31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

147. mál, orkusparnaður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki leyfa mér að fara að gerast langorður um atriði sem varða ekki beint þá till. sem hér er til umr., en að margítrekuðu tilefni þykir mér rétt aðeins að víkja að örfáum atriðum.

Ég vil aðeins segja það, að hv. fyrri flm. þessarar till. og ég erum sammála um efni og meðferð till. sem hér liggur frammi. En hér hafa upphafist almennar umr. um orkumál. að vissu leyti á hefðbundinn hátt hér á hv. Alþ. Það hefur verið talað um þetta mál vítt og breitt og hin óskyldustu atriði komið hér til umr.

En það er kannske rétt aðeins að hafa í huga hvert er markmið okkar allra, þegar við viljum gott gera í þessum málum, þ. e. a. s. að hagnýta innlenda orkugjafa þannig að fullnægt verði svo sem verða má orkuþörf landsmanna á þann hátt. Það, sem skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, er að hagnýta innlenda orkugjafa til upphitunar húsa. Það er ekki einungis, að það þarf miklu meiri orku til þessa heldur en til almennrar notkunar í landinu. Það hefur á þessum vettvangi skapast sá vandi sem sérstaklega hefur verið rætt um hér. mismunurinn á orkuverði til upphitunar húsa eftir því hvar er á landinu. Þetta þarf ekki að rifja upp í löngu máli. Við höfum öll í huga mismuninn á orkuverði þar sem um er að ræða hagnýtingu jarðvarma annars vegar og olíu hins vegar.

Það er rétt, sem hv. þm. Tómas Árnason sagði áðan, ég efast ekki um að það er rétt, að hann hefði orðið undrandi á því, hve lítill munur væri á kostnaði við upphitun húsa með olíu og rafmagni. Ég varð líka undrandi á þessu, og þá hef ég að sjálfsögðu í huga beina rafmagnsupphitun. Það er ekki mikill munur þarna á. Við skulum segja að rafmagnið, sem fengið er með vatnsvirkjunum, sé nokkru ódýrara þegar best gegnir, en rafmagn til upphitunar, sem fengið er með keyrslu dísilvéla, er dýrasta upphitun húsa sem hægt er að fá miðað við þær orkutegundir sem við notum. Og það er einmitt ólán, liggur mér við að segja, að á síðari árum hefur skapast það ástand, að við höfum í æ ríkara mæli búið við slíka upphitun húsa. Þetta hefur verið hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og það hefur ekki síst og raunar fyrst og fremst valdið þeim erfiðleikum sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa komist í.

Það er ákaflega hægur vandi fyrir mig og aðra að fara hér fjálglegum orðum um það, hvernig eigi að bæta úr þessu, t. d. með því að greiða niður þessa orkunotkun með hækkuðu verðjöfnunargjaldi eða beinum framlögum úr ríkissjóði. En það er eitt, sem við eigum að hafa í huga þegar við ræðum um þessi mál, að það er ekki aðalatriðíð að greiða niður þá óhagkvæmustu orku sem við getum notað. Það er aðalatriðið að beina orkunotkuninni í aðrar áttir, og það er það sem er höfuðviðfangsefnið.

Það var ákaflega ánægjulegt að heyra hér áhuga hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar á því að gera gott í þessum efnum. Ég hefði gjarnan viljað, ef hann hefði verið nú hér viðstaddur, segja nokkur orð við hann í því tilefni. En ég verð að neita mér um það. Síðan hann hætti að vera ráðh. hafa gerst umtalsverð straumhvörf í þessum efnum sem mestu máli skipta. Við munum það, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var því lýst yfir í þskj., að það mundi ekki vera möguleiki, að nema um það bil 50% landsmanna gætu notið upphitunar húsa sinna frá jarðvarma, og því yrði að hverfa að annarri lausn í þessu efni. En nú er svo komið, vegna þess að það hefur verið lögð höfuðáhersla á að kanna svo sem verða má hvar er hægt að hagnýta jarðvarma til upphitunar húsa, að það eru 70–80% af landsmönnum sem hafa í dag möguleika á upphitun húsa sinna með jarðvarma. Þetta er stórkostlegasta framfaraspor sem hefur verið stigið á síðustu árum. En auk þess er lagning byggðalínanna nauðsynlegt skref til þess að gera að' möguleika hagnýtingu rafmagns frá vatnsvirkjunum, hagkvæmum vatnsvirkjunum, þar í landinu sem ekki er hægt að hagnýta jarðvarmann. Og á þessu sviði eru að ske einmitt núna og hafa verið að ske undanfarin ár stórir hlutir. Þetta þurfum við að hafa í huga. Með þessum aðgerðum er markvisst unnið að því að minnka vandamálin, þannig að það verða alltaf færri og færri sem þurfa að búa við upphitun húsa sinna með olíu, og það þýðir jafnframt það, að hægt er fyrir bragðið að gera meira fyrir þá hina fáu, sem verða háðir olíunni í formi þess að greiða niður olíuverðið. Þetta er raunhæf stefna og raunhæfar aðgerðir í þessum málum, og ummæli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar komu mér til þess að minna á þetta. En ég hefði helst viljað og talið mesta þörf á að minna hann sjálfan á þetta.

Það hefur verið rætt hér um vandamál Rafmagnsveitna ríkisins, og ég skal ekki fara út í þá sálma. En ég er sammála þeim, sem hafa sagt að það er ekki nægilegt í því efni annaðhvort að hækka verðjöfnunargjaldið eða taxtana, verð orkunnar, til þess að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins. Það er mín skoðun. Ég er að sjálfsögðu sammála þeim hv. þm. sem hér hafa minnst á það fordæmi í þessu sambandi sem er að finna í stofnun Orkubús Vestfjarða. Því hefur verið haldið fram, bæði af mér og öðrum, í öllum málflutningi fyrir stofnun Orkubús Vestfjarða, að auðvitað kæmi ekki annað til greina en að aðrir landshlutar hljóti hliðstæða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera og Vestfirðingar hafa fengið, — ég segi hliðstæða. Þá verður líka að hafa það í huga, að Vestfirðingar hafa lagt fram sínar héraðsveitur og eru eignaraðilar að nýju félagi og taka á sig skuldbindingar og ábyrgðir í samræmi við það. — Þetta vildi ég sagt hafa í sambandi við Rafmagnsveitur ríkisins.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi koma inn á, sem hv. þm. Stefán Jónsson vék að. Hann var að gera því skóna, að það væri möguleiki að flytja út heitt vatn, flytja til útlanda og selja þar á markaði til upphitunar húsa. Hann fullyrti að það væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir þessu. Ég þori ekki að taka undir það. Ég hélt að það væri ekki fullkannað. En hann kom með þá hugmynd, hvort hægt væri að fara þá leið að flytja vatn innanlands, t. d. til staða á Austfjörðum. Ég skal láta þess getið í þessu sambandi, að það var gerð áætlun um flutning á vatni innanlands, sem svo kölluð orkunefnd Vestfjarða lét gera þegar hún vann að undirbúningi að stofnun Orkubús Vestfjarða. Það voru gerðar kostnaðaráætlanir um flutning á vatni úr Reykjanesi við Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar. Það voru sjö sérfræðingar sem unnu að þessu af miklum lærdómi og kostgæfni. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki fjárhagslegur grundvöllur fyrir þessu. Ég læt þetta hér koma fram að gefnu tilefni.

Ég skal svo að lokum algerlega leiða hjá mér að fara að ræða um skipulag orkumála. Menn hafa lítillega komið inn á þau mál í þessum umr. og sumir hverjir lagt mikla áherslu á að það þurfi að breyta um skipulag. Það er unnið að endurskoðun þessara mála, og auðvitað er þá gert ráð fyrir breytingum. Hér hafa sumir talað eins og það væri allra meina bót að stofna eitt fyrirtæki sem næði til alls landsins varðandi orkuframleiðsluna, þá yrði orkan ódýrust. Ég mundi orða þetta öðruvísi. Orkan er þeim mun ódýrari sem virkjanirnar sjálfar eru hagkvæmari, hvar sem þær eru á landinu og hvaða aðill sem byggir þær.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson vék að till. framsóknarmanna, sem hér liggur fyrir þinginu og hefur verið rædd, og lét orð falla eitthvað á þá leið, að ég væri a. m. k. að einhverju leyti samþykkur þeirri till. Ég vil af þessu tilefni láta þess getið, að sömu ummæli hafði hér áður vinur minn, hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson. En ég svaraði honum þá á þann veg, að ég liti á það sem sérstakan velvilja í minn garð, að hann vildi halda því fram að ég væri áhangandi hinnar einu réttu stefnu í þessum málum. En hins vegar mætti skilja minn málflutning á þann veg, að þeir, sem væru andvígir þessu, gætu ekki með minni rétti sagt að ég væri andvígur þessari till. framsóknarmanna. Sannleikurinn er sá, að ég hef sagt hér áður, að allar hugmyndir eigi að koma til athugunar og engu að kasta fyrir fram þegar skipulag orkumálanna er endurskoðað og gerðar till. um það.