24.10.1977
Neðri deild: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar við vorum að byrja saman á Þjóðviljanum í gamla daga, ég og hv. þm. Magnús Torfi Ólafsson, þá skrifaði hann margt gott í blaðið. Og ég held ég megi segja, að honum hafi verið heldur ósýnt um að snúa út úr. Hann flutti yfirleitt mál sitt vel og heiðarlega.

Nú kemur það allt í einu upp úr dúrnum, að maðurinn er orðinn snillingur í að snúa út úr. Og hver skyldi vera ástæða? Getur hún verið sú, að hann hefur nú setið í 6 ár á þingi og verið þar af 3 ár ráðh.? Hvar hefur hann lært kúnstirnar?

Einn útúrsnúningurinn var sá, að með þeirri hugmynd minni, að athugað verði hvort þessir 976, sem fara á sinfóníutónleika í Reykjavík, séu e.t.v. alltaf sama fólkið og e.t.v. fólk af sama sauðahúsi, úr sömu stétt manna, t.d. menntamannastétt svonefndri, eða hvort sinfóníutónleikar væru sóttir af alþýðumönnum, þessa hugmynd mína túlkaði hann þannig, að ég væri að leggja til að efnt yrði til einhverjir skuggalegrar könnunar um persónuleg málefni, varaði við sem hann kallaði „tekjuflokkun“ eða „metorðaflokkun“ í menningarmálum. Mig tekur það sárt að finna hvað maðurinn er gríðarlega viðkvæmur fyrir þessari hugmynd. Það er engu líkara en hann telji persónulega nærri sér höggvið. Það, sem ég átti við með þessu, var einfaldlega það, að ef svo reyndist að alþýða manna sækti ekki sinfóníutónleika hér í Reykjavík, þá vildi ég fá athugun á því, hvað hægt væri að gera til þess að vekja áhuga alþýðu á sinfóníutónleikum.

Við vorum að rabba saman áðan ég og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson. Hann sagði: „Eftir að Þjóðleikhúsið tók til starfa, þá fengum við í Dagsbrún því til leiðar komið að laugardagssýningar væru ætlaðar okkur.“ Og þeir fylla Þjóðleikhús Íslendinga, verkalýðsfélagið Dagsbrún fyllir Þjóðleikhús Íslendinga laugardag eftir laugardag. Það kom í ljós að margir þeir menn, sem þarna fóru í leikhús, voru að gera það í fyrsta sinn. En síðan hafa þeir haldið uppteknum hætti. Hvernig væri nú að prófa eitthvað svipað í sambandi við sinfóníutónleika? Mér er til efs — mér er satt að segja til efs — að í þeim hópi, sem maður hittir fyrir í hléinu í Háskólabíói á sinfóníutónleikum, séu margir verkamenn. Og svona vil ég ekki hafa það, hv. þm. Magnús Torfi Ólafsson, svona vil ég ekki hafa það. Ég vil að alþýða manna njóti menningarinnar ekkert síður en það fólk sem telst til menntastéttar. Það er þetta sem fyrir mér vakir.

Hæstv. ráðh. leyfði sér sama útúrsnúninginn eða sama misskilninginn. Ég veit ekki, hvort menn verða svona tornæmir af því að vera menntmrh. (Menntmrh.: Er það reynsla hv. þm.?) Nei, það er ekki reynsla mín. En ég fer að verða uggandi varðandi þennan hæstv. menntmrh., ef hann fer að tala oft svona, vara við að efnt sé til athugunar á því, hvernig menn flokkast eftir stéttum varðandi menningarneyslu eða þátttöku í menningarlífi, vara við því, væri ekki nær að stuðla að því, að slík könnun fari fram, og ráða svo bót á því sem aflaga kann að fara?

Hæstv. menntmrh. lýsti því yfir að hann væri laglaus. Það er hann ekki. Ég hef heyrt hann syngja í sjónvarpi. Aftur á móti halda margir að þeir séu laglausir, og þetta stafar af vissri vanmetakennd. Ég hef orð þess mæta manns Jóns Ásgeirssonar tónskálds fyrir því, að ekkert sé til sem heiti lagleysi. Hins vegar séu sumir menn þjakaðir af þessu, þeir haldi sig laglausa. En það sé enginn vandi að laga þetta. Ég vísa á Jón Ásgeirsson til lækningar á þessari meinsemd. En Jón sá er nú reyndar — af því að ég minnist á hann — einn þeirra manna sem sannarlega hefur tekið til hendinni sem tónskáld eftir að hinir miklu möguleikar opnuðust, þar sem er Sinfóníuhljómsveitin og svo náttúrlega Þjóðleikhúsið, með sinni miklu óperu og fleiru slíku, sem hann hefur unnið gott. Þökk sé honum fyrir það. Og þökk sé fleiri slíkum fyrir góð verk. En ég sný ekki aftur með þá fullyrðingu mína, að þetta hefur ekki verið nógu mikið. Starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur ekki borið þann árangur sem hún hefði átt að bera á þessu sviði. Það er eitthvað að þarna.

Fullyrðing hv. þm. Magnúsar Torfa, að ég hafi verið að býsnast yfir því, að ekki væru leiknir aðrir en gömlu meistararnir, ég vísa þeirri fullyrðingu beint til föðurhúsanna. Ég sagði að til þess ætti leikurinn að vera gerður að efla sköpunargáfu okkar íslendinga á sviði lista. Ég taldi að þetta hefði heppnast í sambandi við leikhúsin, en ekki að sama skapi í sambandi við Sinfóníuhljómsveitina. Ég var ekki að harma það, að verið væri að spila Beethoven til að mynda. Kannske er það öllum fyrir bestu að hann verði spilaður til eilífðarnóns. Hann er ágætur. En ég hefði ekkert á móti því að fá nokkrar nýjar sinfóníur eftir Íslendinga. Og ég álít að það gætu alveg eins leynst þeir hæfileikar með þessari þjóð, eins og þar suður í hinum þýskumælandi heimi, að einhverjir meistarar kæmu upp, jafnvel sambærilegir við Beethoven. Það er engin goðgá að láta sér detta slíkt í hug. Og í þessu sambandi vil ég ítreka það, sem ég hef áður sagt um þá blómlegu leiklistarstarfsemi, sem á sér stað úti um allt land, og þann áhuga, sem þjóðin sýnir þeirri starfsemi, og þá sköpunargleði, sem upp er komin víðs vegar hjá þjóðinni og lýsir sér m.a. í því, að í smábæjum er farið að semja leikrit sérstaklega fyrir svið viðkomandi ungmennafélags eða leikfélags; ég efast um að menn geri sér ljóst hvað hér er að gerast; en upp úr þessum jarðvegi á eftir að spretta eitthvað stórt, kannske ekki fyrr en við öll erum komin undir græna torfu. En þetta á eftir að koma. Menningarfrægð þessarar þjóðar verður þá mest á sviði leikritunar. Það skuluð þið vita. Þetta er mjög athyglisverð þróun og góð þróun. Og hún sprettur af því, að öll þjóðin tekur þátt í þessu.

Það er létt verk að koma sér vel við þá sem maður kynni að hitta í hléi á sinfóníutónleikum, með því að býsnast hér yfir því, að vissir sveitamenn séu að gerast ærið skuggalega ofsóknargarnir gagnvart þessu virðulega menningarfólki, þessu fólki hér í Reykjavík sem sækir sinfóníutónleika, frumsýningar og annað slíkt. En þessi þjóð bjargast ekki fyrir það fólk. Hún bjargast yfirleitt ekki fyrir það sem gerist í hléinu á frumsýningum eða á sinfóníutónleikum uppi í Háskólabíói. Hún bjargast fyrir þá einlægu viðleitni sem á sér stað úti um allt land á sviði menningar og lista.

Ég veit ekki nema eðlilegur fjöldasöngur og heilbrigð sönggleði, ef takast mætti að efla slíkt í skólum og annars staðar, slíkur eðlilegur söngur og slík eðlileg sönggleði mundi hafa miklu meiri þýðingu fyrir menningu þessarar þjóðar heldur en allar sinfóníur Beethovens, jafnvel þó að þær séu fluttar af þeirri snilli sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur til að bera. „Telja eftir,“ sagði hv. þm. Magnús Torfi áðan, ég hafi verið að „telja eftir“ framlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég var ekki að því. Ég lýsti yfir því í ræðu minni, að ég fagnaði þessu frv., teldi að það væri gott að Sinfóníuhljómsveitin fengi þá peninga sem hún þyrfti. En það þurfa fleiri peninga til að halda uppi menningarstarfsemi, og ég vil að gefinn sé gaumur að því einnig.

Satt að segja er full ástæða til að flytja langt erindi um það, sem aðeins hefur verið tiplað á hér, það sem ekki má kanna, ekki má leiða í ljós tölulega, en það er sú menningarlega stéttaskipting sem orðið hefur í þessu landi undanfarna áratugi. Mín skoðun er sú, ef svona haldi áfram sem mig grunar að verið hafi að undanförnu með starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, að tiltölulega fáir gefi gaum að henni, tiltölulega fáir komi til að njóta þessarar dýrlegu listar, þá er þarna verið að efla menningarlega stéttaskiptingu. Og hana vil ég ekki hafa í þessu þjóðfélagi. Þetta er þess háttar þjóðfélag, að það á að geta verið laust við stéttaskiptingu hæði efnahagslega og menningarlega. Nóg er nú komið af þeirri efnahagslegu stéttaskiptingu, þó að ekki sé verið að magna þá menningarlegu.

Það er plagsiður þeirra hópa sem skipta sér mest af menningarmálum opinberlega, — ég ætla ekki að fara að undanskilja vissa hópa vinstra megin, þeir eiga þarna sinn þátt líka, — það er plagsiður þessara hópa að demba yfir þessa þjóð kenningum sem þeir hafa tínt upp úti í hinum stóra heimi, þar sem menningarstarfsemi er víða forréttindi fáeinna útvalinna, fáeinna ríkra eða fáeinna langskólagenginna. Þannig er það t.d. með leiklistarstarfsemina frægu í Bretlandi sem menn standa hér á öndinni yfir og þeim mönnum sem þaðan koma til þess að boða hennar kenningar. Þetta er menningarstarfsemi örfárra útvalinna. Maður kemur stundum í leikhús í Bretlandi þar sem tiltekin sæti hafa tilheyrt tiltekinni aðalsætt eða peningaætt kynslóð fram af kynslóð. Ef menn ætluðu að setjast í þessi sæti, þá færi nú að fara um það góða fólk, trúi ég. Kenningar frá þessum slóðum hafa dembst yfir okkur í sambandi við heimsóknir þaðan. Og menn standa gapandi af aðdáun. Allt í einu er enginn sannleikur handa leikhúsum hér uppi á Íslandi, annar en þessi stórisannleikur, sprottinn upp úr þessum jarðvegi, þessum yfirstéttarforréttindajarðvegi, sem er leikhúslíf í London, þar sem menn hafa setið í sama sætinu kynslóð fram af kynslóð og eru orðnir menningarlega dofnir í rassinum. En ég leyfi mér að fullyrða, að boðskapur af þessu tagi á ekkert erindi við þessa þjóð. Það gæti verið að hann ætti eitthvert erindi við hana eftir að búið yrði að spilla henni svo og svo mikið með peningum og stéttaskiptingu. En hann á ekkert erindi við hana í dag, þvert á móti. Sannleikurinn er sá, að þessi þjóð gæti boðað þeim Bretum margan góðan sannleikann í menningarmálum.

Og þá kem ég aftur að rabbi okkar hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar áðan. Þegar hann minntist á þetta með Dagsbrún og þjóðleikhúsið, þá sagði ég honum frá hví, og ég segi hér með ykkur, hv. þm., frá því, að ég var fyrir nokkrum árum á leiklistarráðstefnu í Dyflinni og flutti þar erindi um íslenskt leikhúslíf og sagði einmitt frá þessu, að verkalýðsfélögin í Reykjavík keyptu iðulega upp heilar sýningar í Þjóðleikhúsinu. Á þessari ráðstefnu var heimsfrægur enskur leikhúsmaður. Hann stóð á öndinni og vildi endilega fá að heyra nánar um þetta. Þetta var aðstoðarleikhússtjóri Þjóðleikhúss Breta, hægri hönd Sir Laurenee Olivier, og þótti nú heldur betur tíðindum sæta þetta sem ég sagði frá Íslandi. Hann spurði mig hvernig við færum að þessu. Ég sagði honum að hér væri um að ræða eitt af því sem sjálfsagt væri og eðlilegt í þjóðfélagi eins og okkar, að Dagsbrúnarkarlarnir færu að sjá Shakespeare ekki síður en aðrir.

Nú ætla ég til upplýsingar fyrir hv. þm. Magnús Torfa, svo að hann skilji nú enn þá betur hvað fyrir mér vakir með þessum málflutningi, að segja það, að þessi maður, sem lýsti svo miklum áhuga á mínu máli og vildi fá nánari útlistanir, hann var býsna róttækur í skoðunum, — ég veit ekki hve róttækur, en ég get vel trúað að hann hafi verið jafnvel til vinstri við Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Og hann sagði: „Við gerðum könnun á stéttarstöðu gesta okkar, vegna þess að það vakti fyrir okkur að auka þátttöku hinna vinnandi stétta, verkalýðs, „manual workers“, — í þessari listastarfsemi okkar. Mér þótti það, satt að segja, óþolandi,“ sagði hann, „að vera að setja upp leiksýningar aftur og aftur fyrir sama fólkið. Og mér tókst á þessum tveimur árum,“ sagði hann, „að koma þátttökuprósentu verkalýðs úr 1% upp í 1.5%.

Hann innti mig sem sagt náið eftir því, hvernig við færum að þessu hér uppi á Íslandi. Ég ráðlagði honum að koma hingað og kynnast þessu þjóðfélagi. Þá kannske gæti hann lært sitthvað það sem gæti orðið til að bæta menningarhag Breta — með tilliti til þess að vinnandi stéttir tækju meiri þátt í lifandi menningu heldur en raun væri á.