03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4408 í B-deild Alþingistíðinda. (3736)

237. mál, sala eyðijarðarinnar Kollsvíkur í Rauðsandshreppi

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Landbn. Ed. hefur rætt frv. til l. um helmild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Kollsvík í Rauðasandshreppi. Borist hafa umsagnir til n. bæði frá jarðadeild landbrn., þar sem mælt er með að frv. verði samþ., og eins hefur borist umsögn frá Landnámi ríkisins, þar sem nokkur grein er gerð fyrir málinu. Niðurstaða þeirrar grg. er sú, að Landnámið mælir með því, að jörðin verði seld Össuri Guðbjartssyni bónda á Láganúpi.

Þarna er um að ræða eyðibýli og það er talið eðlilegt af þeim mönnum, sem um þetta hafa fjallað, að byggðin á Láganúpi verði styrkt með því, að bóndanum þar verði gefinn kostur á því að kaupa eyðibýlið Kollsvík og það muni stuðla að því, að byggð haldist á þessum stað, en á þessu svokallaða Kollsvíkursvæði er aðeins einn bóndi eins og er og langt til annarrar byggðar.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að rekja þetta nánar, en bæði hreppsnefnd Rauðasandshrepps og jarðanefnd Vestur-Barðastrandarsýslu hafa mælt með þessari jarðasölu við Landnámið.