“

Með þessum samningsdrögum er framleiðslugjaldinu einnig breytt verulega. Því er breytt frá núgildandi ákvæðum í lágmarksskatt sem greiða ber mánaðarlega á skattárinu og er lágmarksskatturinn eða grunntaxti gjaldsins 20 dalir á tonn eða sem svarar 1.5 millj. dala á ári við fulla framleiðslu, þ. e. 75 þús. tonn, án stækkunar. Ef álverð hækkar umfram 40 cent á pund, — en það mun nú vera 39 cent, — þá fer framleiðslugjaldið hækkandi eftir ákveðnum stiga, sem er hirtur og rakinn í frv. og fskj. þess, þannig að ef álverð hækkar t. d. úr 40 upp í 50 cent á pundið, þá hækkar framleiðslugjaldið um 90% af þeirri hækkun. Það hlutfall fer svo lækkandi eftir því sem verðlækkun á áli verður meiri. Um framleiðslugjaldið gildir sú hámarkstakmörkun samkv. samningsdrögunum að hækkun þess vegna stigbreytinga má ekki leiða til skattlagningar umfram 55% af nettótekjum ÍSALs, en í gildandi samningum er hámarkið 50%. Þá hefur verið tekið upp nýtt tekjulágmark, þannig að framleiðslugjaldið í heild má aldrei vera lægra en 35% af nettótekjunum.

Í sambandi við framleiðslugjaldið er rétt að taka það fram, að lögð var áhersla á það af Íslands hálfu að tryggja lágmarkstekjur af framleiðslugjaldinu samtímis því sem tryggð yrði viðunandi hlutdeild í hagnaði. Hið nýja kerfi, sem tryggir verulegar lágmarksgreiðslur ÍSALs, gerir jafnframt ráð fyrir þessari sérstöku tengingu framleiðslugjaldsins við hækkandi álverð og ætti þetta hvort tveggja að tryggja að því markmiði yrði náð sem nefnt var.

Þau ár, sem álverið hefur starfað, hefur ágreiningur risið um svokallaða skattinneign. Þegar fastagjaldið eða framleiðslugjaldið hefur verið greitt og síðan er afkoma fyrirtækisins gerð upp eftir árið, þá er samkv. gildandi samningi svo ákveðið að heildargjaldið skuli þó aldrei vera hærra en 50% af nettóhagnaði fyrirtækisins, þó með vissum lágmarksákvæðum. Við þetta hefur sum árin skapast inneign, skattinneign, og það hefur verið og er ágreiningur milli þeirra lögfræðinga, sem fjallað hafa um málið af okkar hálfu, og lögfræðinga svissneska álfélagsins um hvernig beri að túlka samningsákvæði varðandi þessa inneign, sérstaklega hvað gera skuli við þá skattinneign sem kann að verða er 25 ára samningstímabilinu lýkur. Með þessum nýja samningi er hvort tveggja, að samið er um ákveðna lausn á þeim vanda, sem þegar hefur skapast í þessu efni, og auk þess reynt að koma í veg fyrir slíkan ágreining framvegis með skýrari og einfaldari ákvæðum.

Í töflum, sem fylgja fm., eru gerðar áætlanir um greiðslur verksmiðjunnar vegna orku og skatta fyrir 5 ár, fyrir 10 ár og fyrir 19 ár og miðað við mismunandi forsendur, eftir því hver hækkun er áætluð á álverði og hvort reiknað er með stækkun verksmiðjunnar. Ég skal ekki fara frekar út í þær töflur.

Þegar litið er á þessi samningsdrög í heild, þá held ég að unnt sé að fullyrða að þau leiði til meiri og öruggari tekna í heild fyrir íslendinga heldur en ef áfram stæðu óbreytt samningsákvæði þau sem nú gilda. Auk þess hefur þessi samningur það í för með sér að eytt er vissum ágreiningsmálum og ýmislegt gert einfaldara í framkvæmd.

Ég vænti þess, að þessu frv. verði vel tekið í hv. d. og að dm. fallist á það að hér sé um hagsbót að ræða fyrir landið.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.