Að leiðbeina sveitarstjórnum um allt það er lýtur að brunavörnum, þar á meðal að skilgreina þær brunatæknilegu kröfur sem vatnsveitukerfi sveitarfélaga eiga að uppfylla og hafa eftirlit með að þeim kröfum sé fullnægt.
Að yfirfara brunahönnun og uppdrætti af nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjum sem slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi vísar til hennar og stofnunin sjálf kallar eftir til að ganga úr skugga um að lögum og reglugerðum um brunavarnir sé fullnægt. Einnig skal Brunamálastofnun gefa út leiðbeiningar og reglur um brunavarnir og brunahönnun mannvirkja eftir því sem kostur er.
Að hafa forgöngu um að fylgt sé fyrirmælum reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, þar á meðal slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmanna.
Að hafa æfingar með slökkviliðum, svo og að stuðla að aukinni menntun slökkviliðsmanna og eldvarnaeftirlitsmanna, m.a. með því að gangast fyrir reglubundnum námskeiðum.
Að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi fyrir þá er sinna reglubundnu eldvarnaeftirliti; að gangast fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir hönnuði og aðra tæknimenn og kynna þeim nýjungar á sviði brunavarna; að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi meðal almennings.
Að semja árlega skýrslu um orsakir og afleiðingar eldsvoða. Vátryggingafélög skulu senda Brunamálastofnun, eigi síðar en 1. mars ár hvert, sundurliðaðar skýrslur um brunatjón á næstliðnu ári. Skal árleg yfirlitsskýrsla Brunamálastofnunar um eldsvoða birt opinberlega.