25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Það eru fáein atriði sem fram komu í umr. hér s.l. fimmtudag sem ég þarf að fara um nokkrum orðum.

Í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., Inga Tryggvasonar, kom fram grundvallarmisskilningur að því er mér sýnist, en kannske ekki honum. Það er að þær tvær till., sem hér liggja fyrir um vegamál, gangi hvor gegn annarri, eins og ég held að hann hafi orðað það, þ.e.a.s. till. sú, sem ég mælti hér fyrir, og till. sú, sem hann er 1. flm. að um að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins. Það er að mínu viti rangt að þessar till. gangi hvor gegn annarri. Till. okkar um lagningu bundins slitlags á þjóðvegi er um framkvæmdir, en hin till. er um gerð áætlunar, kostnaðaráætlunar, miðað við 4–6 ára framkvæmdatíma. Ég get því ekki séð að þessar till. gangi hvor gegn annarri, og ég get lýst því strax yfir að ég styð þá till., sem hv. þm. Ingi Tryggvason er 1. flm. að, og ég vona jafnframt að í kjölfar þeirrar áætlunar, sem þar er gert ráð fyrir að verði gerð, fylgi framkvæmdir. Mönnum hlýtur að vera ljóst að forsenda fyrir því, að lagt sé bundið slitlag á þjóðvegina, er að þeir verði byggðir upp. Við erum ekki aðeins að biðja um að lagt verði slitlag á þá ca. 830 km, sem Vegagerðin telur að þurfi ekki sérstaka undirbyggingu. Við gerum ráð fyrir að það verði lagt á alla þá vegi sem þessi till. okkar nær til, þ.e.a.s. um 2300 km. En forsenda þess er, eins og ég sagði, að áfram verði unnið að uppbyggingu þjóðvegakerfisins.

Ef hins vegar er um það að ræða í hugum þessara manna, sem hér töluðu um daginn, og kannske einhverra fleiri að leggja ekki slitlag á vegi fyrr en lokið er við að koma vegunum upp úr snjónum, eins og það er orðað og eins og mér fannst koma fram í umr. um daginn, þá erum við ekki lengur á sama máli. Þá er komin upp spurningin um forgang og röðun verkefna ef ekki á að vinna að nema einu verkefni í einu. En það er hins vegar ekki ætlun okkar flm. till., eins og ég vona að mönnum hafi skilist, að samþykkt hennar verði á kostnað annarra framkvæmda í vegagerð í landinn. Það er ekki ætlunin með flutningi þessarar till. að stöðva aðrar framkvæmdir. Ætlunin með henni er að auka framkvæmdir við lagningu slitlags, fá meira fé til vegagerðar vegna þess, og umfram allt breytta stefnu sem hefur í för með sér betri nýtingu þess takmarkaða fjármagns sem er til ráðstöfunar. Lagning bundins slitlags er því ekki framtíðarverkefni sem verður að þoka fyrir öðru sem er brýnna, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. orðaði það. Þetta er verkefni sem þarf að snúa sér að strax.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, sagðist ekki heldur vera því sammála að leggja slitlag á alla kafla hringvegarins vegna ísingarhættu. Ég hélt nú að skoðanir sem þessar væru ekki lengur bornar á borð fyrir menn. Við munum vel eftir þessu þegar var verið að leggja Keflavíkurveginn. Þegar var verið að steypa hann, þá átti það að hafa í för með sér gífurlega mikla slysahættu eða aukningu slysatíðni. Sama var þegar lagt var slitlag á Hellisheiðarveginn, þá var illa spáð, slys mundu stóraukast einmitt vegna ísingarhættunnar. Ég þekki þetta líka af því sem ég hef lesíð af umr. í Noregi þegar þar var tekin ákvörðun um að leggja slitlag á næstum allt vegakerfið. Þar er víða svipað veðurfar og hér og mikil ísing á þjóðvegum, og þá var jafnilla spáð í sambandi við þetta. En raunin hefur orðið allt önnur og mönnum hefur orðið það ljósara að mesta slysahættan er einmitt á malarvegunum. Það hefur sýnt sig að slysatíðni minnkar einmitt við lagningu slitlagsins.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði svo reyndar alveg skýrt og skorinort að hann væri ekki samþykkur þeirri stefnumörkun sem fram kæmi í till. en benti hins vegar á sína till. Ég hlýt að skilja þessi orð svo, að ekki eigi að hugsa frekar um lagningu slitlags fyrr en þeir vegir, sem nú hafa ekki verið upp byggðir og teppast í snjóum, hafi verið byggðir upp. Og þar gildir þá jafnvel einu hvort um er að ræða mikilvæga tengivegi milli byggðarlaga, eins og t.d. yfir Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði, sem voru nefndar í ræðu þm., eða þá afdala- og útnesjavegi. Þetta er vissulega hreinskilnislega mælt. En mér finnst leitt til þess að vita að slík þröngsýni skuli ráðandi í hugum einstakra þm. Ég tek þó fram að ég skil vanda þeirra sem búa í snjóahéruðunum, en ég get hins vegar ekki viðurkennt að vegir í þeim héruðum eigi að hafa slíkan forgang um framkvæmdir sem mér sýnist þessi hv. þm. vilja. Auðvitað eiga þeir vegir að hafa forgang þar sem umferð er mest.

Hv. 9. landsk. þm., Sigurlaug Bjarnadóttir, sagðist reyndar ekki viðurkenna að umferðin væri meiri um hringveginn en ýmsa aðra vegi. Þetta má rétt vera. En um þetta held ég að við þurfum ekkert að deila, það eru til umferðartalningar víðast hvar að af landinu og á flestum vegum. En hringvegurinn er hins vegar tengivegur milli hinna ýmsu byggðarlaga og hann eða vissir hlutar hans kunna vel að vera dæmi um það, að það er ekki eingöngu umferðarþunginn sem ræður framkvæmdaröð. Ég gæti nefnt ýmis dæmi nm það, að ef við miðuðum eingöngu við umferðarþunga, þá hefði ekki átt að leggja í stórkostlegan kostnað við ýmsar framkvæmdir í vegagerð. Ég nefni sem dæmi veginn um Strákagöng á Siglufjarðarvegi. Ég nefni sem dæmi veginn um Ólafsvíkurenni og um Búlandshöfða. Allir þessir vegir eru með tiltölulega litla umferð. En ég býst ekki við að nokkrum blandist hugur um það í dag, að það var nauðsyn að ráðast í þær fjármagnsfreku framkvæmdir sem þar áttu sér stað. Þarna er verið að tengja byggðarlög, t.d. Siglufjörð við þjóðvegakerfi landsins, og á norðanverðu Snæfellsnesi er verið að tengja saman þéttbýlisstaðina. Ég held að allir hljóti að vera sammála um nauðsyn slíkrar vegagerðar þótt umferðarþunginn sem slíkur kalli ekki á þessar framkvæmdir.

En meginmálið í ræðu hv. 9. landsk. fannst mér vera sá skelfilegi ótti sem fram kom við lántökur ef lagt yrði í slíkar framkvæmdir sem við erum að tala hér um, og þá einkum ef um er að ræða erlendar lántökur, og þm. lét í ljós sérstök vonbrigði með að heyra slíkt frá stuðningsmönnum ríkisstj. Það hljóta þá náttúrlega að vakna spurningar um það, til hvaða framkvæmda við eigum að leyfa okkur að taka erlend lán. Það voru nefndar orkuframkvæmdir, og ég býst við að allir séu sammála um það, að til slíkra framkvæmda þurfum við að taka erlend lán. En þegar kemur til annarra framkvæmda, þá eru menn sjálfsagt ekki lengur sammála. Eigum við að taka lán til þess að byggja skóla? Ég býst ekki við því að menn væru sammála um það. Eða til að byggja sjúkrahús? E.t.v. mundu einhverjir vilja það, aðrir ekki. En mér sýnist engin goðgá að taka lán til vegaframkvæmda ef þær ern svo mikilvægar sem við teljum, flm. þessarar till., að þær framkvæmdir séu sem við leggjum til að ráðist verði í. Það er vegna eðlis þessara framkvæmda og vegna þess að þær eru óumdeilanlega arðbærar framkvæmdir.

Eins og ég minntist á í framsöguræðu minni, þá hafa aðrar þjóðir gert þetta og talið sér það nauðsynlegt, og ég nefndi þar sérstaklega norðmenn. En ég tek það jafnframt fram, að við leggjum ekki áherslu á þessa lántöku. Það er ekki megininntakið í okkar tillöguflutningi. Megininntakið í okkar tillöguflutningi er það, að fjármagnið, sem Vegasjóður hefur yfir að ráða, verði nýtt með öðrum og betri hætti heldur en hefur verið gert, en jafnframt að skattlagningin af umferðinni gangi meira til vegagerðar heldur en hún gerir nú.

Hv. 9. landsk, sagði einnig að það væri ódýrara verkefni að taka fyrir þeirra áhugamál, eins og ég held að það hafi verið orðað, þ.e.a.s. að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins. Það má vel vera að það sé kostnaðarminna verkefni, ég veit það ekki. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að sú áætlun verði gerð sem sú till. gerir ráð fyrir.

Þá sagði þm. líka að samþykkt till. okkar þýddi að það yrði dregið úr öðrum framkvæmdum í vegagerð, þ. á m. að koma vegunum upp úr snjónum, og í því sambandi sagði þm., ef ég les það hér upp, með leyfi forseta: „Það var talað um af hálfu flm. að að því er varðaði fjármögnun þessarar till. væri um þrjár leiðir að ræða: 1) að draga úr öðrum framkvæmdum, 2) meira lánsfé, 3) auknar fjárveitingar.“

Þarna er nú einhver misskilningur á ferðinni. Við höfum — og ég ítreka það enn — við höfum aldrei talað um að draga úr öðrum framkvæmdum í vegagerð. Við bentum á þrjár leiðir til þess að fjármagna þetta. Það voru framlög úr Vegasjóði og innlend eða erlend lántaka ef þörf krefur og eftir nánari ákvörðun Alþ. síðar. Ég ítreka það því enn, að það er ekki tilgangurinn með flutningi till. að draga úr öðrum framkvæmdum, og ég vona að ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., Ingi Tryggvason, kom með dálítið einkennilega röksemdafærslu, ef ég hef skilið hann rétt. Hann nefndi það að helmingur landsmanna æki á bundnu slitlagi daglega og þessir landsmenn búi í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi. Þm. upplýsti líka að af tæplega 3000 km vegakerfisins, sem teldust ófullnægjandi eða slæmir, væru ekki nema rúmlega 200 í Reykjaneskjördæmi og Suðurlandskjördæmi, og ég skildi þetta svo, að við ættum því ekki að snúa okkur að því að leggja slitlag á vegina. Ég skil satt að segja ekki svona röksemdafærslu. Mér finnst að þessar tölur, sem þm. nefndi, bendi einmitt til þess að nú eigum við fyrir alvöru að fara að snúa okkur að öðrum landshlutum heldur en þessum sem hafa fengið þó þessa 160 km, sem er nú allt og sumt sem búið er að leggja af slitlagi á allt okkar vegakerfi. Mér sýnist að þessar upplýsingar þm. renni einmitt stoðum undir þá nauðsyn sem er að bæta hér úr, og út á það gengur till. okkar.

Ég á kannske ekki að segja það, en það læðist einhvern veginn að manni líka sá grunur að þeir hv. þm. að vestan, norðan og austan, sem töluðu í þessu máli s.l. fimmtudag, séu svona góðlátlega að benda okkur flm. till. á að vera ekkert að skipta okkur af vegamálum í öðrum kjördæmum, okkur komi þau ekkert við, það sé nóg búið að dekra við Reykjanes og Suðurland og nú ætli þeir að ráða í sínum heimahögum. Ég vona nú samt að þeir meini þetta ekki svona. Ég vænti þess heldur að þeir þegi stuðning okkar við það, sem ég held að hljóti að vera þeirra áhugamál líka, að byggja upp vegakerfið úti um landið, í þeirra kjördæmum líka, því þetta er óumdeilanlega mál allrar þjóðarinnar.

Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, býsnaðist hér yfir því að tveir stjórnarþm. kæmu hér með till. um milliarðaútgjöld, og hann spyr hvert við séum eiginlega að fara, Jú, hann sagði að ég mundi náttúrlega fá mynd af mér í Morgunblaðinu — og hún er þegar komin — og Jón Helgason kannske í Tímanum — ég hef ekki fylgst með því, kannske er hún komin þar líka - og við fengjum hól fyrir flutning á góðu máli, en hinir fengju bágt fyrir að taka ekki undir svona gott mál, svona mætti ekki að þessu standa og þetta væri nánast sýndarmennskan einber. Mér verður nú á að spyrja, þegar stjórnarandstæðingar flytja mál hér á þingi, hvort það sé bara til að sýnast. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir gangi út frá því sem gefnu að þeir fái allar sínar till. samþ., hversu góðar sem þær nú kunna að vera. En ég vænti þess að menn skilji það, að við flm. þessarar till. meinum það sem við erum að segja og við væntum stuðnings við þetta mál, Ég skildi hv. þm. Lúðvík Jósepsson svo, að hann væri til viðtals um að styðja þetta mál ef það ætti að taka féð sem þarf úr ríkissjóði. Eigum við þá ekki að standa saman um að reyna að fá meira fé af því sem umferðin er skattlögð í dag, fá meira fé til Vegagerðarinnar. Þannig hafa menn talað hér ár eftir ár, en því miður hefur allt of lítið miðað.

Þessi till. okkar þýðir vissulega útgjöld upp á nokkra milljarða kr. á framkvæmdatímabilinu. Það er alveg ljóst og við erum ekki á nokkurn hátt að reyna að leyna því. Ég tók það skýrt fram í framsöguræðu minni hvað þetta verkefni hugsanlega kynni að kosta. En till. þýðir fyrst og fremst mörkun stefnu, hvernig fjármagnið, sem umferðin gefur af sér, verði nýtt. Hún hefur það einnig í för með sér, ef samþ. verður, að Alþ. setji sér það mark að koma vegakerfi okkar í það horf sem þekkist hjá siðuðum þjóðum. En til þess verða menn að hafa dug í sér til að viðurkenna það hörmungarástand sem ríkir og umfram allt að ákveða röðun framkvæmda. Vegur með meiri umferð þjónar hagsmunum fleiri aðila og hann hlýtur því að ganga fyrir þeim vegi sem hefur litla umferð. Menn þurfa einnig að átta sig á því, að vöruflutningar til hinna ýmsu staða á landinu fara að langmestu leyti fram með bifreiðum og bætt vegakerfi hefur þess vegna afgerandi áhrif á kostnað við vörudreifinguna í landinu.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð, held ég, um það sem fram kom í ræðum manna hér á fimmtudaginn var. Ég hlýt að lýsa nokkrum vonbrigðum yfir því hve hv. þm., sem þá töluðu, voru neikvæðir gagnvart till. Það kom mér á óvart, vegna þess að hið bætta vegakerfi, sem við leggjum áherslu á, hlýtur að þjóna hagsmunum landsbyggðarinnar sérstaklega um leið og það bætir hag allra bifreiðaeigenda í landinu, eins og ég benti á, og það er þjóðhagslega mikilvægt hvernig sem á það er litið.

Ég legg að lokum áherslu á þetta: Við verðum að viðurkenna nauðsyn þess að leggja slitlag á vegina. Við höfum ekki efni á að framkvæma það á hinn fullkomnasta hátt, Þess vegna förum við fram á það að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum að í verkefnið verði ráðist með þeim hætti sem við leggjum til, gerðir verði nothæfir vegir — ég segi: nothæfir vegir, með því að leggja slitlagið á þá eins og þeir eru þar sem uppbyggingu þeirra er lokið. Það er ekki farið fram á að þetta verði gert á kostnað annarra framkvæmda í vegagerð. Það er hins vegar farið fram á að verkefnið bíði ekki þar til öðru er lokið. En síðar, þegar efnahagur batnar, getum við ráðist í að gera þetta allt með sem fullkomnustum hætti.