21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

95. mál, hámarkslaun o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég læt í ljós ánægju með þá umr., sem hér er hafin. Hér er talað af hreinskilni um mikilvæg mál. Launakjör þm. og fleira varðandi þingmennskuna hefur verið mjög til umr. hjá þjóðinni og sætt gagnrýni. Þjóðinni hefur fundist margt vera þar grunsamlegt. Vegna þess að hreinskilnar umr. af okkar hálfu, sjálfra þm., um þetta hefur vantað, þá hefur það komist inn hjá stórum hluta þjóðarinnar, að þessi hópur, sem hér situr, sé allur spilltur, undantekningarlaust spilltur, og þessu fylgir svo það, að þjóðin fer að vantreysta Alþ. og stjórnmálamönnum yfirleitt. Og smám saman kemst þjóðin að þeirri niðurstöðu, að afskipti af stjórnmálum hljóti að þýða það sama og að menn séu spilltir, sent getur svo leitt til þess, að heiðarlegir menn veigri sér við að koma nærri stjórnmálum.

Án þess ég vilji fara frekar út í þetta, a. m. k, að sinni, þá get ég ekki látið hjá líða að víkja að máli þessu hv. þm., sem hér hefur verið helst til umr. Á Akranesi er öðru hverju gefið út blað sem beitir Skaginn, málgagn Alþfl., og það var einhvern tíma nú fyrri part vetrar eða í haust, að þar birtist viðtal við hv. þm. Benedikt Gröndal. Þar gefur hann skýringu á því, hvers vegna hann vill ekki fara aftur í framboð á Vesturlandi, en kýs að fara í framboð í Reykjavík. Það er vegna anna, miklu meiri anna en þeirra sem á honum hafa mætt fram til þess að hann varð formaður Alþfl. M. ö. o.: vegna þess að hann er formaður Alþfl., vegna þess að hann hefur svo mikið að gera getur hann ekki farið aftur í framboð á Vesturlandi, sem er þess háttar kjördæmi að ekki er hægt að rækja það samhliða formennsku í Alþfl. Til þess að rækja formennsku í Alþfl. þarf maður að vera þm. í Reykjavík.

Það hefur komið hér fram, og hv. þm. játað það sjálfur, að hann gegnir starfi sem hann fær fyrir 60% launa. M. ö. o.: ef hann vinnur til þessara peninga, þá fara 60% af vinnutíma hans í að gegna starfi sem forstjóri Fræðslumyndasafns ríkisins. Þess vegna verður maður dálítið hissa, að þessi maður skuli taka það ráð, vegna þeirra anna, sem fylgja því að vera formaður Alþfl., að hætta að vera í framboði á Vesturlandi. Ástæðurnar eru ekki þær, — menn taki eftir því, ég vil ekki að neinn misskilji þetta, — ástæðunnar eru ekki þær, að hann sé hræddur um að falla á Vesturlandi. En af hverju lætur þá maðurinn ekki af störfum sem forstjóri Fræðslumyndasafns ríkisins til að geta gegnt störfum sem formaður Alþfl., en veitt um leið Vestlendingum þá ánægju að hafa hann áfram í framboði? „Öryggisleysi,“ segir hv. þm. Það munar svo og svo fáum atkv. hvort hann heldur þingsæti eða ekki. Ég er nú ekki viss um það reyndar, að það muni núna miklu fleiri atkv. hér í Reykjavík þegar þar að kemur. Ekki er víst að það sé nokkuð sigurstranglegra að vera í framboði í Reykjavík, þegar til kastanna kemur, heldur en á Vesturlandi. Það er önnur saga. En hitt er rétt, að það fylgir því visst öryggisleysi að vera í pólitíkinni. Ef við föllum í kosningum, þá er gott að eiga í eitthvert hús að venda, hafa einhverja stöðu. Og ef hv. þm. hefði viljað tryggja sér þetta hús í að venda, þar sem er forstjóraembættið, ef hann hætti á þingi, þá gat hann að sjálfsögðu afsalað sér laununum og látið þá einhvern mann taka þar við, ef þyrfti. Þetta er hægt. Það veit ég sjálfur. Ég var kennari, þegar ég var kosinn á þing. Og samkv. reglunni átti ég að hafa, eins og fleiri reyndar kennarar hér á þingi, 40% af kennaralaunum. Og þau ákvæði uppálögðu mér í rauninni ekki neina skyldu. Jafnvel þó að ég gæti ekki kennt í þeim skóla, sem ég var við, þá átti ég rétt á þessum 40%. (Gripið fram í: 30%.) 30%, já, 30%. Ég kannaði,málið. Ef maður afsalaði sér þessum 30%, þá afsalaði maður sér um leið, samkv. kerfinu — þessu dýrlega kerfi okkar, réttinum til kennarastöðunnar. Þarna stóð heldur en ekki hnífurinn í kúnni. Ég og ýmsir fleiri sjálfsagt reyndum að vinna upp í þetta eftir megni með íhlaupakennslu hér í Reykjavík. Þá rakst maður aftur á kerfið. Það samrýmdist ekki kerfinu að maður kenndi, en vildi ekki taka kaup, vísaði til þess að maður fengi ákveðna prósentu af kennaralaunum. Þetta komst þó í gegn. Maður fékk það viðurkennt að geta unnið án þess að taka aukagreiðslu til viðbótar við þessi 30%. Loksins var það svo viðurkennt, að við gætum haldið okkar réttindum þó að við afsöluðum launum. Og það gerum við kennarar á Alþ. Ástæðan fyrir þessu, býst ég við, varðandi okkur öll, sem hér áttum hlut að máli, — þ. e. t. d. hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, hv. þm. Helgi Seljan og hv. þm. Karvel Pálmason og gott ef ekki hv. þm. Stefán Jónsson, en þar hefur víst gegnt eitthvað öðru máli, enda hafði hann aðeins kennt um skamman tíma, — en ástæðan til þessa var auðvitað sú, að fólk er með í sál sinni það sem heitir samviska. Og hún er misjafnlega góð. Og flestir vilja hafa hana sem besta. Og það fylgir því ekki góð samviska, tel ég, hjá venjulegu fólki að hirða kaun fyrir störf sem ekki eru unnin. Með þessu er ég ekki að gefa neitt í skyn. Það liggur í augum uppi, að maður með starfsþrek Benedikts Gröndals vinnur fyrir 60% af forstjóralaunum sínum. Hann gerir þetta bara í viðbót við formennskuna og þingmennskuna, — sjálfsagt í kvöld- og næturvinnu. Ég er ekki í neinum vafa um það.

Ég leyfi mér að benda hv. þm. Benedikt Gröndal á þessa leið. Það er ekki þar með sagt, að hann þyrfti að afsala sér örygginu, því öryggi sem fylgir því að eiga í hús að venda þar sem er forstjórastarf, þó hann afsalaði sér laununum, — og sleppi þá við nætur- og kvöldvinnu í Fræðslumyndasafni ríkisins.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég er feginn þeirri hreinskilni, sem hér er upp komin. Mættum við fá meira af slíku. Og ég vænti þess að fjölmiðlar þeir, sem hér eru viðstaddir, — það mun reyndar ekki vera nema einn, — geri þjóðinni rækilega grein fyrir. þessari umr. hér, betri grein en ég tel að þessi fjölmiðill, sem hér um ræðir, hafi gert ýmsum stórmálum, sem hér hafa verið uppi. Það er annað mál.

„Að setja sig í dómarasæti,“ sagði hv. þm. Benedikt Gröndal, „að hefja hér ræðuhöld.“ Ég er ekki frá því að það mættu vera fleiri slík réttarhöld hér yfir okkur sjálfum öðru hverju, að við gagnrýndum okkur sjálfa, stundum betur.

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á þeim skrýtnu upplýsingum varðandi blaðamennsku Alþfl., sem felast í því, að það eru þrír menn, skilst mér, sem skrifa undir dulnefninu Ó til skiptis. Það fer væntanlega eftir því, í hvernig skapi þeir eru hverju sinni, hvort þeir skrifa undir sínum eigin stöfum eða Ó. Mér þætti fróðlegt að vita, hvenær menn skrifa undir dulnefninu Ó og hvenær menn setja t. d. BG undir. Það var ekki Benedikt Ó. Gröndal, sem skrifaði þetta. Það væri þá fróðlegt að vita, hvort það var Sighvatur Ó. Björgvinsson eða Árni Ó. Gunnarsson. Ég hef satt að segja sjaldan heyrt einkennilegri upplýsingar varðandi blaðamennsku. Ég vona að þetta eigi ekkert skylt við orðið óþverri, — það sé ekki þess vegna sem þessi aðferð er valin,

Og svo eitt að lokum til marks um heiðarleikann. Hér er komin fram till., segir hann, hv. þm. Benedikt Gröndal, flutt af Gylfa Þ. Gíslasyni, til siðvæðingar, aukinnar siðvæðingar hér á Alþ., þ. e. a. s. að „leyninefndin“ ákveði ekki lengur launin, heldur annar aðili. Og þingmaðurinn segir: Gylfi Þ. Gíslason fór hér á milli manna til þess að fá meðflm. og honum tókst ekki að fá nema Ellert B. Schram. — Mér þætti fróðlegt að vita, til hve margra hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason leitaði. Ekki talaði hann við mig. Og ég efast satt að segja um að hann hafi talað við neinn nema Ellert B. Schram.