05.04.1978
Efri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

230. mál, kaup ríkisins á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Hér er hafin umr. um frv. til l. um kaup ríkisins á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn á Langanesi. Þau vandamál, sem skapast hafa í atvinnulífi Þórshafnar á undanförnum árum, hafa mjög, verið til umræðu meðal þm. kjördæmisins, í ríkisstj., í Framkvæmdastofnun, á Alþ. og raunar víðar. Ég er þeirrar skoðunar, að innan þingmannahópsins hafi verið ágæt samstaða um að vinna að því heils hugar að styðja Þórshafnarbúa til þess að koma atvinnumálum staðarins í sem best horf. Ég tel að þm. kjördæmisins með 1. þm. þess í broddi fylkingar hafi þar unnið mikið verk, þó að enn þá sé árangur þess verks ekki að fullu kominn í ljós.

Það er öllum kunnugt, sem hér eru, að frumorsökin að þeim vandamálum, sem nú steðja að Þórshafnarbúum, er sú staðreynd, að fiskimiðin, sem Þórshafnarbúar hafa sótt á undanförnum áratugum, Þistilfjörðurinn, sem hefur verið mjög gjöful fiskislóð, hafa brugðist að verulegu leyti á undanförnum árum. Það var ekki fyrr en hafði dregið mjög verulega úr afla bátanna á Þórshöfn sem farið var að huga að því að kaupa togskip fyrir staðinn. Ekki er ástæða til þess, að ég fari að rekja þá sögu hér. Komið hefur áður fram, að því miður var það skip, sem keypt var, ekki nógu gott. Það bilaði hvað eftir annað og útgerð þess hefur ekki gengið vel. Ástæðan til þess, að ekki var fyrr af stað farið með kaup á togskipi til Þórshafnar en raun bar vitni, mun fyrst og fremst hafa verið sú, að Þórshafnarbúar höfðu gert ráð fyrir að byggja útgerð sína áfram á bátaafla af þeim gjöfulu miðum sem þeir hafa haft rétt við bæjardyrnar. Því er ekki að neita, að þær umræður og sú vinna, sem hefur verið lögð í atvinnuvandamál Þórshafnar, hefur verið mjög tengd skipi á undanförnum tveimur árum.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem sagt hefur verið um aðdragandann að flutningi þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég efast um að þetta sé rétta leiðin til þess að koma fram þeim umbótum og ná þeim markmiðum sem við stefnum að í atvinnumálum Þórshafnar. Þó vil ég gjarnan taka undir það, að ég álít mjög mikilvægt að síldarverksmiðja sú, sem til er á Þórshöfn og ekki hefur verið starfrækt nema sem beinaverksmiðja á undanförnum árum, verði endurbyggð svo fljótt sem kostur er á.

Það er ekkert óeðlilegt, þar sem allmargir fjalla um eitt og sama mál, að upp komi misjöfn viðhorf til þess hvernig auðveldast sé að leysa málin, hvernig varanlegust og heppilegust lausn fást. Ég get gjarnan látið það í ljós sem mína skoðun, að ég tel að heppilegra hefði verið að geyma flutning frv. sem þessa þangað til búið væri að tryggja framgang þess í þinginu. Eins og fram hefur komið flytja þm. Norðurl. e. þáltill. um atvinnumál og félagsleg vandamál Þórshafnar. Mun þm. fljótlega gefast kostur á að kynnast ekki aðeins þáltill., heldur grg. og umfangsmiklum fskj. sem þeirri grg. fylgja. Hefði að ýmsu leyti verið eðlilegast að umr. um þessi vandamál hefðu beðið þeirrar þáltill., því að þeir sem kæra sig um geta fengið mjög miklar upplýsingar úr þeim fskj. sem þáltill. fylgja.

Mig langar að víkja örfáum orðum að ræðu hv. flm. frv. Ætla ég þó ekki að taka mörg atriði hennar til athugunar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. varð tíðrætt um þau veðrabrigði sem hefðu orðið við síðustu stjórnarskipti. Ekki vil ég gera lítið úr því, að myndarlega hafi verið tekið á atvinnumálum dreifbýlisins á vinstristjórnarárunum. Eins og kunnugt er tekur Framsfl. ekki aðeins þátt í þeirri ríkisstj., sem nú situr, heldur tók líka þátt í þeirri sem hvarf frá árið 1974. Ég er þeirrar skoðunar, að í öllum aðalatriðum hafi ekki síður verið vel haldið á atvinnumálum dreifbýlisins á þessum fjórum árum, eða hálfu fjórða ári, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, en var á vinstristjórnarárunum.

Að vísu er rétt, að erfiðleika hefur gætt á Þórshöfn. Þar hefur verið í gangi veruleg uppbygging, fyrst og fremst mjög myndarlegt hraðfrystihús og svo kaup togarans. Ég held að rétt sé að rifja það upp, hvaða fjármunir hafa farið frá Byggðasjóði til þessarar atvinnuuppbyggingar á Þórshöfn. Ég veit að vísu, að verðgildi krónanna var annað á vinstristjórnarárunum en nú er, en samt er það fyllilega athyglisvert, hversu miklum fjármunum hefur verið varið á Þórshöfn til atvinnuuppbyggingar á þessum síðustu árum, eins og víða annars staðar um land. Til frystihússins á Þórshöfn, sem er hið myndarlegasta mannvirki og þjónar nú ágætlega tilgangi sínum og er líklegt að verða áfram að verulegu leyti undirstaða atvinnulífsins á Þórshöfn, voru lánaðar á árunum 1973 og 1974 samtals 7 millj. kr. frá Framkvæmdastofnun. Á árunum 1975 og 1976 voru lánaðar til þessa sama frystihúss samtals 39 millj. kr. og árið 1978 7.6 millj. kr. Þetta finnst mér ekki bera þess vitni að hafi dregið úr fjárstreymi til Þórshafnar eftir að veðrabrigðin urðu 1974. Á árinu 1976 lánaði Framkvæmdastofnun til togarakaupanna 28.4 millj., til togaraútgerðarinnar á árinu 1977 15 millj. og það sem af er þessu ári 51.8 millj. Til viðbótar hafa svo Síldarverksmiðjur ríkisins lánað 50 millj. til þessarar útgerðar.

Raunar þarf ekki um það að deila, að enn er þessi útgerð ekki komin í það horf sem þyrfti að vera. Ég er flm. frv. algjörlega samþykkur um það, að á því er mikil þörf, að sú síldarverksmiðja, sem fjallað er um í frv., verði endurbyggð og þar hafin loðnubræðsla. En ég vil mótmæla því, að Þórshöfn hafi sérstaklega orðið hart úti hvað aðstoð snertir frá Byggðasjóði t. d. Ég fullyrði að málefni Þórshafnar, þó þau séu að ýmsu leyti erfið viðfangs, hafa fengið mjög rækilega athugun og úr vissum þáttum hefur verið leyst.

Þórshöfn er gamalt og virðulegt útgerðarpláss við Þistilfjörð. Þar hefur verið rekin mjög hagkvæm útgerð um langt skeið. Þar hefur eins og í öðrum sjávarplássum, ekki síst á Norðurlandi, ollið á ýmsu um aflabrögð og afkomu. Þar hafa verið örðugleikar á undanförnum árum, sem stafa að mínum dómi fyrst og fremst af því, að orðin var fiskþurrð á miðum Þórshafnarbúa á tímabili. Nú virðist nokkuð vera úr þessu að rætast, þó enn sé ekki séð að hve miklu leyti það verður. Þistilfjörðurinn, sveitarbyggðin í Þistilfirði, varð fyrir miklum áföllum á kalárunum svokölluðu, líklega meiri áföllum en nokkurt annað einstakt byggðarlag á þeim árum. Nú hefur það aftur á móti gerst, að landbúnaður stendur með blóma í Þistilfirði. Mér finnst ástæða til að ætla, að að þrátt fyrir þá örðugleika, sem hafa steðjað að atvinnulífinu á Þórshöfn, eigi þessi byggð sem er ein sú afskekktasta á landinu, a. m. k. eins örugga framtíð og við getum sagt að liðin tíð hafi verið.

Fleira hefur verið gert sem styður atvinnumál Þórshafnarbúa. Nokkuð hefur verið unnið þar að hafnargerð, þó það sé eins og víða annars staðar minna en skyldi. Það eru áætlaðar verulegar framkvæmdir við höfnina á þessu ári, m. a. er í þeim áætluðu framkvæmdum tekið mið af því, að bætt verði aðstaða til þess að taka við loðnu til löndunar ef verksmiðjan verður endurreist.

Unnið hefur verið mjög verulega að vegamálum héraðsins og ekki langt í land, þó að það sé nokkuð, að aðalvegir um héraðið séu mjög sæmilega vetrarfærir. Samgöngur við Raufarhöfn hafa verið stórbættar á undanförnum áratugum. Hitt er annað mál, að Þórshöfn er, eins og ég sagði áðan, afskekkt og samgöngur við svæðið þurfa að vera greiðar. Gera þarf enn verulegt átak í öllum þáttum samgöngumála, í bættri hafnaraðstöðu, bættri aðstöðu á flugvelli og bættri vegagerð, en þar er kannske einna stærsti þröskuldurinn, það sem enn er óunnið í vegi á Melrakkasléttu, en um þann veg fara Þórshafnarbúar mestan hluta ársins, þegar þeir þurfa að fara út úr héraðinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að bæta að öðru leyti miklu við það sem hér hefur áður verið sagt. Ég fagna því, að samstaða hefur náðst meðal allra þm. kjördæmisins um flutning þáltill. sem er í prentun og verður væntanlega lögð fram áður en löng stund liður. Ég veit ekki hvort það verður í dag eða á morgun. Ég fagna því, að flm. þessa frv. skyldi vilja verða flm. þáltill. líka. Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að vandamál eins og það, sem hefur komið upp á Þórshöfn, verði því aðeins leyst að þeir, sem gerst til þekkja, vinni að því af einlægni og af alhug að kynna þau vandamál, sem uppi eru, túlka sjónarmið heimamanna um lausn vandamálanna og reyna með aðstoð allra þeirra, sem þar eiga hlut að máli, að finna sem vænlegastar leiðir til úrlausnar.

Ég vil raunar endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég tel að frv., eins og það sem hér er til umr., hefði því aðeins átt að flytja að fullkomin samstaða væri um það meðal þm. kjördæmisins, það sé ekki sérstaklega líklegt til að gera nokkurt gagn nema það hefði verið hægt að standa að því á þann hátt. Ég tel að flm. hafi skort nokkuð þolinmæði í sambandi við þetta mál og hann hafi þess vegna unnið málinu vafasaman greiða með flutningi þessa frv.